Fara beint í efnið

Ávarp forstjóra 2021

Árið 2021 einkenndist af krefjandi verkefnum og viðamiklum breytingum á skipulagi Sjúkratrygginga. COVID faraldurinn setti að sjálfsögðu svip á bæði verkefnin sjálf og á starfsumhverfið.

María Heimisdóttir

Vegna sóttvarna fór nær öll starfsemi Sjúkratrygginga fram í fjarvinnu stóran hluta ársins en það starfsfólk sem sinnir umsýslu hjálpartækja stóð þó vaktina á sínum hefðbundna vinnustað. Óhætt er að segja að fjarvinnan hafi gefið góða raun og þó svo COVID krefjist ekki lengur fjarvinnu þá er það stefna stofnunarinnar að starfsfólk geti unnið fjarvinnu hluta vikunnar og jafnvel til lengri tíma. Þessi stefna hefur skilað sér bæði í meiri ánægju starfsfólks en einnig í því að hægt er að bjóða störf án staðsetningar, enda býr hluti starfsfólks utan höfuðborgarsvæðisins og jafnvel erlendis. Fjarvinna í einhverju formi er einnig umhverfisvænn kostur og kallast því vel á við grænar áherslur stofnunarinnar almennt. 

Verkefni Sjúkratrygginga hafa vaxið verulega síðustu ár og hlutverk stofnunarinnar var aukið og skýrt í heilbrigðisstefnu sem Alþingi setti árið 2019. Einnig hafa verkefni stofnunarinnar vaxið í takt við aukin fjárframlög Alþingis til kaupa á heilbrigðisþjónustu sem stofnunin semur um og greiðir fyrir. Til dæmis gerðu Sjúkratryggingar alls 72 samninga og samkomulög á árinu 2021, auk 13 viðaminni samkomulaga. Ef tekið er tillit til allra undirritaðra samningsskjala (samningar, samkomulög, viðaukar o.s.frv.) þá var alls undirritað 341 samningsskjal, eða nánast eitt skjal hvern einasta dag ársins. Til samanburðar þá voru gerðir 25 samningar á vegum stofnunarinnar árið 2018. Fjöldi samninga hefur því nánast þrefaldast á þessu fjögurra ára tímabili. Fjöldi samningsskjala í heild (þ.e. að meðtöldum viðaukum, framlengingum o.þ.h.) hefur ríflega tvöfaldast en hann var 160 árið 2018 en 341 árið 2021. Aukin umsvif í samningagerð Sjúkratrygginga eru því fyrst og fremst vegna gerðar nýrra samninga og er það jákvæð þróun.

Af 72 samningum sem gerðir voru á árinu 2021 voru einungis fjórir við ríkisstofnanir. Óhætt er að segja að tveir þessara samninga hafi markað nokkur tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu en það eru samningar við Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri um svokallaða þjónustutengda fjármögnun. Með því hugtaki er átt við að fjármögnun þessara stofnana taki í vaxandi mæli mið af umfangi og eðli þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Þá voru átta samningar gerðir við sveitarfélög og 60 við aðra aðila (s.s. fyrirtæki, sjálfseignarstofnanir o.s.frv.).

Innra skipulagi Sjúkratrygginga var breytt í ársbyrjun 2021 þegar nýtt skipurit tók gildi. Þessi breyting byggðist m.a. á ítarlegri stefnumótun sem fram fór á árinu 2020 með þátttöku alls starfsfólks Sjúkratrygginga. Einnig var horft til þeirra fjölmörgu skýrslna og úttekta sem út hafa komið um starfsemi stofnunarinnar, helstu styrkleika hennar og veikleika. Síðast en ekki síst var endurskoðun skipulags nauðsynleg í ljósi sívaxandi verkefna, m.a. í tengslum við innleiðingu á heilbrigðisstefnu sem sett var 2019.

Í eldra skipulagi var að finna margar litlar stjórnunareiningar og stjórnendur voru því margir eða um 5% alls starfsfólks. Með sívaxandi verkefnum var nauðsynlegt að skapa stærri, skilvirkari og sveigjanlegri einingar ásamt því að skýra umboð og ábyrgð stjórnenda. Verkefni sem geta skapað hagsmunaárekstra voru aðskilin. Skyld verkefni sem áður voru dreifð á margar einingar voru sameinuð á einum stað, t.d. með stofnun hagdeildar og eftirlitsdeildar. Sama á við um upplýsingatækni, sem er lykilþáttur í allri starfsemi stofnunarinnar. Hún var sett í brennidepil með því að sameina öll slík verkefni undir nýtt upplýsingatæknisvið. Þjónusta við starfsfólk var færð á einn stað og heyrir nú beint undir forstjóra enda eru mannauðsmál forsenda þess að vel takist til við innleiðingu fyrstu langtímastefnu stofnunarinnar, sem eins og áður sagði var staðfest af stjórn vorið 2020.

Ég vil þakka starfsfólki Sjúkratrygginga sérstaklega fyrir fagmennsku þeirra og jákvæðni í áðurnefndu breytingaferli hjá stofnuninni. Án þeirra hefði þetta ekki verið mögulegt. Skipulagsbreytingin reyndi á enda hafði slík heildarendurskoðun á skipulagi ekki áður átt sér stað í sögu stofnunarinnar.

Sjúkratryggingar settu bæði stefnu í upplýsingatækni og um upplýsingaöryggi á árinu. Á grundvelli þessarar stefnumótunar voru verkefni færð inn til Sjúkratrygginga, meðal annars öll verkefnastýring sem og þjónusta og rekstur upplýsingatækni, sem áður var útvistað. Sjúkratryggingar hófu einnig samstarf við Stafrænt Ísland á árinu og farið var í fjölmörg verkefni til að bæta þjónustu og gera stofnunina skilvirkari gagnvart viðskiptavinum sínum.

Sjúkratryggingar hafa tekið miklum breytingum síðustu ár og stofnunin tekst á við sívaxandi verkefni. Helsta áskorunin er að fjármagn skortir til að sinna öllum þeim mörgu og stóru verkefnum sem stofnuninni hafa verið falin. Hlutverk Sjúkratrygginga er að koma þeim fjármunum sem veittir eru til heilbrigðisþjónustu til þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar. Þetta er gert með því að semja um þjónustu, útvega og afgreiða hjálpartæki, greiða veitendum fyrir þá þjónustu sem þeir sinna, greiða sjúklingum bætur og styrki eftir því sem reglur segja til um o.s.frv. Líta má á fjárveitingar til rekstrar Sjúkratrygginga sjálfra sem umsýslukostnað (e. overhead) við ofangreint, þ.e. að koma þeim fjármunum sem veittir eru til heilbrigðisþjónustu til þeirra sem eiga að njóta þjónustunnar. Því miður hafa fjárveitingar til rekstrar Sjúkratrygginga ekki haldið í við verkefni stofnunarinnar og er sú þróun orðin talsvert áhyggjuefni. Rekstrarkostnaður Sjúkratrygginga sem hlutfall af því heildarfjármagni (veltu) sem stofnunin afgreiðir vegna áðurnefndra verkefna hefur lækkað verulega síðustu 5 ár eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Árið 2017 nam hlutfall rekstrarkostnaðar af veltu 1,19% en árið 2021 nam hann 0,94% af veltu. Þessi lækkun nemur tæplega 22% og eru rekstrarfjárveitingar til stofnunarinnar miðað við verkefnin miklum mun lægri en hjá sambærilegum stofnunum erlendis. Þetta er áhyggjuefni þar sem Sjúkratryggingum er treyst fyrir því að útvega landsmönnum heilbrigðisþjónustu með samningagerð. Stofnuninni er einnig treyst fyrir umsýslu verulegs hluta fjárlaga þjóðarinnar og þar með ráðstöfun umtalsverðs hluta af skattfé almennings. Svo mikilvæg verkefni krefjast öflugrar umgjarðar til að tryggja bestu mögulegu nýtingu þessara miklu fjármuna í þágu þjóðarinnar og því sérstakt gleðiefni að ríkisstjórnin hefur í stjórnarsáttmála heitið að styrkja stofnunina. Brýnt er að það gangi eftir sem fyrst.

Ársskýrsla 2021