Færnibúðir Blindrafélagsins haldnar annað árið í röð
9. október 2025
Um helgina, 10.-12. október, verða færnibúðir Blindrafélagsins haldnar en þar fá börn og ungmenni sem eru blind, sjónskert eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu tækifæri til að prófa fjölbreyttar íþróttir og leiki sem þau hefðu annars ekki haft aðgang að.

Þátttakendur í færnibúðum Blindrafélagsins í fyrra.
Í ár eru 15 þátttakendur skráðir á aldrinum 13 - 20+ ára og geta þau valið um ýmsar íþróttir á borð við golf, klifur, bogfimi, glímu, júdó, kayak siglingar og fimleika. Einnig verða leikir og þrautir, styrktar- og liðleikaæfingar, göngur, söngur og kvöldvökur.
Færnibúðirnar eru samstarf Blindrafélagsins, Sjónstöðvarinnar, Íþróttafélags fatlaðra og Háskólans í Reykjavík og byggja á bandarískri fyrirmynd sem kallast Camp Abilities en hugmyndafræði búðanna var þróuð af dr. Lauren Lieberman, prófessor við SUNY Brockport háskólann í New York.
Markmið færnibúðanna er að auka sjálfstraust og sjálfstæði þátttakendanna, efla hreyfifærni og þátttöku í íþróttum, veita þjálfurum og kennurum verkfæri til að vinna með fötluðum ungmennum, og skapa vettvang fyrir félagsleg tengsl og gleði.
15 manna teymi frá Bandaríkjunum verður til aðstoðar í færnibúðunum og nemendur frá Háskólanum í Reykjavík framkvæma færnimat og niðurstöður þess nýtast í áframhaldandi þjálfun með íþróttakennurum.
Færnibúðirnar hófu göngu sína í fyrra og eru árlegur viðburður.