Fara beint í efnið
Sjúkratryggingar Forsíða
Sjúkratryggingar Forsíða

Sjúkratryggingar

Ávarp forstjóra - Ársskýrsla 2020

Árið 2020 var sögulegt í starfsemi Sjúkratrygginga Íslands eins og annarra sem sinna heilbrigðisþjónustu. Samið var um fjölbreytta og víðtæka þjónustu í tengslum við faraldurinn. Þar má nefna samninga um farsóttahús víða um land, svo og sóttkvíarhótel. Þá var samið um þjónustu Rauða kross Íslands í þessum úrræðum. Samið var við sjálfstætt starfandi ljósmæður um að sinna 5 daga skoðunum nýbura í heimahúsum í stað þess að skoðunin færi fram á Landspítala. Einnig var samið um skimun á landamærum, þjónustu Læknavaktarinnar vegna COVID, sérstaka COVID deild fyrir íbúa hjúkrunarheimila og svo framvegis. Ástæða er til að þakka öllum viðsemjendum sérstaklega gott samstarf í öllum þessum verkefnum. Sérstakar þakkir eru færðar sjálfboðaliðum og starfsmönnum Rauða krossins sem hafa af einstakri fagmennsku og umhyggju leyst hvern þann vanda sem upp kom í þjónustu við fjölda gesta farsóttarhúsa og sóttkvíarhótela.

Á árinu 2020 greiddu Sjúkratryggingar Íslands alls um 103 milljarða króna fyrir fjölbreytta heilbrigðis-þjónustu. Þetta er veruleg aukning frá fyrra ári en þá voru þessar greiðslur ríflega 94 milljarðar. Aukninguna má einkum rekja til aukinna framlaga til heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna COVID, svo og tilfærslu verkefna til SÍ. Stærstur hluti þessara greiðslna byggist á samningum stofnunarinnar en þeir voru 270 í árslok 2020 eða 17% fleiri en í árslok 2019 þegar samningar voru 231 talsins.

Farsóttin setti verulegan svip á vinnuaðstæður starfsmanna Sjúkratrygginga Íslands. Því miður þurfti að loka afgreiðslu stofnunarinnar um tíma vegna sóttvarnaraðgerða en leitast var við að lágmarka óþægindi viðskiptavina með því að styrkja símsvörun og rafræna þjónustu. Þorri starfsmanna SÍ vann að heiman svo mánuðum skipti til að lágmarka smithættu. Starfsmenn settu upp vinnustöðvar á eigin heimilum, nýttu VPN tengingar og fjarfundabúnað til að geta sinnt sínum verkefnum. Þetta fyrirkomulag reyndist vel, ekki dró úr afköstum og þjónusta við viðskiptavini hélst óbreytt. Fjarvinna af þessu tagi er komin til að vera í starfsemi SÍ og hefur fjarvinnustefna þegar verið innleidd. Fjarvinna getur skapað aukinn sveigjanleika fyrir starfsmenn, hún dregur úr vistspori stofnunarinnar og getur laðað að starfsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Mörkuð var langtímastefna fyrir þróun og starfsemi stofnunarinnar og er það í fyrsta sinn sem slík heildarstefna hefur verið sett frá því Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar árið 2008. Stefnan var staðfest af stjórn SÍ í maí ásamt aðgerðaáætlun um innleiðingu stefnunnar. Bæði stefnan og aðgerðaáætlunin voru afrakstur af vinnu allra starfsmanna, sem m.a. tóku þátt í þremur vinnustofum þar sem hlutverk og framtíðarsýn voru rædd og rýnt í helstu styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri.

Endurskoðun skipulags stofnunarinnar var meðal þeirra aðgerða sem ráðist var í til að innleiða stefnuna. Nýtt skipulag Sjúkratrygginga Íslands var staðfest af stjórn í september og tók gildi um áramótin. Nýtt skipulag endurspeglar betur hið tvíþætta kjarnahlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum: að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu annars vegar og hins vegar að meta og afgreiða réttindi einstaklinga til sjúkratrygginga. Með fækkun skipulagseininga og stofnun stærri og öflugri deilda eykst skilvirkni. Þannig býr stofnunin sig undir að takast á við þau stórauknu verkefni sem henni eru ætluð í heilbrigðisstefnu.

Ársskýrsla Sjúkratrygginga Íslands birtist nú í fyrsta sinn á gagnvirku formi. Það er von okkar að þessi nýjung gagnist vel þeim sem vilja kynna sér fjölbreytta starfsemi stofnunarinnar.

Sjúkratryggingar Íslands þakka notendum og veitendum heilbrigðisþjónustu, svo og öðrum samstarfsaðilum, fyrir gott samstarf árið 2020.