Þjónusta sérgreinalækna gjaldfrjáls fyrir börn
5. júní 2025
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að afnema tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu.

Afnám tilvísanaskyldu á eingöngu við um sérgreinalækna og það sem því fylgir til dæmis rannsóknir. Reglugerð um afnám tilvísanakerfis fyrir börn tekur gildi 1. júlí næst komandi. Ekki þarf þá lengur að greiða 30% af reikningi vegna barna ef þau eru ekki með tilvísun. Áfram þarf þó að skila inn beiðnum til sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga.
Alma segir ljóst að núverandi fyrirkomulag tilvísana barna hafi hvorki þjónað þeim tilgangi né skilað þeim árangri sem að var stefnt. Í dag leiði tilvísanakerfið til þess að börn efnalítilla foreldra sem þurfa tilvísun af fjárhagslegum ástæðum, bíða í mörgum tilvikum lengur eftir þjónustu en börn foreldra sem hafa fjárhagslega burði til að fara með börn sín til sérfræðinga án tilvísunar og greiða fyrir þjónustuna. Alma leggur áherslu á að heilsugæslan geti leyst úr stærstum hluta erinda þeirra sem til hennar leita. Hún hvetur því foreldra til að nýta áfram góða þjónustu heilsugæslunnar fyrir börn sín.
Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segist fagna innilega þessari ákvörðun ráðherra og því að hlustað hafi verið á óskir heimilislækna um að auka skilvirkni í heilbrigðiskerfinu og bæta þjónustu heilsugæslunnar með því að draga úr óþarfa pappírslálagi.
Samhliða afnámi tilvísunarskyldu mun heilbrigðisráðherra skipa starfshóp til að móta tillögur um hliðvörslu í heilbrigðiskerfinu til framtíðar.