Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjónstöðin Forsíða
Sjónstöðin Forsíða

Sjónstöðin

RÚV sýnir Acting Normal with CVI

7. október 2025

Fimmtudagskvöldið 9. október, á alþjóðlegum sjónverndardegi, sýnir RÚV heimildamyndina Acting Normal with CVI sem fjallar um Dagbjörtu Andrésdóttur sem fæddist með heilatengda sjónskerðingu og er með 4% sjón. Dagbjört hefur lokið námi í klassískum söng og er stofnandi CVI samtakanna á Íslandi, í samstarfi við Blindrafélagið.

Myndin var frumsýnd í fyrra og er eina heimildarmyndin í fullri lengd sem fjallar um heilatengda sjónskerðingu (e. cerebral visual impairment) en leikstjóri myndarinnar, Bjarney Lúðvíksdóttir, segir það merkilega staðreynd því talið er að um 3% mannkyns (u.þ.b. 1 af hverjum 30) séu með CVI en fæst viti af því.

Í tilfelli Dagbjartar greindist hún ekki fyrr en hún var orðin 26 ára og þá var eins og veggur brotnaði utan af henni eins og hún kemst sjálf að orði. Hluti skýringarinnar af hverju hún greindist svo seint er sá að Dagbjört er líka með hreyfiskerðingu sem kallast heilalömun (e. cerebral palsy) eða CP í daglegu tali. Einkenni sem tengdust sjónskerðingunni voru túlkuð sem einkenni hreyfiskerðingarinnar.

CVI orsakast af heilaskaða í sjónvinnslustöðvum sem gerir heilanum erfiðara fyrir að vinna úr því sem augað sér, og áhrif CVI geta verið mjög mismundi á milli fólks. Það gerir það að verkum að fólk sem verður fyrir minni áhrifum af CVI veit oft ekki að það sé með skerðinguna.

Acting Normal with CVI er áhrifarík baráttusaga Dagbjartar sem hefur upplifað mikil áföll í tengslum við sínar skerðingar, en heldur ótrauð áfram að láta drauma sína rætast. Myndin lætur engan ósnortinn.