Hugsaðu vel um augun og sjónina
4. júlí 2023
Sjónin er eitt þriggja fjarskilningarvita okkar; hin eru heyrn og lyktarskyn.
Sjónin er eitt þriggja fjarskilningarvita okkar; hin eru heyrn og lyktarskyn. Fjarskilningarvitin eru forsenda þess að fólk nái áttum, þ.e. geti ratað um, öðlast yfirsýn yfir umhverfi sitt, og átt í samskiptum við annað fólk. Fólk hefur mis mikla sjón en ráðleggingar um sjónvernd eru þó eitthvað sem flestir geta haft á bak við eyrað.
Borðaðu hollan og fjölbreyttan mat. Mataræðið ætti að innihalda mikið af ávöxtum og grænmeti, sérstaklega grænmeti með gulum lit eða mikilli blaðgrænu (svo sem spínat, spergilkál/brokkólí, klettasalat o.fl.). Sumar fiskitegundir, svo sem lax, túnfiskur eða lúða, innihalda mikið af omega-3 fitusýrum sem eru líka góðar fyrir augun.
Stundaðu reglulega hreyfingu. Líkamsrækt og regluleg hreyfing draga úr líkum á sykursýki 2 og geta haldið í skefjum sykursýki, háum blóðþrýstingi og háu kólesteróli (blóðfitu). Þeir sjúkdómar geta valdið augn- og sjónvandamálum.
Forðastu nikótín. Nikótín skapar hættu á blóðtöppum, þrengir æðar og hækkar blóðþrýsting. Best er að byrja aldrei að neyta nikótíns, hvort sem er í formi reyk-nikótíns eða reyklauss nikótíns (s.s. púðar, snus, veip, nikótíntyggjó), en það að hætta hefur strax jákvæð áhrif á almenna heilsu viðkomandi. Neysla nikótíns hefur neikvæð áhrif á þróun augnsjúkdóma.
Þekktu fjölskyldusögu þína. Sumir augnsjúkdómar ganga í erfðir og því er mikilvægt að komast að því hvort einhver í fjölskyldunni hafi þá. Sú vitneskja getur hjálpað til að meta hvort þú sért líklegri til að þróa með þér augnsjúkdóm.
Með hækkandi aldri eykst hættan á aldurstengdum augnsjúkdómum. Kynntu þér augnvítamín og bætiefni til að draga úr þeirri áhættu.
Notaðu sólgleraugu. Geislar sólarinnar geta skaðað augun og auka líkur á skýi og augnbotnahrörnun (AMD). Notaðu sólgleraugu sem filtera bæði UV-A og UV-B geisla.
Verndaðu augun við íþróttaiðkun og/eða vinnu. Sumar íþróttir eru áhættusamari fyrir augun en aðrar, og sum störf líka. Notaðu hlífðargleraugu þegar við á, hvort sem er á vinnustaðnum eða í verkefnum og viðhaldi á heimilinu.
Ef þú notar augnlinsur, gættu að hreinlætinu til að forðast sýkingar. Þvoðu þér vel um hendurnar áður en þú setur linsurnar í augun eða tekur þær úr. Fylgdu leiðbeiningum fyrir þínar linsur varðandi þrif á þeim og skiptu þeim út þegar við á.
Hvíldu augun. Sýnt hefur verið fram á að fólk deplar augunum mun sjaldnar þegar það horfir á skjái en það að depla augum viðheldur raka. Ef þú verð miklum tíma fyrir framan tölvuskjá er gott að temja sér „20-20-20-regluna;“ á 20 mínútna fresti skaltu horfa á eitthvað í 20 feta (6 metra) fjarlægð í 20 sekúndur. Þetta dregur úr augnþreytu.