Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

10. mars 2003

Álit varðandi viðveru umboðsmanna framboðslista við kosningar o.fl. - mál nr. 2002/252

Umboðsmenn R-listans í Reykjavík óskuðu eftir því að Persónuvernd tjáði sig um það hvort það samrýmist lögum um persónuvernd að við framkvæmd kosninga sitji fulltrúar einstakra stjórnmálaflokka eða samtaka inni í kjördeildum og fylgist með því og skrái niður hverjir taki þátt í kosningum.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að umboðsmönnum framboðslista sé heimil viðvera í kjördeildum og að merkja í kjörskrá við þá sem koma og nýta atkvæðarétt sinn. Hins vegar var talið að þeim væri óheimilt að miðla þessum upplýsingum út úr kjördeild nema slíkt væri nauðsynlegt í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að kosning fari löglega fram, t.d. tryggja að umboðsmenn framboðslistanna geti rækt það hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að þeir einir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni

Hinn 10. mars 2003 samþykkti stjórn Persónuverndar svohljóðandi álit í málinu nr. 2002/252:

I.

Með bréfi, dags. 17. maí 2002, óskuðu Jón Sveinsson, hrl. og Lára V. Júlíusdóttir, hrl., umboðsmenn R-listans í Reykjavík, eftir því að Persónuvernd tjáði sig um það hvort það samrýmist lögum nr. 77/2000 að við framkvæmd kosninga sitji fulltrúar einstakra stjórnmálaflokka eða samtaka inni í kjördeildum og fylgist með því og skrái niður hverjir taki þátt í kosningum, sbr. 6. tl. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Erindinu fylgdi bókun umboðsmanna R-listans sem lögð hafði verið fram á fundi yfirkjörstjórnar við borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík þann 17. maí 2002. Erindi fylgdi einnig afrit af bréfi Yfirkjörstjórnar til [NN], dags. 17. maí 2002.

Í erindinu segir að í áratugi hafi verið gerðar athugasemdir við það að fulltrúar framboðsaðila séu inni í kjördeildum, þar sem slíkt brjóti í bága við friðhelgi einkalífs og þá meginreglu að kosningar séu leynilegar. Þeim athugasemdum hafi hingað til verið vísað á bug. Í erindinu segir m.a.:

"Á fundi í Yfirkjörstjórn Reykjavíkur í dag, 17. maí 2002, lögðu umboðsmennirnir fram bókun, þar sem óskað var eftir að yfirkjörstjórn leitaði álits Persónuverndar um þetta atriði. Yfirkjörstjórn hafnaði erindinu, en hún hafði áður fjallað um sams konar erindi frá [NN], og lagði fram á fundinum svarbréf til [NN]. Í bréfinu kom fram að yfirkjörstjórn taldi það vera utan síns verkahrings að leita álits Persónuverndar á máli þessu. .........

Nú er óskað álits Persónuverndar á málinu með vísan til nýrra laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem tóku gildi 1. janúar 2001 og þeirrar réttaróvissu sem virðist ríkja um það hvort sú venja við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga að fulltrúar frambjóðenda sitji í kjördeildum standist ný lög."II.

Áþekk erindi vegna framkvæmd borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík bárust Persónuvernd frá sex öðrum aðilum. Í flestum var óskað álits á því hvort fulltrúum stjórnmálaflokka eða samtaka sé í fyrsta lagi heimilt að sitja inni í kjördeildum, í öðru lagi hvort þeim sé heimilt að merkja við hverjir hafa kosið og í þriðja lagi hvort þeim sé heimilt að afhenda fulltrúum framboðslista, sem staddir eru utan kjörstaðar, skrá með nöfnum þeirra sem hafa kosið.

Fyrir lá að tilefni erindanna var sú ákvörðun Sjálfstæðisflokksins að hafa fulltrúa í öllum kjördeildum í Reykjavík við fyrrnefndar borgarstjórnarkosningar. Jafnframt lá fyrir upplýsingar um að aðrir stjórnmálaflokkar eða samtök sem buðu fram hyggðust ekki gera hið sama. Sjálfstæðisflokknum var því gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum til framangreindra erinda með bréfi, dags. 27. júní 2002, og þess óskað að svör bærust Persónuvernd fyrir 23. júlí s.á.

Með bréfi dags. 8. júlí óskaði Sjálfstæðisflokkurinn eftir fresti til 1. nóvember 2002 til að svara erindinu. Jafnframt óskaði Sjálfstæðisflokkurinn afrita af þeim erindum sem Persónuvernd höfðu borist hér að lútandi sem og afrita af þeim álitum sem Persónuvernd og forveri hennar, tölvunefnd, hefðu látið frá sér fara um mál af þessum toga. Umbeðin gögn voru send og umbeðinn frestur veittur. Var Sjálfstæðisflokknum tilkynnt þetta með bréfi dags. 17. júli 2002. Reykjavíkurlistanum, svo og öðrum þeim sem sem sent höfðu Persónuvernd erindi um málið, var gerð grein fyrir stöðu málsins með bréfi dags. 18. júlí 2002. Þar sem svarbréf Sjálfstæðisflokksins barst ekki innan umbeðins frests var honum, með bréfi dags. 11. nóvember 2002, veittur lokafrestur til 1. desember 2002 til að nýta lögboðinn umsagnar- og andmælarétt. Svarbréf barst ekki. Með ábyrgðarbréfi, dags. 5. febrúar 2003, var erindið enn á ný ítrekað og þess einkum óskað að Sjálfstæðisflokkurinn rökstyddi nauðsyn þess að fara með umrædd gögn út úr kjördeild í því skyni að geta gætt lögmætra eftirlitshagsmuna sinna með framkvæmd kosninganna. Svör bárust hins vegar ekki frá Sjálfstæðisflokknum.

Með bréfi, dags. 22. maí 2002, hafði Persónuvernd óskað álits yfirkjöstjórnar Reykjavíkur á erindunum, einkum til þess að fulltrúar stjórnmálaflokka fari með lista yfir þá sem þegar hafa kosið út úr kjördeildum á meðan kosningar standa yfir. Svör yfirkjörstjórnar bárust með bréfi, dags. 24. maí s.á., og verður efni bréfsins rakið í kafla III hér á eftir. Persónuvernd hefur einnig aflað eftirfaranda gagna:

1. Svars félagsmálaráðuneytisins, dags. 23. maí 2002, við erindi yfirkjörstjórnar í Kópavogi er m.a. varðaði heimild stjórnmálaflokka til að hafa fulltrúa sinn í kjördeild á kjördegi.2. Úrsk. nefndar samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, sem uppkv. 20. júní 2002 í kærumálum Húmanistaflokksins og [NN] varaðndi framkvæmd borgarstjórnakosninga í Reykjavík, 25. maí 2002.3.Úrskurður félagsmálaráðuneytisins uppkveðinn 14. ágúst 2002 um kröfu [NN] um ómerkingu úrskurðar nefndar samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, frá 20. júní 2002.

III.

Eins og að framan er rakið óskaði Persónuvernd með bréfi, dags. 22. maí 2002, eftir afstöðu yfirkjörstjórnar í Reykjavík til þeirrar venju við framkvæmd sveitarstjórnarkosninga að fulltrúar einstakra stjórnmálaflokka eða samtaka sitji inni í kjördeildum, fylgist með því og skrái niður hverjir taki þátt í kosningum. Var þess einkum óskað að gerð yrði grein fyrir afstöðu yfirkjörstjórnar til þess að fulltrúar stjórnmálaflokka fari með lista yfir þá sem þegar hafa kosið út úr kjördeildum, meðan kosningar standa yfir.

Í svarbréfi yfirkjörstjórnar Reykjavíkur, dags. 24. maí 2002, segir svo:

"Samkvæmt lögum nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna er hlutverk yfirkjörstjórnar að sjá til þess að komandi borgarstjórnarkosningar fari fram í samræmi við fyrirmæli þeirra laga. Í 1. mgr. 74 gr. laganna segir orðrétt:"Umboðsmenn lista eiga rétt á að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina og má hver þeirra átelja við kjörstjórnina það er honum þykir áfátt." Í samræmi við þetta ákvæði og þá meginreglu íslensks réttar, að kosningar til sveitarstjórna skuli vera lýðræðislegar, lítur yfirkjörstjórn svo á að þeir framboðslistar, sem í kjöri eru, eigi rétt á því að umboðsmenn þeirra séu viðstaddir kosningu í sérhverri kjördeild, enda trufli þeir ekki framkvæmd kosningarinnar. Þá eigi umboðsmenn rétt á að fá að vita nafn og önnur deili á hverjum þeim, sem óskar að neyta atkvæðisréttar, til þess að geta gengið úr skugga um hvort maður, sem er á kjörskrá, sé meinað að greiða atkvæði eða hvort maður, sem ekki er á kjörskrá, fái að kjósa. Í þessu skyni og til að ganga úr skugga um, að enginn kjósandi fái að neyta atkvæðiréttar oftar en einu sinni, eigi umboðsmenn jafnframt rétt á að hafa hjá sér eintak af kjörskrá til þess að merkja jafnóðum við þá sem greitt hafa atkvæði í kjördeildinni.

Yfirkjörstjórn er þeirrar skoðunar að þessi réttur umboðsmanna framboðslista samkvæmt lögum um sveitarstjórnarkosningar verði ekki skertur af almennum ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Yfirkjörstjórn telur það hins vegar ekki í verkahring sínum að taka afstöðu til þess hvort frekari meðferð og vinnsla þeirra upplýsinga, sem umboðsmenn framboðslista fá með fyrrgreindum hætti, samrýmist þeim lögum."

Sama afstaða til ofangreinds álitaefnis kemur fram í bréfi yfirkjörstjórnar til [NN], dags. 17. maí 2002 en þar segir:

"Með því skilorði, að það trufli ekki framkvæmd kosningarinnar, og í samræmi við fyrri venju verður ennfremur ekki gerð athugasemd við það af hálfu yfirkjörstjórnar þótt umboðsmenn framboðslista komi af og til inn í kjörfundarstofu til þess að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina. Í samræmi við fyrri venju mun yfirkjörstjórn heldur ekki hafa afskipti af því þótt umboðsmenn afli sér þannig upplýsinga um það hjá umboðsmönnum, sem þar kunna að vera staddir fyrir, hvaða kjósendur hafa greitt atkvæði í kjördeildinni."IV.Fyrir liggur úrskurður nefndar samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, uppkveðinn 20. júní 2002, í kærumáli NN. Var honum skotið til félagsmálaráðuneytisins, með erindi dags. 5. júlí 2002 sem kvað upp úrskurð sinn þann 14. ágúst s.á. Þótt um sé að ræða kæru einstaklings sem ekki á beina aðild að þessu máli, telur Persónuvernd rétt að rekja efni þessara úrskurða hér þar sem þeir varða afmörkun á úrskurðarvaldi á stjórnsýslustigi í því ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar.

Í úrskurði nefndar samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, segir að ástæða kærunnar sé söfnun Sjálfstæðisflokksins á persónuupplýsingum um kjósendur í kjördeildum í Reykjavík og að skilja verði kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík sem haldnar voru 25. maí 2002. Í úrskurði nefndarinnar er vísað til þess að umboðsmenn lista eigi samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, rétt á að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningarathöfnina. Ákvæðið beri að skilja svo að umboðsmenn lista eigi rétt á því að kanna hvort þeir sem neyta kosningaréttar séu á kjörskrá og eins gæta þess að manni sem skráður er á kjörskrá sé ekki meinað að neyta atkvæðisréttar. Til þess að rækja þetta hlutverk sitt sé umboðsmönnum heimilt að merkja við á eintaki af kjörskrá, hvort menn hafi neytt atkvæðisréttar. Með því fari fram vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Framgreind vinnsla sé heimil samkv. 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e. um sé að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem sé nauðsynleg vegna verks sem unnið sé í þágu almannahagsmuna. Í úrskurðinum segir síðan:"Samkvæmt þessu telur nefndin að umboðsmönnum framboða sé heimilt að merkja við á sínu eintaki af kjörskrá, hvort viðkomandi hafi neytt atkvæðisréttar og hafi framkvæmd borgarstjórnarkosninga í Reykjavík verið í samræmi við ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórrna sem og persónuverndarlaga. Er það því niðurstaða nefndarinnar að hafna kröfu [NN]."

Í úrskurðinum er tekið fram að af 93. gr. og 94. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, dragi "nefndin þá ályktun, að verksvið hennar sé afmarkað við það að skera úr um, hvort framkvæmd kosninganna hafi brotið gegn ákvæðum nefndra laga og eftir atvikum, hvort gætt sé annarra viðeigandi réttarheimilda." Tekur nefndin því enga afstöðu til þess, hvort frekari vinnsla á persónuupplýsingum en sú sem að framan er rakin, sé í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar sem það álitaefni falli utan verksviðs nefndarinnar.

Félagsmálaráðuneytið vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum 14. ágúst 2002. Í úrskurðinum er vísað til þess að erindi frá kæranda sé einnig til meðferðar hjá Persónuvernd, sem sé að lögum falið það hlutverk að annast eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og reglna sem settar séu á grundvelli þeirra. Til þessa hafi stofnunin víðtækar heimildir. Þá segir í úrskurðinum:

"Ráðuneytið telur að í ljósi framangreinds hlutverks Persónuverndar hljóti úrskurðarvald ráðuneytisins og nefndar skv. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 við meðferð kærumála um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga að takmarkast við ákvæði kosningalaga. Málsástæðum kæranda er varða ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga beri því að vísa frá nema í þeirri háttsemi sem þar er lýst felist einnig brot gegn ákvæðum laga nr. 5/1998, sbr. einkum XIII. og XVIII kafla.

Tekið skal fram að í áliti félagsmálaráðuneytisins frá 23. maí 2002, sem veitt var að beiðni yfirkjörstjórnarinnar í Kópavogi, var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 23. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna veiti umboðsmönnum framboðslista heimild til að vera í kjörfundarstofu á meðan kosning stendur yfir. Af öðrum ákvæðum laganna, svo sem 2. mgr. 49. gr., 53. gr., 1. mgr. 67. gr. og 74. gr., má ráða að umboðsmenn hafa víðtækan rétt til þess að fylgjast með framkvæmd kosningarinnar og gera athugasemdir ef þeir telja að kjörstjórn eða kjósendur hegði sér ekki lögum samkvæmt við kosningarathöfnina. Í því felst meðal annars að umboðsmenn eiga rétt á að gæta þess að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Ráðuneytið komst að sömu niðurstöðu í áliti sínu frá 29. júní 1994 (ÚFS 1994:97).

Þá skal þess getið að í bréfi yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík til kæranda, dags. 17. maí 2002, er lýst þeirri afstöðu, með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga nr. 5/1998, að umboðsmenn eigi rétt á að hafa hjá sér eintak af kjörskrá til þess að merkja jafnóðum við þá sem greitt hafa atkvæði í kjördeildinni. Þessi afstaða er ítrekuð í bréfi til Persónuverndar, dags. 24. maí 2002, sem er meðal framlagðra gagna í máli þessu.

Í erindi kæranda til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 23. maí 2002, er eingöngu að finna tilvísanir til ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og er engin tilraun gerð til þess í erindinu að sýna fram á á hvern hátt upplýsingasöfnun Sjálfstæðisflokksins í kjördeildum í Reykjavík og úrvinnsla þeirra upplýsinga sé andstæð ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna. Sama máli gegnir um erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 5. júlí 2002.

Er það niðurstaða ráðuneytisins að nefnd sem skipuð var af sýslumanninum í Reykjavík hafi af þessari ástæðu verið rétt að vísa erindi kæranda frá, í stað þess að fjalla um erindið á grundvelli laga nr. 77/2000, en eins og áður er fram komið hefur löggjafinn falið Persónuvernd að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga og úrskurða í ágreiningsmálum."V.Forsendur

Með setningu laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, var innleidd í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Markmið tilskipunarinnar er annars vegar að tryggja grundvallarmannréttindi einstaklinga og alveg sérstaklega rétt manna til þess að njóta friðhelgi um einkalíf sitt í tengslum við meðferð persónuupplýsinga og hins vegar að tryggja frjálst flæði persónuupplýsinga milli aðildarríkja ESB, sbr. m.a. ákvæði 8. tl. til og með 11. tl. í formálskafla hennar. Lög nr. 77/2000 auka verulega réttindi þeirra sem upplýsingar varða og hafa að geyma mun ítarlegri efnisreglur um vinnslu persónuupplýsinga en eldri lög á þessu sviði. Þá er í 1. gr. þeirra tilgreint að markmið laganna sé m.a. að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga.

Í fyrsta lagi hefur verið óskað álits Persónuverndar á því hvort umboðsmönnum framboðslista hafi verið heimil viðvera í kjördeildum í borgarstjórnarkosningunum í maí 2002. Segir í erindi umboðsmanna R-listans í Reykjavík að í "áratugi hafi verið gerðar athugasemdir við það að fulltrúar framboðsaðilar séu inni í kjördeildum, þar sem slíkt brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins og þá meginreglu að kosningar séu leynilegar."

Bæði félagsmálaráðuneytið og yfirkjörstjórn í Reykjavík hafa látið uppi rökstutt álit sitt á þessu álitaefni. Hafa því þar til bær stjórnvöld fjallað um þennan rétt umboðsmanna framboðslista samkvæmt lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, og telja hann heimilan. Verkefni Persónuverndar eru rakin í 37. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum. Er það m.a. að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga, þ.m.t. að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga, að úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga og tjá sig samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga. Fellur því utan verksviðs Perónuverndar að taka afstöðu til þess hvort viðvera fulltrúa framboðslista í kjördeild á meðan á kjörfundi stendur samrýmist meginreglunni um leynilegar kosningar.

Í öðru lagi hefur verið óskað álits Persónuverndar á því hvort fulltrúum stjórnmálaflokka eða samtaka sé heimilt að merkja í kjörskrá við það hverjir koma á kjörstað og nýta atkvæðisréttar.

Merking í kjörskrá við þá sem kosið hafa, telst handvirk vinnsla persónuupplýsinga sem eru hluti af skrá og fellur því undir gildissvið laga nr. 77/2000, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Slík vinnsla verður bæði að uppfylla gæðareglur 7. gr. laganna og eiga sér stoð í einhverri þeirra heimilda sem kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr. eða heimild í sérlögum. Í áliti félagsmálaráðuneytisins frá 23. maí 2002, sem veitt var að beiðni yfirkjörstjórnar í Kópavogi, segir að af ákvæðum laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna megi ráða að umboðsmenn framboðslista hafi víðtækan rétt til þess að fylgjast með framkvæmd kosninga og gera athugasemdir ef þeir telja að kjörstjórn eða kjósendur hegði sér ekki lögum samkvæmt við kosningarathöfnina. Í því felist m.a. réttur til að gæta þess að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Er um lagastoð vísað til 2. mgr. 49. gr., 53. gr., 1. mgr. 67. gr. og 74. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

Þá hefur yfirkjörstjórn í Reykjavík lýst þeirra afstöðu sinni að samkv. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 5/1998, eigi umboðsmenn framboðslista rétt á að hafa hjá sér eintak af kjörskrá til þess að merkja jafnóðum við þá sem greitt hafa atkvæði í kjördeildinni, sbr. bréf yfirkjörstjórnar, dags. 17. maí og 24. maí 2002.

Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, er vinnsla persónuupplýsinga heimil vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna. Segir í greinargerð með ákvæðinu að með verkefni í almannaþágu sé átt við verkefni sem hafi þýðingu fyrir breiðan hóp manna. Er sérstaklega tekið fram að vinnslan geti talist fara fram í þágu almannahagsmuna þótt hún fari ekki fram á vegum hins opinbera svo fremi sem hún þjóni hagsmunum breiðs hóps manna.

Samkvæmt 7. tl. sömu greinar er vinnsla persónuupplýsinga heimil ef hún er nauðsynleg til að ábyrgðaraðili eða þriðji maður, eða aðili sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema ef grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber lögum samkvæmt vegi þyngra. Felst í ákvæðinu að ábyrgðaraðili skuli viðhafa ákveðið mat á hagsmunum, þ.e. mat á því hvort hagsmunir hins skráða af því að vinnslan fari ekki fram vegi þyngra en þeir hagsmunir sem mæla með vinnslunni.

Einn af hornsteinum lýðræðislegs stjórnskipulags er ekki aðeins að kosningar fari fram með lögmætum hætti, heldur einnig að það sé sýnilegt að svo hafi verið. Er því í lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, tilgreindur réttur og skylda þeirra sem að framboðslistum standa við framkvæmd kosninganna. Má þar nefna rétt framboðslista til að tilnefna umboðsmenn sína til að fylgjast með allri framkvæmd og rétt umboðsmanna til að koma að athugasemdum telji þeir eitthvað ámælisvert, sbr. 23. gr. og 2. mgr. 74. gr. laga nr. 5/1998. Þá skulu tilteknar athafnir, er kosningunni tengjast, fara fram að umboðsmönnum framboðslistanna viðstöddum, sbr. t.d. 53. gr., 2. mgr. 67. gr. og 77. gr. laga nr. 5/1998. Fyrir liggur að í framangreindu eftirlitshlutverki felst réttur til að gæta þess að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Verður vart séð að umboðsmenn framboðslista geti gegnt þessu hlutverki, sem þeim er heimilað að lögum, með öðrum og vægari hætti gagnvart rétti manna til friðhelgis um einkamálefni sín en með viðveru í kjördeild og merkingu í kjörskrá. Verður því að telja umrædda vinnslu unna með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, upplýsingarnar fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 1., 2. og 3. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum.

Þegar virtir eru þeir hagsmunir sem framboðslistar hafa af því að allur undirbúningur og framkvæmd kosninga fari fram lögum samkvæmt og þær skyldur og réttindi sem umboðsmönnum þeirra eru falin samkvæmt lögum nr. 5/1998, verður að telja að framangreind vinnsla fari fram í þágu almannahagsmuna í skilningi 5. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Jafnframt verður að telja að hagsmunir hinna skáðu, þ.e. kjósenda, af því að fulltrúar stjórnmálaflokka fái ekki upplýsingar um hvort þeir nýti kosningarétt sinn beri að víkja fyrir þeim lögvörðu hagsmunum framboðslista að fylgjast með því að öll framkvæmd kosninganna fari að lögum. Á framangreind vinnsla sér því stoð í 5. tl. og 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í þriðja lagi er óskað álits á því hvort umboðsmönnum framboðslista í kjördeild sé heimilt að afhenda fulltrúum framboðslista skrá með nöfnum þeirra sem hafa kosið til að fara með út úr kjördeild..

Vinnsla persónuupplýsinga telst sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, óháð því hvaða aðferð er notuð til að gera upplýsingarnar tiltækar. Miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila telst því vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum. Óumdeilt er að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi farið með upplýsingar um þá sem hafa kosið út úr kjördeild. Í ljósi þessa var með ítrekað óskað rökstuddrar afstöðu flokksins til þess hvort og þá með hvaða hætti framangreind miðlun upplýsinga út úr kjördeild væri flokknum nauðsynleg vegna þeirra lögbundnu hagsmuna hans að gæta þess að kjörstjórn og kjósendur hegði sér lögum samkvæmt við kosningaathöfnina. Var síðasti frestur til þessa veittur til 1. mars 2003. Svör bárust hins vegar ekki.

Eins og að framan er rakið er heimil vinnsla persónuupplýsinga í kjördeild í þeim tilgangi að gera umboðsmönnum framboðslista kleift að hafa eftirlit með því að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni, sbr. 7. gr. og 5. tl. og 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 7. gr. laganna eru taldar upp þær meginreglur sem virða ber um gæði gagna og vinnslu. Samkvæmt 2. tl. skulu persónuupplýsingar fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Þá skulu þær vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Af þessu má ráða að miðlun þeirra upplýsinga sem hér er um deilt getur verið lögmæt svo fremi hún eigi sér þann sama tilgang og merking í kjörskrá og sé nauðsynleg vegna þess eftirlitshlutverks sem stjórnmálaflokkum er heimilað að lögum að viðhafa. Ekki liggja hins vegar fyrir í máli þessu upplýsingar frá ábyrgðaraðila vinnslunnar, Sjálfstæðisflokknum, um tilgang þess að persónuupplýsingum var miðlað út úr kjördeild á meðan á kjörfundi stóð. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki vísað til þess að miðlun persónuupplýsinganna eigi sér annan tilgang, heimilaðan að lögum.

Það er álit Persónuverndar að yfirkjörstjórnir eigi úrskurðarvald um meðferð þeirra persónuupplýsinga sem fram koma í kjörskrá komi upp ágreiningur um notkun þeirra við lögmætt eftirlit umboðsmanna stjórnmálaflokka við kosningar. Í því felst að það fellur undir yfirkjörstjórn að skera úr hvort heimilt sé að miðla upplýsingum úr kjördeild um það hverjir hafa kosið, sé því haldið fram að miðlunin og eftirfarandi vinnsla upplýsinganna sé eðlilegur og lögmætur þáttur í eftirliti með framkvæmd kosninganna. Öll notkun þessara upplýsinga, önnur en sú sem fer fram í þágu eftirlits með lögmæti kosninga, er óheimil nema að hún styðjist við ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 eða ákvæði í sérlögum. Rísi ágreiningur leysir Persónuvernd úr honum.

Samkvæmt 83. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, er það á ábyrgð yfirkjörstjórnar að sjá til þess að kjörskrám sé eytt að loknum kærufresti eða að fullnaðarúrskurði uppkveðnum varðandi kosninguna, hafi kosning verið kærð. Skal yfirkjörstjórn skrá yfirlýsingu þar um í gerðabók kjörstjórnar. Verður að skilja ákvæðið svo að það taki jafnframt til þeirra kjörskráa sem umboðsmenn framboðslista fá til afnota á kjörfundi. Er það í samræmi við þá meginreglu sem kveðið er á um í 5. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000, þess efnis að persónuupplýsingar skuli ekki varðveittar í því formi að unnt sé að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur. Framangreind meginregla er áréttuð í 26. gr. laganna er kveður á um að þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skuli ábyrgðaraðili eyða þeim. Segir þar að málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga geti m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að ábyrgðaraðili vinni enn með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra.

Það leiðir af framansögðu að miðlun upplýsinga út af kjörfundi um það hverjir hafa, þ.e. miðlun í öðrum tilgangi en þeim sem hér hefur verið vísað til, er óheimil nema til hennar standi sérstök heimild að lögum.

  1. Niðurstaða Persónuverndar

Það er álit Persónuverndar að umboðsmönnum framboðslista sé heimil viðvera í kjördeildum og að merkja í kjörskrá við þá sem koma og nýta atkvæðarétt sinn. Hins vegar telur Persónuvernd þeim vera óheimilt að miðla þessum upplýsingum út úr kjördeild nema slíkt sé nauðsynlegt í þeim tilgangi að hafa eftirlit með því að kosning fari löglega fram, t.d. tryggja að umboðsmenn framboðslistanna geti rækt það hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að þeir einir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820