Útgefið efni
Hér er útgefið efni SHH
Signwiki verkefnið varð til eftir að samstarfi Samskiptamiðstöðvar við Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu lauk.
Kveikjan að því var hvernig mætti halda áfram að styðja uppbyggingu á þjónustu við döff í þróunarlöndum. Signwiki hefur vakið athygli víða um heim og nú þegar hefur kerfið verið tekið í notkum í Namibíu og Tanzaníu, með aðstoð og þjálfun frá starfsfólki Samskiptamiðstöðvar en einnig í Noregi, Færeyjum og Finnland.
Þróunarverkefni á Íslandi hefur þannig skapað grunn að nýjum lausnum sem nýta má alls staðar í heiminum til að veita fólki aðgang að táknmáli viðkomandi lands.
SignOn var verkefni styrkt af Sókrates áætlun Evrópusambandsins þar sem unnið var að námsefni í ensku fyrir döff fólk til sjálfsnáms á netinu.
Sjö Evrópulönd, England, Spánn, Austurríki, Holland, Noregur, Finnland og Ísland, unnu saman að verkefninu. Markmið verkefnisins var að gera döff fólki kleift að nota ritaða ensku í samskiptum á netinu.
SignOnOne var tveggja ára verkefni styrkt af Grundtvig áætlun Evrópusambandsins þar sem unnið var námsefni í ensku fyrir döff fólk til sjálfsnáms á netinu.
Sex Evrópulönd, Spánn, Austurríki, Tékkland, Noregur, Ungverjaland og Ísland unnu saman að verkefninu. Markmið verkefnisins er að gera námskeið fyrir byrjendur í ensku þar sem kennslumálið er táknmál.
Döff notendur geta nýtt sér námskeiðið beint við sjálfsnám en einnig sem ítarefni við nám í sínum skóla.
SignTeach var þriggja ára verkefni styrkt af Erasmus áætlun Evrópusambandsins.
Markmið þess var að mynda sjóð sem geymir upplýsingar um t.d. kennslufræði, skipulag í kennslustofunni, tengsl málhegðunar, menningar og upplýsingatækni, verkfæri s.s. eins og evrópska tungumálarammann fyrir táknmál og orðabók yfir helstu hugtök um kennslu og nám, möguleika á kynnisferðum og námi og hugmyndir fyrir táknmálskennara og þau sem vilja verða táknmálskennarar.
Þátttökuþjóðir voru Ísland, Noregur, England, Þýskaland, Holland, Belgía, Ítalía og Tékkland. Allir þátttakendur verkefnisins hafa yfirgripsmikla reynslu af táknmálskennslu á öllum skólastigum. Evrópusamband heyrnarlausra (EUD) tók þátt í fundum hópsins og tryggði aðgang að félögum heyrnarlausra í þátttökulöndunum sem og miðlun og innleiðingu í öllum löndum Evrópu.
Signs2Cross verkefnið var tveggja ára verkefni styrkt af Lifelong Learning áætlun Evrópusambandsins. Þátttökuþjóðir voru fimm, Þýskaland, Noregur, England, Ítalía og Ísland. Verkefnið miðar að því að gera döff fólk og málin þess sýnilegri.
Verkefnið er framhald verkefnisins Signs2Go sem var netnámskeið í BSL (bresku táknmáli) þar sem kennslumálið var jafnframt táknmál.
Í gegnum Signs2Cross getur döff fólk öðlast færni í alþjóðlegum samskiptum á táknmáli. Með því er stuðlað að sterkari vitund um tungumál, auknu sjálfstrausti og hreyfanleika döff fólks innan Evrópu.
Heyrandi fólk, s.s. eins og táknmálstúlkar sem áhuga hafa á alþjóðlegum samskiptum, getur sömuleiðis notað S2C til þess að þjálfa alþjóðleg samskipti á táknmáli.
Signer Studio gerir mögulega vinnslu á táknmálstexta á sambærilegan hátt og unnið er með ritmál í ritvinnsluforriti.
Verkefnið var unnið í samstarfi Semience, sem er í eigu Trausta Þórs Kristjánssonar höfundar Smiðs-Spilara, og SHH. Signer Studio byggir á hugbúnaði, sem Semience hefur þróað á sviði myndvinnslu og miðlun myndefnis á vef og sérfræðiþekkingu og reynslu SHH. Forritið klippir efnið samhliða upptöku og er í rauninni fullkomið myndver í smáforriti. Í því er upptökuvél, með lesvél (promter) og klippiforrit þar sem hægt er að bæta texta við myndefnið. Þessu efni er mögulegt að miðla á margan hátt. Auðvelt er að klippa táknmálstexta til, taka upp viðbætur og setja inn í skjalið og færa textan til og ,,umorða" á þann máta. . Notkunarmöguleikar forritsins eru t.d. fyrir skýrslugerð, skólaverkefni, ritgerði, tímarit, próf, þýðingar og blogg.
ProSign er samstarf Evrópulanda um evrópskan tungumálaramma (CEFR) fyrir táknmálskennslu til samræmis við evrópska tungumálarammann fyrir raddmál.
Evrópski tungumálaramminn er sameiginlegur grunnur fyrir Evrópu, sem vinna má út frá námskrár fyrir tungumálakennslu, þar má finna leiðbeiningar um námsefnisgerð, námsmat, lesefni o.s.frv. Í tungumálarammanum er lýst hvað nemendur í tungumálum þurfa að læra til þess að geta nota málið til samskipta og hvaða þekkingu og færni þeir þurfa að hafa til að bera til þess að geta notað málið á árangursríkan hátt. Lýsingin á líka við um menningarlega samhengið sem málið lifir í. Nákvæmlega eru skilgreind færnistig sem meta má nemendur eftir á hverju stigi námsins. Samskiptamiðstöð vinnur að lýsingum fyrir íslenskt táknmál inn í evrópska tungumálarammann fyrir Íslands hönd.
Sjá: http://www.ecml.at/ECML-Programme/Programme2012- 2015/ProSign/tabid/1752/Default.aspx