Fara beint í efnið

Fjögur spennandi störf auglýst hjá Sjúkratryggingum

26. janúar 2024

Sjúkratryggingar leita að öflugu fólki í störf á ýmsum lykilsviðum stofnunarinnar. Þetta er tækifæri til að vinna í spennandi og síbreytilegu umhverfi þar sem þú getur lagt þitt af mörkum til að tryggja heilbrigði þjóðarinnar. Umsóknarfrestur eftirfarandi auglýsinga er til og með 5. febrúar 2024. Hægt er að sjá frekari upplýsingar og sækja um störfin á Starfatorgi.

Sjúkratryggingar lógó

Samskiptastjóri Sjúkratrygginga
Sjúkratryggingar leita að öflugum og drífandi einstaklingi með brennandi áhuga á samskiptum og upplýsingamiðlun í starf samskiptastjóra.

Í starfinu felst ábyrgð á samskiptastefnu Sjúkratrygginga, ásamt almannatengslum, fjölmiðlasamskiptum, umsjón með kynningar- og útgáfumálum og frétta og greinaskrifum. Einnig mun samskiptastjóri hafa umsjón með stafrænni viðveru stofnunarinnar á samfélagsmiðlum og umsjón með efni sem birt er á heimasíðu.

Óskað er eftir einstaklingi sem hefur háskólamenntun sem nýtist í starfi og umtalsverða reynslu á sviði kynningarmála, samskipta og almannatengsla. Einnig er óskað eftir þekkingu og reynslu af vefstjórn og umsjón samfélagsmiðla og þekkingu og reynslu af íslensku fjölmiðlaumhverfi.

Skrifstofustjóri yfirstjórnar
Sjúkratryggingar leita að drífandi einstaklingi með reynslu af stefnumótun og brennandi áhuga á umbótum og nýsköpun í starf skrifstofustjóra yfirstjórnar.

Í starfinu felst náin vinna með forstjóra að stefnumótandi verkefnum stofnunarinnar sem og ráðgjöf við framkvæmdastjórn hennar. Einnig sér skrifstofustjóri um samhæfingu og eftirfylgni stefnumótunar og kemur að þróun og innleiðingu umbótaverkefna í starfsemi stofnunarinnar.

Óskað er eftir einstaklingi með meistaragráðu á háskólastigi sem nýtist í starfi. Viðkomandi þarf að hafa reynslu af stefnumótun og umbótum og er reynsla af starfi innan stjórnsýslunnar og reynsla af nýsköpunarmálum æskileg.

Leiðandi sérfræðingur í Samningadeild
Sjúkratryggingar leita að reyndum og drífandi einstaklingi með sem veigrar sér ekki við vinnu undir álagi í starf leiðandi sérfræðings í Samningadeild.

Í starfinu felst að vera í forsvari við samningagerð og bera leiðandi hlutverk í samningaviðræðum. Starfið felur einnig í sér frumathuganir vegna nýrrar þjónustu, setu í samstarfsnefndum vegna tiltekinna samninga og þátttöku í úttektum á samningum.

Óskað er eftir einstaklingi sem hefur háskólamenntun sem nýtist í starfi, svo sem á heilbrigðisvísindasviði, viðskiptafræði eða lögfræði. Kostur er að viðkomandi hafi reynslu af því að leiða samningaviðræður, reynslu af opinberum innkaupum og búi yfir góðri greiningargetu.

Einnig kemur til greina að ráða í starf sérfræðings í Samningadeild án leiðandi hlutverks.

Leiðandi sérfræðingur í Heilbrigðisþjónustudeild
Sjúkratryggingar leita að drífandi verkefnastjóra í starf leiðandi sérfræðings í Heilbrigðisþjónustudeild.

Í starfinu felst almenn verkefnastjórnun verkefna innan Heilbrigðisþjónustudeildar, skýrslugerðir vegna framkvæmda samninga og gerð þarfa- og kostnaðargreininga, ásamt virkri þátttöku í mótun stafrænnar þjónustu deildarinnar.

Óskað er eftir einstaklingi sem hefur háskólamenntun sem nýtist í starfi, s.s. á heilbrigðisvísindasviði. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af eða þekkingu á heilbrigðismálum sem og stjórnun og umsjón verkefna. Reynsla af gagnavinnslu og framsetningu tölulegra upplýsinga er einnig kostur.