Ferill sakamála í réttarkerfinu
Aðilar málsins
Í hefðbundnum sakamálum eru aðilar málsins nefndir:
Ákærandi: Sá sem höfðar mál á hendur aðila vegna lögbrots. Ákæruvaldið er í höndum héraðssaksóknara, ríkissaksóknara eða lögreglustjóra.
Ákærði: Sá sem hefur verið ákærður fyrir refsiverðan verknað, þegar búið er að gefa út ákæru og málið sent í dóm.
Sakborningur er sá sem er borinn er sökum eða grunaður um refsiverða háttsemi og getur það verið á hvað stigi máls sem er.
Tegundir mála
Sakamál geta verið margvísleg. Bæði getur verið um að ræða brot gegn almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum.
Þau sem telja sig hafa orðið fyrir refsiverðu broti geta leitað til lögreglu hvar sem er á landinu. Þetta á líka við um þau sem hafa orðið vitni að eða hafa upplýsingar um refsiverða háttsemi.
Það er hægt að koma upplýsingum til lögreglu í síma, í tölvupósti eða með því að mæta á lögreglustöð.
Þegar upplýsingar um mögulegt brot hafa borist metur lögreglan hvort hún eigi að hefja rannsókn sakamáls.
Lögregla verður að hefja rannsókn hvenær sem hún telur þörf á út af vitneskju eða gruni um að refsivert brot hafi verið framið. Þetta gildir hvort sem lögreglu hefur borist kæra eða ekki.
Frávísun kæru
Ef brotið hefur verið kært, og lögreglu þykir ekki efni til að hefja rannsókn á grundvelli framkominnar kæru er henni vísað frá.
Lögreglu ber að tilkynna kæranda um frávísun kærunnar og það er hægt að óska eftir rökstuðningi lögreglu fyrir þeirri ákvörðun.
Ákvörðunin kærð
Ákvörðun lögreglu um frávísun má kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.
Telji lögregla tilefni til að hefja rannsókn sakamáls á grundvelli framkominna upplýsinga hefst rannsókn málsins.
Við rannsókn sakamáls fara að jafnaði fram:
Skýrslutökur af sakborningi og vitnum, þar á meðal brotaþola.
Öflun annarra nauðsynlegra sönnunargagna.
Við rannsóknina ber lögreglu að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.
Rannsókn hætt
Lögregla getur hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Ástæður geta verið:
Í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist.
Brot er smávægilegt og það er hægt að sjá fyrir að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.
Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin.
Ákveði lögregla að hætta rannsókn málsins ber henni að tilkynna þeim sem hagsmuna hafa að gæta um ákvörðunina. Unnt er að óska eftir rökstuðningi lögreglu fyrir þeirri ákvörðun.
Ákvörðunin kærð
Ákvörðun lögreglu um að hætta rannsókn má kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.
Að lokinni rannsókn er mál sent ákæranda til meðferðar. Þá gerist eitt af eftirfarandi:
Málið er sent aftur til rannsóknar
Málið er fellt niður
Málinu lýkur án ákæru
Ákæra er gefin út
1. Aftur til rannsóknar
Ákærandinn gengur úr skugga um að rannsókn málsins sé lokið. Ef ákærandi telur að rannsaka þurfi málið betur er málið sent aftur til frekari rannsóknar eða tekin er ákvörðun um að rannsókn málsins skuli hætt.
Þegar ákærandi telur rannsókn máls lokið metur hann hvort það sem fram er komið í málinu sé nægilegt eða líklegt til að grunaður einstaklingur verði sakfelldur. Telji hann svo ekki vera fellir hann málið niður.
2. Málið fellt niður
Telji ákærandi að lokinni rannsókn sakamáls það sem fram er komið ekki vera nægilegt eða líklegt til sakfellis fellir hann málið niður.
Felli ákærandi mál niður ber að tilkynna það þeim sem hagsmuna hafa að gæta og er unnt að óska eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun.
Ákvörðunina er unnt að kæra til ríkissaksóknara og er kærufrestur einn mánuður. Ríkissaksóknara ber að taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að hún berst embættinu.
3. Lok máls án ákæru
Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum getur ákærandi boðið sakborningi að ljúka máli með sektargerð eða skilorðsbundinni ákærufrestun í stað útgáfu ákæru.
Ákæranda er jafnframt heimilt að falla frá saksókn í sérstökum tilvikum.
Sektargerð: Ef lögreglustjóri telur að viðurlög við broti fari ekki fram úr sekt að tiltekinni fjárhæð sem ákveðin er í reglugerð getur lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka máli án atbeina dómstóla með greiðslu sektar og eftir atvikum sviptingu réttinda eða upptöku muna.
Skilorðsbundin ákærufrestun: Með skilorðsbundinni ákærufrestun er útgáfu ákæru frestað skilorðsbundið um tiltekinn tíma. Skilyrði fyrir beitingu þessa úrræðis er að sakborningur hafi játað brot sitt.
Heimilt er að beita þessu úrræði ef brot er framið af einstaklingi á aldrinum 15-21 árs og brotið sé ekki þess eðlis að almannahagsmunir krefjist saksóknar. Þessu úrræði er líka beitt ef högum sakbornings er þannig háttað að umsjón eða aðrar ráðstafanir megi teljast vænlegri til árangurs en refsing.
Aðrar ráðstafanir: Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga.
Fallið frá saksókn: Heimilt er að falla frá saksókn og höfða ekki sakamál á hendur sakborningi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Til dæmis ef mál er smávægilegt og fyrirsjáanlegt að umfang málsins verði í verulegu ósamræmi við þá refsingu sem vænta má, ef sakborningur virðist vera ósakhæfur og ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum.
Skilyrði sem þarf að uppfylla: 146. gr. almennra hegningarlaga.
Ákvarðanir lögreglustjóra og héraðssaksóknara kærðar
Unnt er að kæra til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að vísa frá kæru, hætta rannsókn, fella niður mál og falla frá saksókn. Skal það gert innan eins mánaðar frá því að viðkomandi var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan þriggja mánaða frá því að kæran barst honum.
Kæra skal vera skrifleg og skal þar koma fram málsnúmer lögreglu eða héraðssaksóknara. Ekki gilda neinar formreglur um kæru til ríkissaksóknara en þó er rétt að þar komi fram hvaða kröfur séu gerðar og helstu sjónarmið kæranda. Þá er gott að ljósrit af bréfi lögreglustjóra eða héraðssaksóknara fylgi kærunni.
Eftir að ríkissaksóknara berst kæran skrifar hann lögreglustjóra eða héraðssaksóknara bréf og óskar eftir afriti af málsgögnum. Ennfremur er kæranda send staðfesting á móttöku kærunnar. Hafi einstaklingur fengið réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu eða héraðssaksóknara er viðkomandi send tilkynning um kæruna. Að lokinni skoðun ríkissaksóknara á málsgögnum tekur hann rökstudda ákvörðun í málinu og tilkynnir málsaðilum um niðurstöðu sína.
Kæru á ákvörðunum lögreglustjóra og héraðssaksóknara skal beina til ríkissaksóknara bréfleiðis eða á netfangið: saksoknari@saksoknari.is.
4. Ákæra
Ákæruvaldið höfðar sakamál með útgáfu ákæru og sendir hana ásamt sönnunargögnum málsins í héraðsdóm.
Þinghald
Eftir að ákæra hefur borist héraðsdómi frá ákæruvaldinu ákveður dómari stað og stund þinghalds þar sem málið verður þingfest. Dómarinn gefur út fyrirkall á hendur ákærða en þar kemur fram hvenær og hvar málið verður þingfest.
Þingfesting
Málið er þingfest þegar ákæra og önnur gögn af hálfu ákæruvaldsins eru lögð fram á dómþingi.
Ef ákærði kemur ekki fyrir dóminn, þótt honum hafi verið löglega birt ákæra, má leggja málið í dóm að ákveðnum skilyrðum uppfylltum eða fela lögreglu að handtaka hann og færa fyrir dóminn.
Ef ákærði mætir fyrir dóminn og játar skýlaust alla háttsemi sem honum er gefið að sök, og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játningin sé sannleikanum samkvæm, tekur dómari málið þegar til dóms nema annar hvor aðila krefjist að fram fari aðalmeðferð í því.
Aðalmeðferð
Ef ákærði neitar sök fer fram aðalmeðferð en áður gefst ákærða kostur á að leggja fram skriflega greinargerð. Við aðalmeðferð máls fara fram skýrslutökur af ákærða og vitnum, sem og munnlegur flutningur málsins. Að loknum málflutningi er málið tekið til dóms.
Einstaklingur sem hefur verið sakfelldur með héraðsdómi getur áfrýjað dómnum til Landsréttar ef viðkomandi hefur verið dæmdur:
Í fangelsi.
Til að greiða sekt eða sæta upptöku eigna sem nær áfrýjunarfjárhæð í einkamáli.
Áfrýjun þarf að lýsa yfir í bréflegri tilkynningu sem verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans.
Hafi dómfelldi verið dæmdur til vægari refsingar en að ofan greinir getur hann sótt um áfrýjunarleyfi, sem Landsréttur getur veitt, ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni eða ef ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi.
Beiðni um áfrýjunarleyfi ásamt yfirlýsingu um áfrýjun verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Unnt er þó að sækja um áfrýjunarleyfi til Landsréttar í þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests ef dráttur á áfrýjun er nægilega réttlættur.
Senda þarf ríkissaksóknara tilkynningu ásamt skriflegri umsókn um leyfið þar sem rökstutt er hvernig ákærði telur að skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi sé fullnægt. Landsréttur getur orðið við slíkri umsókn sé einhverju skilyrðanna hér að framan fullnægt.
Ríkissaksóknari getur einnig áfrýjað héraðsdómi eða sótt um leyfi til áfrýjunar til Landréttar ef hann telur ákærða hafa verið ranglega sýknaðan eða honum verið gerð of væg refsing. Ríkissaksóknari getur líka áfrýjað dómi ákærða til hagsbóta.
Dómi Landsréttar verður ekki áfrýjað til Hæstaréttar nema að fengnu áfrýjunarleyfi Hæstaréttar.
Dómfelldi getur óskað eftir leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Umsókn dómfellda um leyfi til áfrýjunar skal send ríkissaksóknara, sem áframsendir hana ásamt umsögn sinni um beiðnina og öðrum gögnum til Hæstaréttar.
Beiðni um áfrýjunarleyfi verður að berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, hafi birtingar verið þörf, en annars innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu hans. Unnt er þó að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í þrjá mánuði eftir lok áfrýjunarfrests ef dráttur á áfrýjun er nægilega réttlættur.
Hæstiréttur ákveður hvort orðið verði við ósk um áfrýjunarleyfi. Slíkt leyfi skal aðeins veita ef áfrýjun lýtur að atriði sem:
hefur verulega almenna þýðingu,
eða af öðrum ástæðum er mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um.
Þá getur Hæstiréttur veitt slíkt leyfi ef ástæða er til að ætla að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni.
Hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skal þó verða við ósk ákærða, eða ákæruvaldsins honum til hagsbóta, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.
Ríkissaksóknari getur einnig óskað eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar og gilda um þá beiðni sömu skilyrði og að framan greinir.
Þjónustuaðili
Ríkissaksóknari