Vændisbrotum fjölgaði töluvert í kynferðisbrotum skráðum hjá lögreglu
30. október 2025
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra sem sýnir tilkynningar til lögreglu um kynferðisbrot á fyrstu níu mánuði ársins 2025 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
Tilkynnt brot voru 7% fleiri en að meðaltali yfir sama tímabil síðastliðin þrjú ár, eða um 12 á viku.
Tilkynnt var um 35 vændisbrot á tímabilinu en brotin voru að meðaltali 15 fyrstu níu mánuði áranna 2022-2024.
Kynferðisbrot um helgar í sumar voru svipuð að fjölda og síðustu tvö ár, þrátt fyrir fækkun tilkynninga um nauðganir.
Tilkynnt brot í janúar til og með september
Tilkynnt kynferðisbrot voru 459 síðastliðna níu mánuði, sem jafngildir um 50 slíkum brotum á mánuði og 12 á viku hverri. Tilkynnt brot voru 7% fleiri en að meðaltali yfir sama tímabil síðastliðin þrjú ár. Það sem af er ári voru flest brot tilkynnt í ágúst (63 brot). Þegar litið er til fyrstu níu mánaða áranna 2019-2025 má sjá að flest kynferðisbrot voru tilkynnt lögreglu árið 2019 (493 brot) og fæst í janúar til september árið 2020 (361) en tilkynntum kynferðisbrotum fækkaði þegar Covid-19 stóð sem hæst.
Brot sem áttu sér stað í janúar til september á þessu ári og voru tilkynnt til lögreglu eru 330. Leiða má líkur að því að sú tala muni hækka þegar frá líður þar sem nokkur tími getur liðið frá því að brot á sér stað þar til það er tilkynnt til lögreglu. Á tímabilinu var tilkynnt um 156 nauðganir, 94 kynferðisbrot gegn börnum, 95 tilvik kynferðislegrar áreitni og stafrænna brota og 29 blygðunarsemisbrot. Þá hafa verið skráð 35 vændisbrot á tímabilinu en til samanburðar voru slík brot að meðaltali 15 á sama tímabili árin 2022 til 2024. Slík verkefni eru alla jafna frumkvæðisvinna lögreglunnar.
Grunaðir að stórum hluta eldri en þolendur
Grunaðir í kynferðisbrotum tilkynntum lögreglu voru 94% karlar í janúar til september sem er svipað hlutfall og fyrri ár. Rétt um 30% gerenda voru undir 25 ára aldri. Þegar litið er til nauðgana er hlutfall gerenda undir 25 ára rúmur þriðjungur. Þolendur í kynferðisbrotum voru í 84% tilvika konur, og um tveir af hverjum þremur er undir 25 ára og þar af næstum helmingur (47%) þolenda undir 18 ára. Þegar litið er til nauðgana voru 63% þolenda undir 25 ára.
Brot um helgar í sumar
Í tengslum við vitundarvakninguna Góða skemmtun í sumar voru skoðuð kynferðisbrot sem voru tilkynnt lögreglu og áttu sér stað um helgar (fim-sun) í sumar (júní-ágúst). Brotin voru 64 um helgar í sumar, sem er mjög svipaður fjöldi og síðastliðin 2 ár.
Tilkynntar nauðganir voru færri um helgar í sumar þetta árið en síðastliðin tvö ár (17 í samanburði við 22 síðustu tvö ár). Þá voru 7 brot um helgar í sumar sem tengdust kaup á vændi en brotin voru 10 um helgar í fyrra en ekkert slíkt brot var tilkynnt um helgi sumarið 2022.
Brotin dreifðust með sambærilegum hætti um landið og fyrri ár. Í kringum 33% brotanna voru tilkynnt til lögreglunnar á landsbyggðinni og 67% til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér.
------------
Nánari upplýsingar um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu má finna á ofbeldisgátt Neyðarlínunnar 112.is, og um meðferð allra sakamála á vefsíðu Ríkissaksóknara
Ætíð er hægt að tilkynna mál til 112. Þá má einnig finna upplýsingar um úrræði vegna kynferðisofbeldis á vef ofbeldisgáttarinnar, 112.is.
------------
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is og í síma 444-2570