Fara beint í efnið

11% aukning í sjúkraþjálfun milli ára

6. mars 2024

Einstaklingum sem nýttu sér sjúkraþjálfun árið 2023 fjölgaði töluvert frá árinu 2022. Þessi aukning skýrist væntanlega að einhverju leyti af því að Covid-19 dró úr aðsókn árið 2022 en einnig má gera ráð fyrir að breytingar á reglum um tilvísanir hafi haft áhrif og fjölgað einstaklingum sem nota sjúkraþjálfun. Meðalfjöldi koma er með svipuðu móti og síðustu ár, en er aðeins breytilegur á milli landshluta.

Heldriborgari - Sjúkratryggingar
Meðalfjöldi koma í sjúkraþjálfun milli ára

Hægt að sækja sjúkraþjálfun án tilvísunar

Í upphafi árs 2023 var gerð breyting á beinu aðgengi að sjúkraþjálfurum án tilvísunar frá lækni. Nú getur fólk getur sótt allt að sex meðferðartíma hjá sjúkraþjálfara án tilvísunar en Sjúkratryggingar greiða engu að síður sama hluta af kostnaðinum. Þessi heimild gildir einnig fyrir börn, en hafi þau ekki tilvísun greiða þau 30% af uppsettu verði en með tilvísun fá börn sjúkraþjálfun alfarið frítt. Þessar breytingar á tilvísanaskyldu voru gerðar til auka aðgengi að þjónustu fyrir þau sem þurfa á sjúkraþjálfun að halda og til að létta álagi af heilsugæslunni.

Fleiri sjúkraþjálfarar sinna heimasjúkraþjálfun

1.457 einstaklingar fengu heimasjúkraþjálfun á árinu 2023 sem var 17% aukning frá árinu áður. Fólk sem nýtur sjúkraþjálfunar heima hjá sér er oftast fatlað, aldrað eða mikið veikt fólk sem og einstaklingar sem eru að jafna sig eftir stórar aðgerðir. Fleiri sjúkraþjálfarar hafa sýnt áhuga á að sinna þessari þjónustu og fjölgaði þeim úr 132 í 197 á árinu. Heimasjúkraþjálfun er oft mikilvægur þáttur í því að styðja aldrað fólk til sjálfstæðrar búsetu og fresta þörf á dýrari úrræðum eins og hjúkrunarheimilum.

Útgjöld einstaklinga aukast

Útgjöld Sjúkratrygginga vegna sjúkraþjálfunar jukust um 7% milli ára en hlutur einstaklinga í útgjöldum var 21% hærri en árið áður. Það skýrist að mestu leyti af því að fleiri einstaklingar nýttu sér sjúkraþjálfun en þegar skoðuð eru útgjöld einstaklinga við hverja komu þá hækkuðu þau um tæp 11%.

Jafnframt skal bent á að flestir sjúkraþjálfarar hafa tekið aukagjöld til viðbótar við gjaldskrá Sjúkratrygginga frá því í janúar 2020 þar sem samningur hefur ekki verið í gildi síðan þá. Aukagjöldin eru almennt á bilinu kr. 1.800-2.500 í hvert skipti og koma ekki inn í greiðsluþátttökukerfið.

Konur nýta sjúkraþjálfun meira

Líkt og áður nýta konur sjúkraþjálfun talsvert meira en karlar en tæplega 37.000 konur sóttu sjúkraþjálfun árið 2023 á móti 25.000 körlum. Körlum fjölgaði þó umfram konur á árinu og varð 14% aukning í hópi karla á meðan hún var 9% hjá konum.

Aldur og kyn einstaklinga sem komu í sjúkraþjálfun 2023

Aldur og kyn einstaklinga sem komu í sjúkraþjálfun 2023

Aldur og kyn einstaklinga sem komu í sjúkraþjálfun 2022

Aldur og kyn einstaklinga sem komu í sjúkraþjálfun 2022

Aðgengi að sjúkraþjálfun ólíkt eftir landshlutum

Á Suðurnesjum eru langflestir íbúar á hvern starfandi sjúkraþjálfara og á Austurlandi eru þeir næstflestir. Ætla má að eftirspurn sé eftir fleiri sjúkraþjálfurum á þessum landsvæðum. Dreifing sjúkraþjálfara á landsvísu er frjáls og fer einungis eftir því hvar sjúkraþjálfarar eru búsettir og vilja veita þjónustu.

Dreifing sjúkraþjálfara á landsvísu

Töluverðu munar milli heilbrigðisumdæma á því hversu mörg skipti í sjúkraþjálfun eru að meðaltali notuð en sjá má að fólk á Suðurnesjum er með flest skipti á hvern einstakling á meðan fólk á Austurlandi er með fæst. Hér koma líklega til ýmsir þættir m.a. framboð á sjúkraþjálfun, framboð á annarri þjónustu tengdri þjálfun og heilsu auk ýmissa félagslegra, samfélagslegra og heilsufarslegra þátta.

Að hafa aðgang að sjúkraþjálfun stuðlar að auknum lífsgæðum fólks og eykur virkni þess á mismunandi æviskeiðum. Sjúkratryggingar semja um greiðsluþátttöku á þessari þjónustu við sjúkraþjálfara til þess að tryggja sem flestum þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu.