Fara beint í efnið
Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Samningar um 700 liðskiptaaðgerðir undirritaðir

30. mars 2023

Samningar milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári voru undirritaðir í dag og staðfestir af heilbrigðisráðherra.

Undirritun samninga um liðskiptaaðgerðir 30. mars 2023

Með þessu nýtist betur afkastageta heilbrigðiskerfisins sem leiðir til styttri biðtíma sjúklinga eftir þessari mikilvægu þjónustu. Sjúklingum sem fá þjónustu á grundvelli samninganna er tryggð greiðsluþátttaka í samræmi við reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Samningana undirrituðu Sigurður Helgason fyrir hönd Sjúkratrygginga Íslands, Sigurður Ingibergur Björnsson fyrir hönd Klíníkurinnar og þeir Fidel Helgi Sanchez og Benedikt Árni Jónsson fyrir hönd Handlækningastöðvarinnar í Glæsibæ. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir þetta ánægjuleg tímamót.

Undirritun samninga um liðskiptaaðgerðir 30. mars 2023

Í upphafi árs 2023 biðu tæplega 2000 einstaklingar eftir liðskiptaaðgerðum hjá opinberum heilbrigðisstofnunum og langflestir þeirra höfðu beðið lengur en 90 daga. Liðskiptaaðgerðir eru gerðar á þremur opinberum heilbrigðisstofnunum, þ.e. á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Síðastliðin þrjú ár hefur fjöldi liðskiptaaðgerða á þessum stofnunum verið á bilinu 1.000 til 1.300 á ári að bráðaaðgerðum undanskildum. Þess ber að geta að Klíníkin hefur síðustu ár gert fjölda liðskiptaaðgerða á ári en þær hafa verið án greiðsluþátttöku hins opinbera.

Áhersla á þá sem lengi hafa beðið

Samkvæmt samningunum mun Handlæknastöðin í Glæsibæ framkvæma 100 mjaðmaliðskiptaaðgerðir og 300 hnjáliðskiptaaðgerðir á árinu. Klíníkin mun framkvæma 100 mjaðmaliðskiptaaðgerðir og 200 hnjáliðskiptaaðgerðir á árinu.

Markmið samninganna er að jafna aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu og leitast við að auka afköst kerfisins. Þannig er hægt að bregðast við bæði uppsafnaðri og aukinni þörf á liðskiptaaðgerðum. Í samningunum er sérstaklega kveðið á um að þjónusta við notendur verði ávallt í fyrirrúmi og að aðgerðirnar séu framkvæmdar á hagkvæman og skilvirkan hátt. Áhersla verður lögð á að framkvæma aðgerðir hjá einstaklingum sem hafa beðið lengi eftir aðgerð.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra:

Þetta eru ánægjuleg tímamót. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Þessir samningar munu tryggja jafnt aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Samningarnir eru einn liður í því að stuðla að aukinni samvinnu allra aðila heilbrigðiskerfisins og auka afkastagetuna. Þannig stuðla samningarnir að auknu, tímanlegu og jöfnu aðgengi að liðskiptiaðgerðum.

Við búum svo vel að eiga fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar tegundir aðgerða. Við höfum því fulla burði til þess að stytta bið og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptiaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga:

Samningar um liðskiptaaðgerðir eru mikilvægur þáttur í að stytta bið eftir mikilvægri heilbrigðisþjónustu. Það er fagnaðarefni fyrir Sjúkratryggingar að standa að þessu mikilvæga verkefni og að náðst hafi góð samvinna við fyrirtækin tvö. Það er eitt lykilhlutverka Sjúkratrygginga að stuðla að sem bestu aðgengi og takmarka óhóflega bið eftir þjónustu.