Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Sjónstöðin Forsíða
Sjónstöðin Forsíða

Sjónstöðin

Gleðilegan dag hvíta stafsins!

15. október 2025

Þótt tækniöldin sé vel á veg komin er hvíti stafurinn af flestum enn talinn nothæfasta hjálpartæki blindra og sjónskertra. Hvað í ósköpunum getur verið svona sniðugt við þetta einfalda prik?

Ágæti hvíta stafsins er í raun tvíþætt. Hann nýtist bæði sem tákn og tól. Sem tákn gefur hann skilaboð til umhverfisins um að ekki sé hægt að reikna með sömu viðbrögðum við sjónrænum umhverfisþáttum frá notanda hvíta stafsins, t.d. í umferðinni. Þar af leiðandi eykur sýnileiki hvíta stafsins líkurnar á tillitsemi gagnvart sjónskerðingu þess sem hann notar.

Hvíti stafurinn sem tól virkjar þann frábæra eiginleika taugakerfisins að nýta flestar upplýsingar sem berast sjáandi fólki alla jafna í gegnum sjónina. Segja má að hvíti stafurinn sé nokkurs konar framlenging á hendi notandans og berast honum ótal upplýsingar um umhverfið í gegnum stafinn, t.d. vegna hljóðsins sem endurkastast þegar stafurinn kemur við jörðina.

Um þessar mundir fara fram vísindatilraunir þar sem rafskaut eru tengd við heila fólks til að stýra umferlistækjum, t.d. hvíta stafnum. Tilraunir hafa einnig verið gerðar með rafskaut í augnbotna til að veita fólki sýn og kuðungsígræðslur eru dæmi um hæfni heilans til að taka áður óþekkt áreiti og vinna úr þeim sér í hag.

Stafurinn er dæmi um áður óþekkt form af upplýsingagjöf sem heilinn lærir að nýta sér til framdráttar. Það eru til staðar kerfi innan taugakerfisins sem nota t.d. sjónina til að geta gengið um stórslysalaust. Þetta kerfi tekur upplýsingar frá augunum, vinnur úr þeim og sendir svo boð í gegnum hreyfitaugakerfið. Slík úrvinnsla gerir sjáandi fólki kleift að ganga um. Stærstur hluti þessa kerfis stjórnast af ósjálfráðri virkni og ekki vakin athygli á aðstæðum nema ástæða þyki. Fyrir blinda og sjónskerta kemur stafurin í stað sjónar í þessu kerfi. Til að byrja með krefst það athygli og einbeitingar að túlka skilaboðin sem koma frá stafnum en með athygli og endurtekningu skapast aukin færni. Með æfingunni verður úrvinnsla þessara upplýsinga í ríkari mæli ósjálfráð og hinn blindi eða sjónskerti hefur tengt stafinn inn sem upplýsingagjafa í fyrrnenft kerfi.

Þessi virkni krefst tíma og endurtekningar á sama hátt og það tekur tíma fyrir sjáandi einstaklinga að læra að nota sjónina og tengja hana við hreyfikerfið. Allir sem lærðu að ganga eiga það sameginlegt að hafa gert fjöldann allan af mistökum á meðan verið var að ná tökum á þessu annars flókna samspili skynfæranna og hreyfitaugakerfisins.

Sumir myndu kanski telja það ofurmannlegt að geta gengið um á ójöfnu undirlagi með stafinn sem eina upplýsingagjafann en það er í sjálfu sér ekki meira eða minna ofurmannlegt að geta notað augun til að gera það sama. Bæði kerfi reiða sig á söfnun upplýsinga og reynslu sem segjir til um hvernig bregðast skuli við mismunandi áreiti.

Eins og áður sagði búum við á tímum fordæmalausra tækniframfara og er framboð á tækni sem styður við þarfir blindra og sjónskertra engin undantekning. Við erum komin með öflug og fullkomin GPS smáforrit í síma sem gefa upplýsingar um leiðir og kennileyti, viðbættan veruleika sem eflir rötun innandyra og ýmiskonar möguleika sem gera notendum kleift að lesa texta og bera kennsl á hluti með aðstoð gervigreindar. Þrátt fyrir alla þessa tækni er hvíti stafurinn þó ómissandi og færni til að nota hann leggur grunninn að nýtingu allrar annarrar tækni sem í boði er.

Stafurinn, snjallsíminn og öll tækni eiga það sameginlegt að vera hjálpartæki. Þetta eru lausnir sem brúa bilið vegna þeirra takmarkana sem blindir og sjónskertir einstaklingar búa við þegar kemur að söfnun upplýsinga. Fyrir þá sem hafa öll sín skynfæri í lagi kemur upplýsingaöflun í gegnum skynfærin að miklu leiti sjálfkrafa vegna þess að samfélagið kann að miðla þjálfun og þekkingu sem styður við þroska og notkun þessara skynfæra. Þegar kemur að frávikum eins og blindu eða sjónskerðingu þarf sérhæfðari þekkingu og þjálfun til að ná árangri. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að nýta þá hæfingu sem er í boði og ekki síður að verja tíma í samneyti við aðra í sömu stöðu til að læra af þeim.

Fyrir hönd sjónstöðvarinnar óska ég ykkur gleðilegs dags hvíta stafsins.

Þorkell J. Steindal