Sjúkratryggingar auglýsa eftir aðila til viðræðna um sjúkraflug til útlanda
20. september 2024
Áformað er að semja við einn aðila um ábyrgð á sjúkraflugi til útlanda.
Með sjúkraflugi er átt við sjúkraflug til og frá Íslandi í sjúkraflugvél með sjúklinga sem eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Er þar átt við bæði flutning alvarlegra sjúkra og slasaðra sem geta ekki notað venjulegar farþegaflutningsleiðir auk þeirra sem þurfa að komast án tafar í líffæraígræðslu erlendis.
Samið verður um blandaða leið þar sem bæði verður lögð áhersla á rekstur innlendra flugrekstraraðila auk þess sem bjóða þarf upp á þann möguleika að boða sjúkraþotur erlendis frá þegar nauðsyn krefur. Lögð er áhersla á gott framboð vélarkosta með fullnægjandi aðbúnað. Félag sem tekur að sér sjúkraflug til útlanda þarf að bjóða upp á útkallsþjónustu með ábyrgð á svörun, samskiptum og framkvæmd sjúkraflutningsins. Samið verður við einn aðila sem ber fulla ábyrgð á verkinu, bæði vinnu vegna útkallsins og einnig viðeigandi flugrekstur og/eða samningsgerð við flugrekstraraðila. Ábyrgðaraðili þarf jafnframt að gæta að hagkvæmni, gæðum og eftirliti með viðsemjendum.
Auglýsing þessi og samningsgerð í kjölfar hennar fer fram á grundvelli IV. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Val byggir á því hvaða aðili uppfyllir ofangreindar kröfur með bestum hætti. Samið verður til allt að þriggja ára.
Aðilar sem vilja lýsa yfir áhuga á verkefninu sendi erindi á innkaup@sjukra.is eigi síðar en 1. október n.k. Val viðsemjanda verður tilkynnt í kjölfarið. Gert er ráð fyrir því að nýr samningur taki gildi þann 1. janúar 2025.
Í erindi skal koma fram eftirfarandi:
Upplýsingar um boðinn vélarkost.
Upplýsingar um verð til eins árs, að lágmarki annað hvort:
Blokktíma (tímagjald sem miðast við heildarfartíma (blokktíma))
Föst verð til helstu áfangastaða, þ.e. Gautaborgar, Stokkhólms, Malmö og Kaupmannahafnar.
Upplýsingar um mögulegan grunnkostnað vegna viðbragðs- og útkallsþjónustu.
Sé verð mismunandi eftir tegund vélar skal verð tilgreint fyrir hverja tegund fyrir sig.
Upplýsingar um verkferla við útkallsþjónustu.
Rökstuðningur fyrir hæfni með hliðsjón af kröfum í kröfuskjali.
Athugið: Eftirfarandi kostnaður er greiddur sérstaklega af Sjúkratryggingum og hefur ekki áhrif á boðið verð:
Kostnað við heilbrigðisstarfsfólk og sjúkraflutningamann, þegar á þarf að halda.
Kostnað vegna sjúkrabíla ef á þarf að halda.
Annan sérstakan kostnað sem til fellur og snýr ekki að verksala, m.a. tolla, afgreiðslugjöld, opnunargjöld flugvalla ef flogið er utan afgreiðslutíma þeirra sem og gistingu áhafnar gerist þess þörf.