Fara beint í efnið

Jólakveðja

21. desember 2023

Nú þegar jólahátíðin er að ganga í garð viljum við hjá Sjúkratryggingum þakka öllum okkar samstarfsaðilum fyrir gott og gjöfult samstarf á árinu. Í samvinnu við fjöldann allan af fólki höfum við veitt landsmönnum aðgang að fjölbreyttri heilbrigðisþjónustu.

jolakvedja-2023

Hér eru örfá dæmi um það sem við höfum fengist við á árinu:

  • Ljósmæður heimsóttu um það bil 3.700 nýfædd börn og foreldra þeirra á árinu. Alls voru þetta um 21.500 vitjanir sem Sjúkratryggingar greiða fyrir til að tryggja velferð nýbura og styðja við bakið á foreldrum á fyrstu dögum barnsins.

  • Tveir karlar yfir 100 ára fengu styrk vegna nýrra heyrnartækja á árinu en alls fengu 2100 einstaklingar á öllum aldri slíkan styrk. Við niðurgreiðum fjölmörg hjálpartæki til að bæta lífsgæði en tæplega 22.000 einstaklingar fengu einhver hjálpartæki til að létta þeim lífið á árinu.

  • Um 50 þúsund manns heimsóttu augnlækna á árinu en öll þjónusta sérfræðilækna er mikilvæg til að tryggja heilbrigði þjóðarinnar. Þetta endurspeglast í því að greiðslur Sjúkratrygginga vegna heimsókna til sérgreinalækna námu um 9 milljörðum á árinu og er einn stærsti liðurinn sem við sýslum með. Næstum annar hver landsmaður hitti einhvern sérgreinalækni á árinu eða alls um 170 þúsund manns.

  • Tæplega 2.200 aldraðir einstaklingar mættu í dagdvöl á einhverjum af þeim 46 stöðum sem Sjúkratryggingar hafa gert samning við. Tilgangurinn er að bæta lífsgæði með því að efla líkamlega virkni og félagslega þátttöku.

  • Á árinu veittum við 3,8 milljörðum í tannlækningar fyrir tæplega 63.000 börn enda skiptir miklu máli að leggja góðan grunn að tannheilsu út lífið.

  • 280.000 einstaklingar fengu niðurgreidd lyf af Sjúkratryggingum á árinu enda er það eitt af okkar meginhlutverkum að tryggja aðgang allra að lyfjum sem þau þurfa á að halda.

  • Við tryggðum aðgang að sjúkraflugi fyrir landsmenn og greiddum neyðarflug fyrir hátt í 500 einstaklinga ásamt því að tryggja aðgang heilbrigðisstofnana að sjúkraflugi fyrir nálægt 400 manns. Þetta eru að meðaltali tæplega þrjú sjúkraflug á dag.

Við sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og megi nýja árið færa landsmönnum öllum gæfu og góða heilsu.