Fara beint í efnið
Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Réttindagátt lokað

27. september 2024

Sjúkratryggingar voru með erindi á ráðstefnunni Tengjum ríkið sem haldin var 27. september 2024. Á ráðstefnunni voru kynntar ýmsar stafrænar þjónustulausnir sem innleiddar hafa verið að undanförnu hjá stofnuninni.

Ipad amma - Sjúkratryggingar

Í erindinu var Réttindagátt Sjúkratrygginga formlega lokað. Gáttin var bylting í upplýsingamiðlun þegar hún leit dagsins ljós árið 2011. Með nýrri tækni og áherslu á miðlun efnis réðust Sjúkratryggingar í samstarf við Stafrænt Ísland um að koma allri virkni sem var í Réttindagátt yfir á flokkinn heilsu á Mínum síðum á Ísland.is. Verkefnið hófst í nóvember 2022 en lauk formlega í byrjun þess árs.

Á mínum síðum, undir flokknum Heilsa, er að finna margvíslegar upplýsingar um réttindi og veitta heilbrigðisþjónustu. Upplýsingar um alla þjálfun, hjálpartæki og næringu eru gerð góð skil. Einnig er að finna upplýsingar um skráningu á heilsugæslu og tannlækni. Að auki eru ítarlegar upplýsingar um lyfjakaup, reiknivél fyrir lyfjakaup og lyfjaskírteini. Yfirlit yfir greiðsluþátttöku og greiðslustöðu er einnig að finna á Mínum síðum. Foreldrar geta svo auðveldalega sótt upplýsingar um börn sín með því að nýta virkni umboðskerfisins sem er innbyggt á Mínar síður.

Fleiri þjónustulausnir hafa verið innleiddar að undanförnu hjá Sjúkratryggingum svo sem þjónustuvefur, spjallmennið Askur og vefspjall sem svarar fyrirspurnum á opnunartíma. Að því tilefni fengu Sjúkratryggingar verðlaun á ráðstefunni fyrir að hafa stigið öll stafrænu skrefin.