Dagur hvíta stafsins 15. október.
25. október 2023
15. október er dagur hvíta stafsins; baráttu- og vitundardagur blinds og sjónskerts fólks. Dagurinn er alþjóðlegur og er tilgangurinn með honum að vekja athygli á málefnum blindra og sjónskertra einstaklinga og þá sérstaklega aðgengimálum og þeim aðgegnishindrunum sem hamla að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi og verið samfélagslega virkir.
Hvað er hvíti stafurinn?
Hvíti stafurinn er mikilvægt hjálpartæki sem:
notað er til að afla upplýsinga í umhverfinu sem ferðast er um.
getur aðstoðað blinda og sjónskerta mikið og aukið sjálfstæði og öryggi við að komast leiðar sinnar.
minnir sjáandi vegfarendur á að notandi hvíta stafsins er sjónskertur og upplifir því umhverfið og umferðina ekki á sama hátt og hinn sjáandi vegfarandi.
Gerðir stafa:
Þreifistafur: Hefðbundinn hvítur stafur sem notaður er í umferli. Hann er langur og oftast samanbrjótanlegur. Á göngu er honum haldið fyrir framan vegfarandann til að upplýsa hann um hugsanlegar hindranir eða misfellur í veginum eða til að fullvissa notandann um að leiðin sé greið. Hann er líka notaður til að finna hluti og kennileiti og aðstoðar þannig einstaklinginn við að staðsetja sig.
Merkistafur: Stuttur og samanbrjótanlegur stafur sem er merki til umhverfisins um að notandinn sé sjónskertur. Stafinn má einnig nota til að þreifa á og finna hluti í umhverfinu.
Göngustafur: Stafur sem hægt er að stilla lengdina á. Stafurinn er notaður til stuðnings og til að halda betur jafnvægi.