Fara beint í efnið

Ávarp forstjóra - Ársskýrsla 2022

Sjúkratryggingar eru lykilstofnun í íslensku heilbrigðiskerfi. Með samningum, ákvörðun réttinda, greiðslum fyrir veitta þjónustu og umsjón mikilvægra greiðslulíkana á stofnunin ríka aðkomu að því að tryggja almenningi „aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu“ eins og segir í lögum um sjúkratryggingar. Þar kemur jafnframt fram að það mikilvæga markmið að stuðla skuli að „rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar eftir því sem frekast er unnt á hverjum tíma“ . Hagkvæmni og gæði eru forsenda þess að hægt sé að fjármagna heilbrigðisþjónustu með fullnægjandi hætti og að hún skili þeim ávinningi sem samfélagið gerir með réttu væntingar til.

Sigurður Helgi forstjóri Sjúkratrygginga

Þjónusta Sjúkratrygginga snertir velferð og fjárhagslega afkomu lang flestra landsmanna á hverju einasta ári. Þó að það sé alls ekki alltaf sýnilegt að Sjúkratryggingar eigi aðkomu að þeirri þjónustu sem veitt er í íslenska heilbrigðiskerfinu, myndi almenningur strax taka eftir því ef þjónusta stofnunarinnar myndi falla niður. Sjúkratryggingar sinna hlutverki sínu með framlagi starfsmanna sem sinna verkefnum af hæfni og eldmóði. Þá eru upplýsingakerfi stofnunarinnar lykilinn að því að hún geti veitt eins umfangsmikla þjónustu og raun ber vitni. Þessi kerfi eru í stöðugri þróun eins og fjallað er um í ramma um stafræna þróun.

Stafræn þróun

Vefur Sjúkratrygginga var færður inn á Ísland.is ásamt því að allt efni hans var skrifað út frá sjónarhóli notenda. Vefurinn er einnig hannaður fyrir öll tæki og til að styðja við aðgengi fyrir alla. Tilkynning um slys var einnig útfærð í umsóknarkerfi á Ísland.is. Gagnamiðlun var sett upp í gegnum Strauminn (X-Road) á móti Landspítala, Vinnueftirlitinu og Embætti landlæknis. Vöruhús gagna var þróað og nokkrir gagnateningar teknir í notkun. Nýtt kerfi var tekið í notkun fyrir ljósmæður. Fyrstu skref voru tekin á árinu í eigin hugbúnaðarþróun með því að búa til lausn til að auðkenna viðskiptavini í síma og til að koma á öruggri auðkenningu í vinnslukerfi.

Ekki er unnt í stuttu ávarpi að fara yfir öll helstu verkefni Sjúkratrygginga. Þær tölulegu upplýsingar sem eru meginþáttur ársskýrslunnar endurspegla bæði fjölbreytileika og umfang þeirra verkefna sem stofnunin annast. Ætla má að þegar allt er talið þá nemi heildarkostnaður þeirra verkefna sem stofnunin kemur meira en 150 ma.kr. þegar tekið er tillit til kostnaðarhluta sjúkratryggðra. Samningar stofnunarinnar um þjónustu eru tæplega 300. Stofnunin greiðir fyrir nærri hálfa miljón komur til sérgreinalækna. Meira en 20 þús. einstaklingar fá árlega hjálpartæki fyrir milligöngu stofnunarinnar. Komur til sjúkraþjálfara voru um 850 þús. Yfir 100 þús. einstaklingar, fyrst og fremst börn, öryrkjar og ellilífeyrisþegar fengu stuðning vegna þjónustu tannlækna. Þá kemur stofnunin að fjölmargri annarri þjónustu, s.s. myndgreiningu, sjúkraflugi og sjúkraflutningum, þjónustu sálfræðinga og ljósmæðra. Þá annast stofnunin mikilvæg verkefni við fjármögnun heilbrigðisþjónustu og má þar nefna heilsugæslu, sérhæfð sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Verkefni tengd heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri er hratt vaxandi verkefni. Að lokum má nefna þá mikilvægu vernd sem sjúklinga- og slysatryggingar bjóða upp á. Auk hefðbundinna verkefna sinnir stofnunin tilfallandi öðrum ánægjulegum verkefnum eins og fram kemur í ramma um aðstoð við Úkraínu.

Aðstoð við Úkraínu

Sjúkratryggingar fá öðru hvoru tækifæri til að taka þátt í samfélagslegum verkefnum sem ná út fyrir eiginleg hlutverk stofnunarinnar. Sem dæmi um slíkt má nefna að í mars á síðast ári sendu Sjúkratryggingar hjálpartæki til Póllands en tækin voru ætluð munaðarlausum börnum og ungmennum með fötlun sem þurftu að flýja heimili sitt vegna stríðsins í Úkraínu. Þau fengu inni í endurhæfingarstöð í borginni Poznan þaðan sem ákall barst um hjálpartækjagjafir. Sjúkratryggingar, Endurhæfing-Þekkingarsetur og Æfingarstöð SLF ákváðu strax að bregðast við þessu ákalli. Tveimur dögum seinna voru 9 vörubretti með margvíslegum hjálpartækjum send til Póllands, svo sem hjólastólar, göngugrindur, standgrindur og vinnustólar. Um er að ræða tæki sem ekki nýttust lengur hérlendis en voru í ágætu standi. Verkefnið krafðist mikillar samvinnu ýmissa aðila, m.a. við frágang á ýmsum pappírum og leyfum í tengslum við tollaafgreiðslu o.fl. Félag Úkraínumanna á Íslandi annaðist flutning búnaðarins til Lublin í Póllandi í samvinnu við Golfsamband Íslands. Rotary í Lublin í Póllandi tóku á móti hjálpartækjunum og tryggðu flutning á áfangastað í Poznan og Jónar transport ásamt fyrrgreindum aðilum lögðu dag og nótt við að láta þetta verða að veruleika. Sjúkratryggingar þakka öllum þessum samstarfsaðilum fyrir þeirra framlag í verkefninu.

Þegar liðið ár er gert upp er eðlilegt að einnig sé horft til framtíðar. Það er mitt mat að fjölmörg tækifæri liggi í því að efla starfsemi Sjúkratrygginga og nýta það hlutverk sem henni er ætlað með markvissari hætti til að auka árangur heilbrigðisþjónustunnar. Í þessu sambandi hafa Sjúkratryggingar dregið fram fimm áhersluatriði sem nauðsynlegt er að vinna að svo að stofnunin geti gengt hlutverki sínu með öflugum hætti:

  1. Skýra þarf hlutverk og umboð stofnunarinnar og treysta stöðu hennar sem kaupanda heilbrigðisþjónustu.

  2. Tryggja þarf beina ábyrgð stofnunarinnar á öllum þeim fjárveitingum sem samningar hennar taka til og auka sveigjanleika til viðbragða gagnvart „flöskuhálsum“ og óhóflegri bið eftir þjónustu.

  3. Tryggja þarf að áætlanir um þróun útgjalda einstakra réttindaflokka sjúkratrygginga séu raunsæjar og taki fullt tillit til þróunar aldurssamsetningar þjóðarinnar.

  4. Auka þarf yfirsýn yfir veitta heilbrigðisþjónustu og bið eftir henni, m.a. með því að öll nauðsynlegt gögn berist beint frá viðsemjendum til stofnunarinnar.

  5. Efla þarf lykilstarfsþætti í starfsemi stofnunarinnar, einkum á sviði gagnamála, greininga, samninga og upplýsingatækni og bæta möguleika hennar til að laða að og halda hæfu starfsfólki.

Vonir stofnunarinnar standa til þess að vel muni ganga á næstu árum að vinna að þessum áhersluatriðum í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og stofnanir heilbrigðiskerfisins.