Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Ávarp forstjóra - Ársskýrsla 2024

Inngangur

Markmið Sjúkratrygginga er að verða miðstöð þekkingar um kaup og greiðslur á sviði heilbrigðisþjónustu og ráða yfir bestu fáanlegri þekkingu á aðferðum sem nýttar eru til greiðslu í heilbrigðisþjónustu. Með því hámörkum við samfélagslegan ábata af heilbrigðiskerfinu og tryggjum aðgang og gæði fyrir alla.

Sigurður forstjóri Sjúkratrygginga

Lykiltölur

Heildarútgjöld Sjúkratrygginga fyrir alla málaflokka námu samtals um 243 milljörðum árið 2024 m.v. rúmlega 218 milljarða árið 2023. Kostnaður vegna réttindaflokka Sjúkratrygginga jókst um 25 milljarða milli ára og munaði þar mestu um mikla hækkun á lækniskostnaði sem jókst um 4,8 milljarða á milli ára, þar af 3,5 milljarða vegna sérgreinalæknasamningsins sem tók gildi á miðju ári 2023.

Kostnaður vegna þjálfunar jókst um 2,2 milljarða milli ára sem skýrist að mestu af nýjum samningi við sjúkraþjálfara. Lyfjakostnaður jókst um tæpar 700 milljónir á milli ára en árið á undan hækkaði lyfjakostnaður um 3 milljarða á milli ára og við því var brugðist svo hægja mætti á útgjaldaaukningu. Í töflu má sjá nánara niðurbrot eftir ýmsum málaflokkum, m.a. öldrunarstofnunum og ýmsum öðrum liðum s.s. heilsugæslu, sjúkraflutningum og endurhæfingu.

Mikill gangur í samningum

Eitt veigamesta hlutverk Sjúkratrygginga er gerð og utanumhald samninga um veitingu heilbrigðisþjónustu. Á árinu 2024 héldu Sjúkratryggingar áfram að styðja við þróun og aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt. Alls voru undirritaðir 847 nýir samningar, þar á meðal við 542 sjúkraþjálfara og 219 tannlækna, auk þess sem 47 sérgreinalæknar bættust við samninga. Heildarfjöldi samninga og samkomulaga var rúmlega 1.500 í lok árs. Af þessum rúmlega 1.500 samningum eru 412 þjónustusamningar við sérgreinalækna, aðrir samningar um heilsugæslu og læknisþjónustu 61, 57 samningar vegna öldrunarþjónustu, 84 vegna hjálpartækja og aðrir samningar um þjálfun og endurhæfingu 22.

Það var sérstakt fagnaðarefni að samkomulag náðist við Tannlæknafélag Íslands um nýjan fimm ára samning en þetta er fyrsti heildarsamningur sem gerður hefur verið við tannlækna. Þá var skrifað undir samninga við sjúkraþjálfara eftir áralangt samningsleysi þar sem mikilvægum ákvæðum um fyrirkomulag þjónustu var bætt inn í samningana. Alls voru 609 sjúkraþjálfarar með samning við Sjúkratryggingar undir lok árs 2024.

Ný stefna Sjúkratrygginga

Á árinu 2024 var lagður grunnur að umbreytingu á starfsemi Sjúkratrygginga sem hefur það að markmiði að færa stofnunina nær því hlutverki sem henni var ætlað í upphafi. Í byrjun árs var farið í umfangsmikla stefnumótun en meginstef hennar var að skerpa á hlutverki Sjúkratrygginga og auka skilvirkni í þeim verkefnum sem Sjúkratryggingum er ætlað að sinna.

Sjúkratryggingar munu kappkosta að tryggja sjálfbæra kostnaðarþróun og styðja við forgangsröðun stjórnvalda í heilbrigðismálum. Lögð verður áhersla á greiningu til að auka gagnsæi og stuðla að markvissri stefnumótun þar sem lögð verður áhersla á að mat á þörf fyrir þjónustu byggi á traustum gögnum, s.s. um þróun og tíðni sjúkdóma.

Þá kveður stefna Sjúkratrygginga á um að nýta fjölbreytt greiðslukerfi þar sem vægi þjónustu- og árangurstengdrar fjármögnunar verði aukið og fjárhagslegum hvötum beitt með markvissum hætti til að hafa áhrif á gæði og samsetningu þjónustu.

Stefnt er að því að stafræn þjónusta og sjálfsafgreiðsla verði meginform í veitingu þjónustu til almennings, afgreiðsla verður einfölduð og afgreiðslutími erinda styttur með stafrænum lausnum. Ferlar verða einfaldaðir og samræmdir og sjálfvirkni verður nýtt til að stuðla að markvissu eftirliti með greiðslum og þjónustu. Þannig veitum við framúrskarandi þjónustu sem byggir á stafrænum lausnum og sjálfsafgreiðslu.

Skilvirkt skipulag – bætt þjónusta

Árið 2024 einkenndist af skipulagsbreytingum á starfsemi Sjúkratrygginga en þær breytingar voru gerðar til að stuðla að skilvirkri innleiðingu nýrrar stefnu með því að tengja betur stefnu og skipulag. Nýtt skipulag tók gildi í júní og var meginstef breytinganna að fækka skiplagseiningum og sameina deildir þannig að boðleiðir yrðu styttri sem gerir upplýsingamiðlun, ákvörðunartöku og framkvæmd skilvirkari. Þannig bætum við þjónustu við almenning og fagaðila heilbrigðisþjónustu.

Öflugt og samhent starfsfólk er undirstaða alls þess sem við gerum hjá Sjúkratryggingum. Á árinu 2024 var lögð sérstök áhersla á að efla mannauðsstjórnun og styðja við faglegan vöxt starfsfólks. Með þessu viljum við tryggja að Sjúkratryggingar verði áfram eftirsóttur vinnustaður og að við höfum ávallt sterkan hóp starfsfólks sem veitir framúrskarandi þjónustu. Við horfum fram á veginn full tilhlökkunar, staðráðin í að efla Sjúkratryggingar sem lykilstoð í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er markmið Sjúkratrygginga með breyttri stefnu og nýju skipulagi að sinna betur hlutverki okkar í íslensku heilbrigðiskerfi og tryggja jafnt aðgengi allra að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, þjóðinni allri til hagsbóta.