Meðferð kjörskráa
20. apríl 2007
Þar sem senn líður að kosningum minnir Persónuvernd á álit sitt í máli nr. 2002/252 sem fjallaði um meðferð kjörskráa.
Þar sem senn líður að kosningum minnir Persónuvernd á álit sitt í máli nr. 2002/252 sem fjallaði um meðferð kjörskráa.
Tildrög málsins voru þau að Persónuvernd bárust erindi frá ýmsum aðilum sem áttu það sammerkt að óska álits á því í fyrsta lagi hvort fulltrúum stjórnmálaflokka eða samtaka væri heimilt að sitja inni í kjördeildum, í öðru lagi hvort þeim væri heimilt að merkja við í kjörskrá hverjir hefðu komið á kjörstað og nýtt atkvæðisrétt sinn og í þriðja lagi hvort þeim væri heimilt að afhenda fulltrúum framboðslista, sem staddir væru utan kjörstaðar, skrá með nöfnum þeirra sem hefðu kosið.
Persónuvernd taldi að umboðsmönnum framboðslista væri heimil viðvera í kjördeildum og að merkja í kjörskrá við þá sem hefðu komið og nýtt atkvæðarétt sinn. Hins var þeim talið óheimilt að miðla þessum upplýsingum út úr kjördeild nema slíkt væri nauðsynlegt í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að kosning færi löglega fram, t.d. til þess að tryggja að umboðsmenn framboðslistanna gætu rækt það hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að þeir einir sem væru á kjörskrá greiddu atkvæði og að enginn greiddi atkvæði oftar en einu sinni.
Þrátt fyrir að framangreind niðurstaða Persónuverndar hafi byggt á ákvæðum laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna verður að telja að sambærileg sjónarmið gildi um framkvæmd þingkosninga, enda eru þau ákvæði laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis er snúa að umboðsmönnum framboðslista og hlutverki þeirra sambærileg ákvæðum laga nr. 5/1998.
Persónuvernd hefur, fyrir milligöngu dómsmálaráðuneytisins, komið álitinu á framfæri við kjörstjórnir.