Upplýsingar um rafræn skilríki fyrir notendur Sjónstöðvarinnar
13. janúar 2026
Flestir þjónustuveitendur á borð við banka og stofnanir ríkis og sveitarfélaga bjóða eingöngu upp á að viðskiptavinir auðkenni sig með rafrænum skilríkjum í farsíma. Einnig er nauðsynlegt að geta skrifað fjögurra stafa pin-númer á tilteknum tíma svo auðkennið renni ekki út. Slík skilríki eru ekki aðgengileg þeim sem ekki geta notað snjallsíma, t.d. vegna nýtilkominnar sjónskerðingar, aldurs, hreyfihömlunar eða annars konar skerðinga sem gera fólki erfitt fyrir að nota snjallsíma.

Þeir sem ekki geta notað rafræn skilríki eiga í erfiðleikum með að nýta sér stafræna þjónustu, t.d. að fylla út ýmis konar umsóknir og aðgang að fjármálum eða Heilsuveru. Flestir þjónustuaðilar hafa komið til móts við þennan hóp með því að heimila innskráningu með umboði. Sá sem veitir öðrum einstaklingi slíkt umboð fyrir sína hönd verður sjálfur að sækja um það hjá hverjum þjónustuveitanda. Sótt er um umboð vegna rafrænnar þjónustu á Island.is í gegnum eftirfarandi slóð:
Bankar og aðrir þjónustuaðilar bjóða yfirleitt upp á sams konar umboð sem hægt er að sækja sérstaklega um.
Mælt er með því fyrir þá sem nota stafræna þjónustu með aðstoð annarra að veita öðrum umboð. Ef aðstoðarmanni er veittur aðgangur að stafrænni þjónustugátt einstaklings án þess að hafa verið veitt umboð er ekki hægt að rekja það sem gert er í gáttinni og allar aðgerðir því skráðar á þann sem á rafrænu skilríkin. Þegar umboðshafi auðkennir sig með sínum eigin rafrænu skilríkjum getur hann valið milli þess að skrá sig inn á þjónustugátt umbjóðanda síns eða eigin gátt. Sá sem er með umboð til að sinna erindum fyrir annan einstakling í þjónustugátt fær því allar aðgerðir sem hann framkvæmir skráðar á sitt nafn. Þannig er hægt að rekja aðgerðir umboðshafa, auk þess sem þetta fyrirkomulag tryggir aukið öryggi ef upp koma atvik á borð við þjófnað, svindl eða villur.