Ávarp forstjóra - Ársskýrsla 2023
Nú er rúmlega ár liðið frá því ég bættist í öflugan hóp fagfólks og sérfræðinga Sjúkratrygginga. Starfsfólkið mótar stofnunina og vinnur ötullega að því að færa hana inn í nýja tíma með eldmóð og fagmennsku að leiðarljósi.
Sjúkratryggingar gegna mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustunni okkar. Það er metnaður okkar allra að stuðla að jákvæðri framþróun þjónustu við almenning. Þetta gerum við meðal annars með því að tryggja að á Sjúkratryggingum ríki lifandi, jákvætt og samkeppnishæft starfsumhverfi sem ýtir undir frumkvæði og umbætur. Það leiðarljós gerir vinnustaðinn okkar eftirsóknarverðan og góðan stað til að vinna á.
Hjarta Sjúkratrygginga er þjónustan sem við veitum en hún á veigamikinn þátt í að knýja gangverk heilbrigðisþjónustunnar. Stofnunin sinnir ekki aðeins lögbundnum skyldum heldur leitast starfsfólk við að skilja aðstæður allra sem til okkar leita, og sinnir sínu starfi af alúð og skilningi. Við berum virðingu fyrir öllum og réttindum þeirra því við erum fyrir allt fólk.
Það er ógjörningur að tíunda mikilvægi allra þeirra verkefna sem við vinnum að hjá Sjúkratryggingum, enda er hér um að ræða lykilstofnun í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Hvort sem það eru námskeið, útboð, samningar, greiðslur, umbætur stafrænna lausna, afgreiðsla umsókna eða úthlutun hjálpartækja, þá eru verkefnin mýmörg og handtökin nánast óteljandi.
Með nýtingu stafrænna lausna vinnum við úr miklu magni upplýsinga. Þannig verða til gögn sem við getum nýtt okkur til að greina og skilja betur verkefni okkar. Markviss hagnýting gagna hjálpar okkur og öðrum við að taka upplýstar ákvarðanir. Með slíkri greiningu er hægt auka gagnsæi og stuðla að markvissri stefnumótun. Það er okkar ásetningur að gögnum verði miðlað með markvissum hætti til almennings, notenda og veitenda. Þannig verður þjónustan betri og hagkvæmari.
Nokkrar lykiltölur
Heildarútgjöld allra málaflokka Sjúkratrygginga árið 2023 námu samtals rúmlega 157 milljörðum króna sem gera nálægt 12% af heildar útgjöldum ríkisins. Stærsti hluti þessara framlaga er ráðstafað til veitenda heilbrigðisþjónustu á grundvelli samninga og sértækra greiðslulíkana.
40% aukning var í hópi einstaklinga sem þurfa gervilim en þó að sá hópur hafi fyrir ekki verið fjölmennur þá er þetta spurning um mikilvæg lífsgæði 18 einstaklinga sem fengu sinn fyrsta gervifót í fyrra á móti fjórum árinu á undan og svo 13 árið 2021 og þess vegna nauðsynlegt að afgreiða slík mál fljótt og faglega.
DRG samningar fengu áframhaldandi áherslu sem dæmi má nefna að árið 2023 var greitt fyrir 3.520 fæðingar og var meðalverð á fæðingu 916.285 kr.
Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri eru fjármögnuð með DRG samningum (þjónustutengdri fjármögnun). Það þýðir að öll starfsemi sjúkrahúsanna er nú reiknuð og greiðir ríkið fyrir hverja einustu meðferð sem landsfólk fær.
Á síðasta ári tóku Sjúkratryggingar þátt í að greiða fyrir 2.226 tannplantameðferðir og 1.103 heilgóma. Þá greiddu Sjúkratryggingar fyrir 45.889 flúormeðferðir barna.
Á síðasta ári tóku Sjúkratryggingar þátt í að greiða fyrir 9.141 röntgenmynd af öxl, 4.450 tölvusneiðmyndir af kransæðum en aðeins 144 fengu röntgenmynd af upphandlegg.
Þá hefur útgáfa evrópska sjúkratryggingakortsins verið sveiflukennd í gegnum árin. 2023 voru gefin út 53.564 kort en árið 2022 voru þau 83.468 og svo árið á undan 46.413.
Þá var sykursýkislyfið Ozempic talsvert í umræðunni en reglur fyrir lyfið voru hertar í nóvember 2023 til að koma í veg fyrir lyfjaskort á lyfinu hjá þeim sem eru með sykursýki 2. 4.910 einstaklingar leystu út lyfið í upphafi árs 2023, þar af greiddu 1.398 lyfið að fullu sjálfir en 3.512 fengu greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga. Í lok árs voru 5.889 einstaklingar sem leystu út lyfið en þar af greiddu 2.750 lyfið að fullu sjálfir en 3.139 fengu greiðsluþátttöku.
* Ítarlegar upplýsingar um útgjöld og umfang starfsemi Sjúkratrygginga
Eðli málsins samkvæmt eru samningar fyrirferðarmiklir hjá Sjúkratryggingum enda eitt hlutverka okkar, það er að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu. Um 300 samningar eru nú í gildi en hér eru dæmi um nokkra lykilsamninga sem gerður voru á síðasta ári.
Á árinu 2023 voru undirritaðir fyrstu heildstæðu samningarnir sem taka til allra tannlækninga utan sjúkrahúsa. Þar með er nú í gildi samningur sem fjallar um greiðsluþátttöku vegna tannlækninga barna, öryrkja og aldraðra. Þá tekur samningurinn til tannlækninga vegna alvarlegra meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma. Með samningnum styrkist staða þeirra verulega auk þess samningurinn veitir tækifæri til að efla gæði og hagkvæmni þjónustunnar.
Á síðasta ári voru gerðir samningar um liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm utan sjúkrahúsa í því skyni að stytta bið eftir þessum aðgerðum. Sjúkratryggingar greiddu á síðasta ári fyrir 1.154 liðskiptaaðgerðir á sjúkrahúsunum en gerðu auk þess samninga við heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði þar sem framkvæmdar voru 611 liðskiptaaðgerðir til viðbótar.
Við gerðum fleiri samningar við einkareknar heilsugæslustöðvar og má þar nefna Heilsugæslan Höfða á Suðurnesjum sem opnaði 1. september 2023.
Þá gerðu Sjúkratryggingar samning um rekstur 50 almennra dagdvalarrýma fyrir aldraða einstaklinga við Heilsugæsluna Höfða í Reykjavík.
Í nýjum samningi Sjúkratrygginga um þjónustu sérgreinalækna sem undirritaður var í júní á síðasta ári var sérfræðilæknum gert kleift að nýta sér rafræn samskipti og fjarlækningar í meira mæli. Á síðasta ári notuðu 180 sérfræðilæknar þennan möguleika og veittu alls 15.009 skjólstæðingum þjónustu með þessum hætti. Rafræn samskipti skipa sífellt stærri sess í okkar starfi og þar eru mörg tækifæri fyrir stofnun eins og Sjúkratryggingar.
Áfram stafrænt
Sjúkratryggingar setja upplýsingaöryggi og persónuvernd ávallt í forgrunn í starfi sínu en í ítarlegri úttekt Persónuverndar er staðfest sterk staða stofnunarinnar í þessum málum. Í úttektinni kemur jafnframt fram að rými er til bætingar í einhverjum atriðum og það hafa Sjúkratryggingar sannarlega gert enda í stöðugri umbótarvinnu til að tryggja að kröfur um persónuvernd standi samhliða nýjum stafrænum lausnum.
Stafrænt umhverfi skipar stöðugt stærri sess í störfum okkar allra og þá skiptir ekki síður máli að móta skýra og metnaðarfulla stefnu sem byggist á ábyrgð og öryggi. Það var því einstaklega ánægjulegt fyrir okkur þegar Sjúkratryggingar hlutu verðlaun fyrir stafræna þróun á ráðstefnunni Tengjum ríkið. Verðlaunin fengust fyrir stafvæðingu opinberra aðila sem nýta opin og sameiginleg tól þróuð af Stafrænu Íslandi.
Sjúkratryggingar hafa átt í farsælu samstarfi við Stafrænt Ísland í fjölmörgum öðrum verkefnum. Á síðasta ári var unnið í stærsta samstarfsverkefninu fram að þessu sem var færsla á upplýsingum sem áður voru í Réttindagátt yfir á Mínar síður á Ísland.is. Þar er nú að finna helstu upplýsingar um allt sem snýr að lyfjum, sjúkra-, iðju- og talþjálfun, hjálpartækjum og næringu, heilsugæslu og tannlækningum. Þetta voru ekki einu stafrænu sóknarfærin á árinu því umsókn um evrópska sjúkratryggingakortið var sett upp í umsóknarkerfi á Ísland.is ásamt því að spjallmenni og þjónustuvefur voru sett upp á heimasíðu Sjúkratrygginga.
Það þarf ekki að fjölyrða um það hve farsælt samstarf skiptir okkur miklu máli. Á það jafnt við um ráðuneyti, stofnanir, almenning og samstarfsaðila. Við teljum að svo hafi verið árið 2023 og það er okkar von og vilji að svo verði áfram næstu ár.
Stærsta áskorunin
Þegar við lítum til næstu ára er það ein stærsta áskorun okkar að efla Sjúkratryggingar í heild, í öllu sínu víðtæka starfi. Það verður að teljast lykilforsenda þess að íslensk heilbrigðisþjónusta nái að þróast og dafna á eðlilegan máta. Sterkar vísbendingar eru um að við sem samfélag leggjum í dag minna til þessara mikilvægu innviða heldur en fjölmörg önnur lönd sem við viljum bera okkur saman við. Úr þessu þarf að bæta. Sjúkratryggingar fara með umsjón mikilvægra lykilinnviða í heilbrigðisþjónustu hér á landi og því er ábyrgð okkar mikil, að vinna að úrbótum í þessu máli. Með jafn öflugan og hæfan hóp sérfræðinga innan okkar vébanda og raun ber vitni er ég þess fullviss að við getum náð hér góðum árangri.