Táknmálseyja
14. maí 2024
Táknmálseyja og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna.
Táknmálseyja er eitt af verkefnum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og er markvisst málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á grunnskólaaldri. Verkefnið miðar að því að útbúa táknmálsumhverfi fyrir börnin þar sem þau læra íslenskt táknmál í gegnum leik og starf.
Samskiptamiðstöð fékk styrk frá Mennta-og barnamálaráðuneyti, úr sjóði til nýsköpunar- og skólaþróunarverkefna á vettvangi leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundastarfs. Sótt var um styrk til að stækka Táknmálseyju tímabundið með það að markmiði að taka á móti börnunum tvisvar í viku og kynna þau fyrir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og höfum við tekið á móti táknmálsbörnum hingað á SHH og unnið Barnasáttmálann með þeim á þeirra forsendum, þ.e.a.s á íslensku táknmáli.
Við tengdum okkur við Borgarleikhúsið strax í byrjun annar en þau hafa verið að sýna leikritið um hana Fíusól. Sú saga vekur lesendur til umhugsunar um ýmis mikilvæg málefni sem tengjast réttindum barna. Í samstarfi við Borgarleikhúsið þá var eldri nemendum á Táknmálseyju boðið að taka þátt í Krakkaþingi Borgarleikhússins þar sem m.a. var talað um hvernig börnum finnist að leikhús á Íslandi eigi að vera. Það voru sex nemendur úr Táknmálseyju sem tóku þátt og höfðu þau margt til málanna að leggja. Þann 5. maí sl. fóru svo Táknmálseyjubörnin og fjölskyldur þeirra að sjá táknmálstúlkaða sýningu um hana Fíusól. Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra tók þátt í því verkefni með okkur og sýningin var túlkuð í samstarfi við Hraðar hendur.
Markmið þessa verkefnis er að valdefla táknmálsbörnin og að þau þekki réttindi sín líkt og önnur börn sem eru að vinna með Barnasáttmálann. Eins og fram kemur í 42. grein Barnasáttmálans eiga öll að þekkja til réttinda barna og gildir það ekki síður um börnin sjálf sem eiga rétt á því að fræðast um réttindi sín.