187 ný hjúkrunarrými á tveimur nýjum hjúkrunarheimilum
12. desember 2025
Tvö ný hjúkrunarheimili bæta við 187 hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári og 2027

Niðurstaða útboð vegna reksturs nýrra hjúkrunarheimila liggur nú fyrir. Sjúkratryggingar hafa ákveðið að taka tilboði Eirar annars vegar og Heilsuverndar hins vegar.Eir mun annast rekstur hjúkrunarheimilis að Nauthólsvegi 50 í Reykjavík en Heilsuvernd rekstur hjúkrunarheimilis að Urðarhvarfi 16 í Kópavogi.
Með tilkomu þessara tveggja nýju hjúkrunarheimila bætast við alls 187 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Um 3.000 hjúkrunarrými eru víðs vegar um landið og því um töluverða viðbót að ræða.
Víðtæk og farsæl reynsla rekstraraðila
Báðir rekstraraðilar hafa víðtæka og farsæla reynslu af rekstri hjúkrunarheimila. Eir hefur fengið Nauthólsveg 50 og Heilsuvernd Urðarhvarf 16. Samkvæmt lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 (OIL) er heimilt að ganga til samninga án biðtíma og er því kominn á samningur.
Hjúkrunarheimilin munu komast í gagnið 2026 og 2027. Nokkuð langt er liðið síðan ný hjúkrunarheimili hafa verið reist á höfuðborgarsvæðinu, en síðast var Hrafnista á Sléttuvegi opnuð árið 2020.
