Fara beint í efnið
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða
Sjúkrahúsið á Akureyri Forsíða

Sjúkrahúsið á Akureyri

Sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum ráðinn við geðdeild SAk

11. desember 2024

Anna Sigríður Pálsdóttir, sérfræðingur í barna- og unglingageðlækningum hefur verið ráðin í 100% stöðu á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Anna Sigríður Pálsdóttir

Hún hóf störf 1. október síðastliðinn og kemur til með að starfa sem sérfræðingur við hlið geðlækna á fullorðinssviði. Auk læknisstarfa mun Anna Sigríður taka virkan þátt í uppbyggingu þverfaglegrar teymisvinnu og þróun þjónustunnar á deildinni.

Anna Sigríður hlaut sérfræðiréttindi í barna- og unglingageðlækningum vorið 2021 og hefur á undanförnum árum starfað víða innan geðheilbrigðiskerfisins. Hún hefur m.a. starfað sem sérfræðingur á Landspítalanum, yfirlæknir hjá Geðheilsumiðstöð barna og geðlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þá situr hún einnig í stjórn Umhyggju, félags langveikra barna.

„Við á geðsviði erum mjög ánægð með að fá Önnu til liðs við okkur. Með hennar aðkomu getum við bætt þjónustuna við skjólstæðingshópinn okkar og haldið áfram þeirri uppbyggingu sem þegar er hafin. Anna býr yfir mikilli reynslu, bæði úr námi og starfi, og við hlökkum til að fá enn frekari sjónarhorn hennar til að bæta og styrkja þjónustuna hjá okkur,“ segir Ragnheiður R. Magnúsdóttir, deildarstjóri dag- og göngudeildar geðdeildar SAk.

Um geðsvið SAk

Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki í þjónustu við fullorðna einstaklinga sem glíma við geðraskanir á Norður- og Austurlandi og sinnir legudeildar-, dagdeildar- og göngudeildarþjónustu. Auk þess gegnir deildin lykilhlutverki í samvinnu þjónustukerfa sem koma að þjónustu við fólk með geðrænan vanda.

Tengill á nánari upplýsingar um geðheilbrigði á vefsíðu SAk hér.