Reglur og leiðbeiningar
Reglur
1. gr.
Þegar sóknaraðili sendir gögn kærumáls (kærumálsgögn) til Landsréttar samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu gögnin vera í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum.
Kærumálsgögn skulu vera í fjórum eintökum.
2. gr.
Sóknaraðili ber ábyrgð á að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Hann skal, sé þess kostur, hafa samráð við varnaraðila um hvaða skjöl málsins skuli vera meðal kærumálsgagna.
Þegar málsaðilar senda Landsrétti gögn samkvæmt reglum þessum skulu þau samtímis send gagnaðila.
3. gr.
Sóknaraðili skal gæta þess að meðal kærumálsgagna séu einungis þau skjöl sem sérstaklega er þörf á til úrlausnar þeim ágreiningi sem kærumálið varðar.
4. gr.
Fremst í kærumálsgögnum skal vera efnisyfirlit yfir þau skjöl sem nefnd eru í 5. gr., í þeirri röð sem þar kemur fram, og skal geta um blaðsíðutal í málsgögnum.
5. gr.
Kærumálsgögn skulu vera sem hér greinir:
1. Hinn kærði úrskurður.
2. Endurrit þinghalda málsins í héraði.
3. Kæra og greinargerð sóknaraðila.
4. Stefna til héraðsdóms eða annað sóknarskjal ef við á og greinargerð stefnda í héraði.
5. Önnur skjöl, sem nauðsynleg eru til þess að leyst verði úr þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í kærumálinu.
6. Ný skjöl, sem nauðsynleg teljast vegna kærumálsins.
7. Skjöl, sem getið er í 6. gr. þessara reglna.
8. Stutt hlutlæg greining á ágreiningsefnum kærumálsins og efni héraðsdómsmálsins.
Skjölum er getið er í 5. og 6. tölulið skal raða í tímaröð, nema önnur röð sé heppilegri.
6. gr.
Sóknaraðili getur látið fylgja gögn sem staðfesta greiðslu útlagðs kostnaðar við kærumálið og yfirlit um þá tíma, sem unnið hefur verið við þann þátt málsins sérstaklega.
7. gr.
Kærumálsgögn skulu vera í einu bindi, nema umfang máls gefi tilefni til að bindin séu fleiri. Á kápu kærumálsgagna skal greina heiti máls fyrir Landsrétti og lögmenn aðila.
Kærumálsgögn skulu vera með blaðsíðutali. Þau skulu vera skýr, vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
8. gr.
Telji varnaraðili þörf á fleiri gögnum til úrlausnar kærumálsins, en er að finna í kærumálsgögnum, getur hann látið þau fylgja greinargerð sinni ásamt skrá um þau ef fjöldi skjalanna gefur tilefni til þess. Ef umfang þeirra skjala sem varnaraðili leggur fram er verulegt skulu þau vera í hefti og með blaðsíðutali og að öðru leyti í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Þá getur varnaraðili einnig látið fylgja gögn sem getið er í 6. gr.
9. gr.
Fari aðili kærumáls fram á að kærumálið verði flutt munnlega fyrir Landsrétti og munnleg sönnunarfærsla fari þar fram skal hann senda réttinum, með kærumálsgögnum eða eftir atvikum greinargerð, hlutlausan og hnitmiðaðan útdrátt úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og sem óskað er eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski aðli eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina frá því með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
10. gr.
Nú er gerð kærumálsgagna í verulegu ósamræmi við fyrirmæli þessara reglna, án þess að 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 eigi við, og getur þá Landsréttur mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Sé fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt getur rétturinn frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og sakamála og öðlast gildi 2. janúar 2018.
Landsrétti, 2. janúar 2018.
Hervör Þorvaldsdóttir
Björn L. Bergsson
1. gr.
Þegar áfrýjandi afhendir Landsrétti áfrýjunarstefnu og greinargerð sína skal hann jafnframt skila málsgögnum á skrifstofu réttarins. Til málsgagna teljast þau málskjöl og önnur gögn sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Landsrétti og liggja þegar fyrir, auk skjala sem stefndi reisti mál sitt á í héraði og áfrýjandi má með réttu telja nauðsynleg vegna varna stefnda fyrir réttinum. Í málsgögnum skulu einnig vera héraðsdómurinn sem áfrýjað er, endurrit þinghalda í héraði og önnur gögn, sem mælt er fyrir um í reglum þessum. Til málsgagna teljast hljóð- og myndupptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi.
Landsrétti skulu afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka sem rétturinn telur þörf á. Jafnframt skal áfrýjandi láta í té rafrænt eintak allra gagna málsins, þar með talið hljóð- og myndupptökur á minnislykli sem fram fóru í héraðsdómi eða með öðrum tæknilega fullnægjandi hætti. Afhenda skal stefnda, eða hverjum stefnda ef þeir eru fleiri en einn, eitt eintak málsgagna auk rafræns eintaks um leið og þau eru afhent Landsrétti.
2. gr.
Áfrýjandi ber ábyrgð á gerð málsgagna og að þau séu í samræmi við þessar reglur. Hann skal hafa samráð við stefnda um gerð þeirra og um hvaða skjölum, sem lögð voru fram í héraði, sé ofaukið vegna flutnings málsins fyrir Landsrétti. Hann skal taka sanngjarnt tillit til sjónarmiða stefnda um hvaða skjöl eigi að vera í málsgögnum.
Nú greinir aðila á um hvaða skjala sé þörf við gerð málsgagna og stefndi telur ástæðu til að þar séu skjöl sem áfrýjandi telur ofaukið og er stefnda þá heimilt að leggja þau fram af sinni hálfu. Í því tilviki ber hann ábyrgð á gerð þeirra málsgagna sem hann skilar.
Málsaðilum er skylt að gæta þess að ekki séu í málsgögnum, sem þeir afhenda Landsrétti, skjöl sem engu skipta við úrlausn málsins fyrir réttinum og að þar sé aðeins eitt eintak af hverju skjali.
3. gr.
Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá yfir gögnin og skal geta um blaðsíðutal hvers skjals.
Efnisskránni skal skipað svo:
Í fyrsta kafla skal geta allra skjala í framlagningarröð í héraði með réttu númeri og með vísan til blaðsíðutals í málsgögnunum. Þau skjöl sem lögð voru fram í héraði, en sleppt er í málsgögnum, skulu vera yfirstrikuð.
Í öðrum kafla skal greina skjöl í þeirri röð sem þau koma fyrir í málsgögnum, (sbr. b- til e-liði þessarar greinar) og geta blaðsíðutals í málsgögnum.
Í þriðja kafla skal greina öll þinghöld í málinu í héraði og endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi (sbr. f- og g-liði þessarar greinar) og vísa til blaðsíðutals í málsgögnum þar sem endurrit þinghalds og einstaka framburðar er að finna.
Í fjórða kafla skal geta nýrra skjala, sem lögð eru fyrir Landsrétt (sbr. h- til j-liði þessarar greinar) með bókstafsmerkingum þeirra og jafnframt geta blaðsíðutals þar sem þau má finna í málsgögnum.
Í fimmta kafla skal geta þeirra skjala sem Landsréttur gerir kröfu um að fylgi málsgögnum og talin eru upp í k- til m-liðum þessarar greinar.
Röð skjala í málsgögnum og rafrænu eintaki þeirra skal vera sem hér segir:
a. Efnisskrá,
b. héraðsdómsstefna og skrá um framlögð gögn við þingfestingu máls í héraði,
c. greinargerð stefnda í héraði,
d. gagnstefna í héraði og greinargerð í gagnsök ef því er að skipta,
e. framlögð skjöl í héraði, að því marki sem áfrýjandi telur að vera þurfi í málsgögnum, að teknu tilliti til sjónarmiða stefnda. Skjölin skulu vera í tímaröð. Ótímasett skjöl skulu vera þar sem þau eiga helst heima miðað við efnislegt samhengi þeirra við önnur skjöl,
f. endurrit af bókunum í þingbók í héraði í tímaröð,
g. endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins,
h. héraðsdómurinn, sem áfrýjað er,
i. áfrýjunarstefna,
j. greinargerð áfrýjanda,
k. tímaskrá þar sem tilgreind eru öll meginatriði málsatvika í tímaröð,
l. hlutlæg greining málsins og lýsing ágreiningsefna fyrir Landsrétti. Hún skal vera stutt og svo glögg sem verða má,
m. skrá yfir nöfn þeirra sem komið hafa fyrir dóm við meðferð málsins í héraði. Þá skal tiltaka nöfn þeirra sem óskað er eftir að verði leiddir til skýrslugjafar fyrir Landsrétti. Taka ber saman hlutlausan og hnitmiðaðan útdrátt úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og óskað er eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski áfrýjandi eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
Ef málsgögn eru í fleiri en einu hefti skal, auk blaðsíðutals, tilgreina í hvaða bindi þau eru.
4. gr.
Nú skilar stefndi einnig málsgögnum af sinni hálfu og skal kaflaskipan í efnisskrá hans vera með sama hætti og greinir í 3. gr. Í efnisskrá stefnda skal einungis geta skjala sem þar eru tekin upp.
Ef stefndi óskar eftir því að leiða aðila eða vitni til skýrslugjafar fyrir Landsrétti, sem áfrýjandi hefur ekki þegar tilgreint, skal hann tiltaka nöfn þeirra og taka saman hlutlausan og hnitmiðaðan útdrátt úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og óskað er eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski stefndi eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina frá því með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
5. gr.
Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleiri ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls og nöfn þeirra sem flytja málið fyrir Landsrétti. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr, vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
6. gr.
Nú er hluta skjals, sem lagt var fram í héraði, sleppt og skal þess þá getið sérstaklega í skjalinu þar sem úrfellingin er. Taka skal fram hve mörgum blaðsíðum er sleppt.
7. gr.
Málsgögn skulu vera með blaðsíðutali. Ný skjöl fyrir Landsrétti skulu merkt með bókstöfum og skulu þau þeirra sem komast í málsgögnin jafnframt vera blaðsíðusett þar á viðeigandi hátt.
8. gr.
Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skal vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið í málsgögnum þar sem þau ella væru.
9. gr.
Nú er héraðsdómur ómerktur og máli vísað heim í hérað til meðferðar og getur þá málsaðili óskað eftir því að Landsréttur varðveiti málsgögn í 12 mánuði. Sé dómi áfrýjað á ný má áfrýjandi, við gerð málsgagna, láta við það sitja að hafa þar einungis þau gögn sem bæst hafa við frá fyrri meðferð málsins og skal hann skipa þeim í röð í samræmi við þessar reglur eftir því sem við á. Að öðru leyti má hann nota eldri málsgögn.
10. gr.
Nú afhendir áfrýjandi eða stefndi Landsrétti málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til sjö dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Landsréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 4. mgr. 156. gr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og sakamála og öðlast gildi þegar í stað.
Landsrétti, 2. janúar 2018
Hervör Þorvaldsdóttir
Björn L. Bergsson
1. gr.
Þegar ríkissaksóknara hafa borist dómsgerðir samkvæmt 1. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og verjandi hefur verið skipaður, skal ríkissaksóknari í samráði við verjanda útbúa málsgögn. Til þeirra teljast afrit þeirra málsskjala og endurrita sem aðilar telja þörf á við úrlausn málsins, eins og áfrýjun er háttað.Til málsgagna teljast hljóð- og myndupptökur af aðila- og vitnaskýrslum fyrir héraðsdómi.
Landsrétti skulu afhent málsgögn í þeim fjölda eintaka, sem rétturinn telur þörf á, svo og dómsgerðir. Jafnframt skal ríkissaksóknari láta réttinum í té rafrænt eintak allra gagna málsins, þar með talið hljóð- og myndupptökur, sem fram fóru fyrir héraðsdómi, á minnislykli eða með öðrum tæknilega fullnægjandi hætti.
Ríkissaksóknari skal afhenda verjanda ákærða eitt eintak málsgagna auk rafræns eintaks, sbr. 2. mgr. 1. gr.
2. gr.
Almennt skulu einungis tekin með í málsgögn þau skjöl er lögð voru fram í héraði og þörf er á við flutning og úrlausn málsins fyrir Landsrétti.
Nú er dómi einungis áfrýjað um hluta þeirra ákæruliða, sem fjallað var um í héraði og skulu þá málsgögn aðeins hafa að geyma skjöl um þá liði sem sæta áfrýjun.
Þegar dómi er áfrýjað með takmörkuðum hætti, sbr. a- til e-liði 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008, skal takmarka málsgögn með hliðsjón af því í hvaða skyni er áfrýjað.
3. gr.
Nú telur ríkissaksóknari, eins og áfrýjun dóms er háttað og að höfðu samráði við verjanda, að alls engin þörf sé á að taka í málsgögn tiltekin skjöl, sem lögð voru fram við meðferð máls í héraði, og skulu þau þá ekki vera meðal málsgagna ríkissaksóknara. Fallist verjandi ekki á að þau séu óþörf getur hann útbúið málsgögn af sinni hálfu, sem hafi að geyma þau málskjöl sem hann telur nauðsynleg vegna flutnings málsins fyrir Landsrétti og eru ekki meðal málsgagna ríkissaksóknara.
4. gr.
Fremst í málsgögnum skal vera efnisskrá og skal skipan hennar og einstakra liða vera í samræmi við röðun málsgagna, eins og henni er lýst í 5. gr. Í efnisskrá skal geta blaðsíðutals hvers skjals í málsgögnum.
5. gr.
Málsgögn skulu, ef því er að skipta, geyma endurrit eða ljósrit eftirtalinna gagna í þessari röð, nema sérstakar ástæður mæli með annarri niðurröðun:
A-hluti – málsóknargögn
Ákæru og önnur gögn sem varða málsóknina sérstaklega.
B-hluti – héraðsdómur og gögn tengd áfrýjun
Hinn áfrýjaða dóm ásamt birtingarvottorði og yfirlýsingu dómþola um áfrýjun ef því er að skipta.
Áfrýjunarstefnu með áritun um birtingu.
Bréfaskipti sem lúta að áfrýjun, skipun verjanda og réttargæslumanns, ef því er að skipta, fyrir Landsrétti.
Gögn um persónulega hagi ákærða, svo sem sakavottorð og annað sem talið er skipta máli við ákvörðun refsingar.
C-hluti – endurrit þinghalda, skýrslur fyrir dómi, hljóð- og myndupptökur, dómsuppsaga
Endurrit þinghalda í málinu fyrir héraðsdómi.
Tilgreiningu á þeim sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi.
Tilgreiningu á þeim sem ríkissaksóknari óskar eftir að gefi skýrslu fyrir Landsrétti, ásamt hlutlausum og hnitmiðuðum útdrætti úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og sem ríkissaksóknari óskar eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint.
Hljóð- og myndupptökur ásamt endurriti af framburði málsaðila og vitna fyrir héraðsdómi að því leyti sem þörf er á vegna reksturs málsins fyrir Landsrétti. Óski ríkissaksóknari eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
Endurrit vegna dómsuppsögu.
D-hluti – rannsóknargögn lögreglu
Kæru og önnur gögn tengd henni.
Önnur gögn vegna rannsóknar og skal þeim skipað saman eftir rannsóknar¬tilvikum ef því er að skipta.
Skýrslur ákærða og vitna hjá lögreglu og samantektir lögreglu á efni þeirra.
E-hluti – réttarfarsgögn
Úrskurði um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti nægir yfirlit frá Fangelsismálastofnun um gæsluvarðhaldsvist ákærða vegna rannsóknar málsins, nema ríkissaksóknari telji ástæðu til að láta einstaka úrskurði og dóma, ef því er að skipta, fylgja. Alltaf skal geta úrskurða og dóma í efnisskrá samkvæmt 4. gr.
Aðra úrskurði á rannsóknarstigi. Nægilegt er að listi um úrskurði og ástæður þeirra sé meðal málsgagna, nema ríkissaksóknari telji sérstaka ástæðu til að einstakir úrskurðir og dómar, ef því er að skipta, fylgi. Geta skal úrskurða og dóma í efnisskrá samkvæmt 4. gr.
F-hluti – önnur gögn
Önnur gögn, svo sem eldri dóma og viðurlagaákvarðanir, sem haft geta þýðingu við ákvörðun refsingar.
G-hluti – skjöl lögð fram eftir þingfestingu
Greinargerð ákærða ef því er að skipta.
Bókanir, sem kunna að hafa verið lagðar fram.
Önnur skjöl.
Skjölum innan hluta D, E, F og G skal raða eftir því sem unnt er í tímaröð.
6. gr.
Málsgögn skulu vera í einu bindi eða fleiri ef þarf. Á kápu skal greina nafn og númer máls og nöfn þeirra sem flytja málið fyrir Landsrétti. Endurrit og ljósrit skjala skulu vera skýr, vel læsileg og án yfirstrikana eða merkja um þær.
7. gr.
Ef hluta skjals, sem lagt var fram í héraði, er sleppt skal þess getið sérstaklega á viðeigandi stað í skjalinu og þá jafnframt hve mörgum blaðsíðum er sleppt.
8. gr.
Málsgögn skulu vera með blaðsíðutali. Ný skjöl fyrir Landsrétti skulu merkt með bókstöfum í stafrófsröð, talið frá upphafi stafrófs. Þau nýju skjöl sem liggja fyrir er málsgögn eru útbúin skulu jafnframt vera blaðsíðusett þar á viðeigandi hátt.
9. gr.
Uppdrættir, ljósmyndir og annað, sem ekki er unnt að hafa í málsgögnum þannig að vel fari, skal vera í sérstöku bindi eða möppu. Það skal merkt með rómverskum tölum og skal þessara gagna getið þar í málsgögnum sem þau ella væru.
10. gr.
Nú skilar ákærði einnig málsgögnum af sinni hálfu og skal kaflaskipan í efnisskrá hans vera með sama hætti og greinir frá í 5. gr.
Ákærði skal tilgreina þá sem hann óskar eftir að gefi skýrslu fyrir Landsrétti og ríkissaksóknari hefur ekki þegar tilgreint, ásamt hlutlausum og hnitmiðuðum útdrætti úr framburði þeirra sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi og ákærði óskar eftir að gefi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti auk þess sem markmið þeirrar skýrslugjafar er skilgreint. Óski ákærði eftir því að hlýtt verði á upptökur framburðar við aðalmeðferð ber honum að greina með eins nákvæmum hætti og kostur er hvaða hluta framburðar er talið að skipti máli að hlýða á.
11. gr.
Nú er héraðsdómur ómerktur og máli vísað heim í hérað til meðferðar og getur þá ríkissaksóknari óskað eftir því að Landsréttur varðveiti málsgögn í 12 mánuði. Sé dómi áfrýjað á ný má ríkissaksóknari, við gerð málsgagna, láta við það sitja að hafa þar einungis þau gögn sem bæst hafa við frá fyrri meðferð málsins og skal hann skipa þeim í röð í samræmi við þessar reglur eftir því sem við á. Að öðru leyti er heimilt að nota eldri málsgögn.
12. gr.
Nú afhendir ríkissaksóknari, eða ákærði ef því er að skipta, Landsrétti málsgögn sem eru í verulegu ósamræmi við reglur þessar og getur þá rétturinn, allt þar til sjö dögum fyrir flutning málsins, mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Nú er fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt og getur þá Landsréttur frestað máli þar til úr hefur verið bætt.
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 202. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og sakamála og öðlast gildi þegar í stað.
Landsrétti 2. janúar 2018
Hervör Þorvaldsdóttir
Björn L. Bergsson
1. gr.
Til að flytja áfrýjað einkamál fyrir Landsrétti þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Landsrétti. Sömu réttindi þarf til að fá í sakamáli skipun sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál brotaþola fyrir réttinum.
Héraðsdómslögmanni sem fengið hefur réttindi samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur, sbr. 31. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er heimilt að flytja áfrýjað einkamál fyrir réttinum og fá skipun í sakamáli sem verjandi eða réttargæslumaður eða til að flytja mál brotaþola fyrir réttinum.
Um heimild lögmanns í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að flytja mál fyrir réttinum fer eftir 3. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
2. gr.
Í einkamálum og sakamálum er héraðsdómslögmönnum heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar.
Til að skila greinargerð vegna kæru í einkamáli þarf lögmaður að hafa málflutningsréttindi fyrir Landsrétti. Í sakamálum er héraðsdómslögmanni, sem skipaður hefur verið verjandi eða réttargæslumaður fyrir héraðsdómi, þó heimilt að skila greinargerð til réttarins vegna kæru.
Í kærumálum eftir lögum nr. 13/1984 um framsal og aðra réttaraðstoð í sakamálum, lögræðislögum nr. 71/1997, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og lögum nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlanda vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun), er héraðsdómslögmanni, sem gætir hagsmuna aðila máls, þó heimilt að skila greinargerð til réttarins.
3. gr.
Lögmaður sem lætur frá sér fara kæru eða greinargerð skal undirrita hana sjálfur.
4. gr.
Héraðsdómslögmaður getur sótt um áfrýjunarleyfi til réttarins og tekið til andsvara vegna beiðni um slíkt leyfi.
Reglur þessar voru samþykktar á fundi dómara Landsréttar 13. febrúar 2018.
Kópavogi, 14. febrúar 2018
Björn L. Bergsson,
skrifstofustjóri.
1. gr.
Form tryggingar
Landsréttur ákveður form málskostnaðartryggingar og metur hvort taka eigi tryggingu gilda.
Að jafnaði er rétt að leggja málskostnaðartryggingu fram í formi reiðufjár eða bankatryggingar.
2. gr.
Meðferð málskostnaðartryggingar í reiðufé
Reiðufé sem afhent er sem málskostnaðartrygging varðveitir Landsréttur á bankareikningi í eigin nafni, auðkennt viðkomandi dómsmáli með málsnúmeri. Vextir sem á slíkt reiðufé falla bætast við trygginguna.
3. gr.
Gildistími bankatryggingar
Rétt er að setja það skilyrði að bankatrygging, sem lögð er fram sem málskostnaðar-trygging, haldi fullu gildi þar til Landsréttur staðfestir að hún sé úr gildi fallin en þó ekki lengur en í þrjú ár frá því að tryggingin var tekin. Slík trygging ber hvorki vexti né verðtryggingu nema dómari ákveði annað.
4. gr.
Bókun um málskostnaðartryggingu
Hafi málskostnaðartrygging verið sett skal bókað í þingbók hvers konar tryggingu sé um að ræða og hversu háa og skulu skilríki um trygginguna lögð fram í málinu.
5. gr.
Afhending málskostnaðartryggingar
Málskostnaðartrygging skal afhent Landsrétti. Sá sem setur málskostnaðartryggingu á rétt á því að frá kvittun fyrir afhendingu tryggingarinnar.
6. gr.
Greiðsla tryggingarfjár
Nú er sá sem setur málskostnaðartryggingu í formi reiðufjár dæmdur til að greiða málskostnað eða gerir sátt þar um og ber þá að greiða dæmdan, úrskurðaðan eða umsaminn málskostnað af tryggingarfé þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til frekari áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar eða þegar endanlegur dómur er genginn í málinu. Innstæða, svo og vextir sem hún hefur borið, skal greidd þeim sem á að fá tryggingarféð að því marki sem nauðsynlegt er til þess að málskostnaður verði að fullu greiddur. Sömu skilyrði og að framan greinir gilda um endurgreiðslu tryggingarfjár til þess sem trygginguna setti.
Nú er málskostnaðartrygging sett í formi bankatryggingar og skal þá Landsréttur, þegar fyrir liggur yfirlýsing um að ekki komi til áfrýjunar málsins, þegar áfrýjunarfrestur er liðinn án áfrýjunar eða þegar endanlegur dómur er genginn í málinu, gefa út yfirlýsingu um að banka sé heimilt að greiða tryggingarhafa allt tryggingarféð eða þann hluta sem samsvarar dæmdum, úrskurðuðum eða umsömdum málskostnaði, eða eftir atvikum um að trygginguna megi fella niður.
Aðili máls, sem telur sig eiga rétt til tryggingarfjár, skal gera reka að því að fá það greitt út með því að krefja um greiðslu þess eða afla yfirlýsingar Landsréttar um að banka sé heimilt að greiða honum það.
7. gr.
Fyrning
Ef tryggingarfjár, sem afhent hefur verið í formi reiðufjár, er ekki vitjað gilda um það almennar fyrningarreglur.
8. gr.
Aðrar tryggingar
Viðmiðunarreglur þessar gilda, eftir því sem við getur átt, um tryggingu fyrir greiðslu þóknunar til matsmanns, skv. 63. gr. laga nr. 91/1991, og tryggingu vegna ástæðulausrar kæru, skv. 3. mgr. 170. gr. sömu laga.
Þannig samþykkt á fundi dómara Landsréttar
14. mars 2018.
Leiðbeiningar til málflytjenda varðandi munnlega sönnunarfærslu og spilun á upptökum fyrir Landsrétti í sakamálum
1. Inngangur
Markmiðið með leiðbeiningum þessum er að treysta í sessi meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum á áfrýjunarstigi.
Ekki er gert ráð fyrir að munnleg sönnunarfærsla fyrir héraðsdómi verði endurtekin frá grunni fyrir Landsrétti. Miðað er við að endurskoðun Landsréttar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fari að jafnaði fram á grundvelli:
endurrita af framburði fyrir héraðsdómi,
myndupptöku, eða eftir atvikum hljóðupptöku, af framburði fyrir héraðsdómi,
munnlegrar viðbótarskýrslu af ákærða eða vitni sem gefið hefur skýrslu fyrir héraðsdómi,
munnlegrar skýrslu af ákærða eða vitni sem ekki hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi.
2. Hljóð- og myndupptökur – Afhending og aðgangur
Um afhendingu á hljóðupptökum af framburði í héraði til málflytjenda fyrir Landsrétti, aðgang þeirra að myndupptökum svo og aðgang aðila að hljóðupptökum fer eftir verklagsreglum dómstólsýslunnar nr. 15/2018 frá 22. maí 2018 um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa.
3. Rökstuðningur málflytjenda fyrir munnlegri sönnunarfærslu og spilun á skýrslutökum úr héraði
Rökstuðningur fyrir munnlegri sönnunarfærslu
3.1 Samkvæmt e-lið 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal í greinargerð málsaðila til Landsréttar koma fram hvort hann telji nauðsynlegt að afla munnlegra skýrslna eða viðbótarskýrslna fyrir Landsrétti, og þá hverra, ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægilegt að byggja á upptökum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna.
3.2 Í greinargerð komi fram nákvæm tilgreining á ákærðu og vitnum sem óskað er eftir að gefi munnlega skýrslu fyrir Landsrétti og rök fyrir þýðingu skýrslutökunnar. Í greinargerð komi fram með knöppum og greinargóðum hætti eftirfarandi:
a. Hvort um sé að ræða nýja skýrslu eða viðbótarskýrslu.
b. Tilgreining á þeim atriðum sem skýrslugjafa er ætlað að bera um og hvað eigi að leiða í ljós eða færa frekari sönnur á með skýrslutöku.
c. Rökstuðningur fyrir þörf á munnlegri sönnunarfærslu um einstök atriði.
d. Rökstuðningur fyrir því að ekki nægi að spila upptöku af framburði viðkomandi skýrslugjafa fyrir héraðsdómi.
e. Tilvísanir í þau atriði í fyrri framburði sem ætlunin er að spyrja ítarlegar um auk nákvæmrar tilgreiningar blaðsíðutala í málsgögnum þar sem fyrri framburð er að finna.
f. Áætlun um hversu langan tíma hver skýrsla muni taka.
3.3 Í greinargerð þess aðila sem síðar skilar greinargerð komi jafnframt fram afstaða til óska áfrýjanda um nýjar skýrslur og viðbótarskýrslur og rökstuðningur fyrir mótmælum ef um þau er að ræða. Óski sá sem síðar skilar greinargerð eftir nýjum skýrslum eða viðbótarskýrslum á áfrýjandi þess kost að koma á framfæri rökstuddum skriflegum mótmælum við þeim óskum áður en gagnaöflun í máli er lokið. Jafnframt á áfrýjandi, og eftir atvikum sá sem síðar skilar greinargerð, þess kost að koma fram með nýjar óskir um skýrslugjöf ef málatilbúnaður gagnaðila gefur tilefni til þess.
Rökstuðningur fyrir spilun á upptökum af framburði í héraði
3.4 Samkvæmt e-lið 2. mgr. 203. gr. laga um meðferð sakamála er gert ráð fyrir að unnt verði við aðalmeðferð fyrir Landsrétti að spila upptökur af einstökum skýrslum, sem teknar voru í héraði í heild eða að hluta, eftir því sem þurfa þykir vegna sönnunar.
3.5 Í greinargerð komi fram rökstuðningur fyrir þýðingu spilunar sem og nákvæm tilgreining á þeim upptökum sem óskað er eftir að verði spilaðar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti. Í greinargerð komi eftirfarandi atriði fram um spilun á hverjum framburði fyrir sig eða fleiri sameiginlega:
a. Rökstuðningur um þýðingu viðkomandi framburðar fyrir niðurstöðu máls.
b. Rökstuðningur um hvort og þá að hvaða leyti mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðarins, í heild eða hvað varðar einstök atriði, hafi að öðru leyti verið rangt.
c. Hvort leiða eigi í ljós innra ósamræmi í framburði eða ósamræmi milli viðkomandi framburðar og gagna máls eða annars framburðar,
d. Tilvísun í þann framburð eða hluta af framburði fyrir héraðsdómi sem óskað er eftir að verði spilaður, það er blaðsíðutal í málsgögnum þar sem þann framburð er að finna.
3.6 Í greinargerð þess aðila sem síðar skilar greinargerð komi jafnframt fram afstaða til óska áfrýjanda um spilun á hverjum framburði fyrir sig og rökstuðningur fyrir mótmælum ef um þau er að ræða. Áfrýjandi á þess kost að koma á framfæri rökstuddum skriflegum mótmælum, áður en gagnaöflun í máli er lokið, við óskum þess aðila sem síðar skilar greinargerð um spilun á upptökum af framburði. Jafnframt á áfrýjandi, og eftir atvikum sá sem síðar skilar greinargerð, þess kost að koma fram með nýjar óskir um spilun á upptökum ef málatilbúnaður gagnaðila gefur tilefni til þess.
4. Leiðbeiningar Landsréttar um mat á þörf fyrir munnlega sönnunarfærslu og spilun á upptökum fyrir réttinum
4.1 Um skýrslutöku af ákærða fyrir Landsrétti.
4.1.1 Ákærða er í öllum tilfellum heimilt að gefa skýrslu fyrir Landsrétti ef hann óskar þess hvort sem hann hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi eða ekki.
4.1.2 Þegar þess er krafist að sýknudómi verði í heild eða að hluta snúið við og ætla má að niðurstaða þar um verði að einhverju leyti byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða er rétt að ákærði komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu. Ef slík ósk hefur ekki komið fram af hálfu ákærða sjálfs eða ákæruvaldsins skal Landsréttur hafa frumkvæði að því að ákærði gefi skýrslu fyrir réttinum en ákæruvaldið skal þá hlutast til um að ákærði komi fyrir Landsrétt við aðalmeðferð málsins.
4.1.3 Í öðrum sakamálum en um getur í lið 4.1.2 þar sem reynir á sekt eða sýknu eða þegar áfrýjað er til refsiþyngingar eða refsimildunar og ætla má að niðurstaða málsins ráðist að einhverju leyti af mati á munnlegum framburði ákærða er rétt að ákærði komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu. Frá þessu má þó víkja ef ákærði hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi og af hans hálfu er lýst yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að gefa skýrslu fyrir Landsrétti, enda njóti hann aðstoðar verjanda/lögmanns. Liggi afstaða ákærða ekki fyrir skal Landsréttur ganga á eftir því hvort ákærði hyggist gefa skýrslu eða yfirlýsingu hans um að hann vilji ekki gefa skýrslu. Yfirlýsingu ákærða um að hann hyggist ekki gefa skýrslu skal leggja fram í máli eða bóka um hana í þingbók.
4.1.4 Þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði og ætla má að niðurstaða máls ráðist ekki af munnlegum framburði er ekki þörf á að ákærði gefi skýrslu fyrir Landsrétti nema hann óski eftir því.
4.2 Um skýrslutökur af vitnum fyrir Landsrétti.
4.2.1 Þegar þess er krafist að dómi um sýknu ákærða verði í heild eða að hluta snúið við og ætla má að niðurstaða þar um verði að einhverju leyti byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar vitnis sem ætla má að geti borið um atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins (lykilvitni) er rétt að það vitni gefi skýrslu fyrir Landsrétti hvort sem ósk hefur komið fram um það eða ekki. Frá þessu má þó víkja ef vitnið hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi og af hálfu ákærða er því lýst yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að vitnið gefi skýrslu fyrir Landsrétti, enda njóti ákærði aðstoðar verjanda/lögmanns. Yfirlýsingu ákærða skal leggja fram í máli eða bóka um hana í þingbók.
4.2.2 Í öðrum sakamálum en um getur í lið 4.2.1 þar sem reynir á sekt eða sýknu eða þegar áfrýjað er til refsiþyngingar eða refsimildunar og ætla má að niðurstaða málsins geti ráðist af munnlegum framburði vitnis sem borið getur um atriði sem hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins er rétt að vitnið komi fyrir Landsrétt og gefi skýrslu ef þess hefur verið óskað af hálfu ákærða eða ákæruvalds. Ef slík ósk hefur ekki komið fram skal Landsréttur leita eftir skýrri afstöðu ákærða og ákæruvalds til þess hvort óskað sé eftir slíkri skýrslugjöf. Yfirlýsingar ákærða og ákæruvalds um að ekki sé óskað eftir því að leiða slíkt vitni skulu lagðar fram eða bókað um þær í þingbók. Hafi ákærði, sem nýtur aðstoðar verjanda/lögmanns, lýst því yfir með skýrum hætti að hann óski ekki eftir því að vitni, sem þegar hefur gefið skýrslu fyrir héraðsdómi, gefi skýrslu fyrir Landsrétti og ákæruvaldið er sama sinnis, er að jafnaði ekki þörf á að leiða slíkt vitni.
4.2.3 Þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði og ætla má að niðurstaða máls ráðist ekki af munnlegum framburði verða ekki teknar skýrslur af vitnum fyrir Landsrétti nema fallist sé á rökstudda ósk um það af hálfu ákærða eða ákæruvalds og Landsréttur telji þörf á því.
4.3 Spilun á upptökum við aðalmeðferð fyrir Landsrétti.
4.3.1 Þegar Landsréttur hefur ákveðið að ákærði og/eða lykilvitni sem gefið hafa skýrslu fyrir héraðsdómi gefi skýrslu fyrir réttinum skal, áður en skýrsla er gefin, spila upptöku af framburði viðkomandi fyrir héraðsdómi í heild eða þann hluta sem þýðingu er talinn hafa. Landsréttur getur þó þess í stað falið ákæruvaldinu að lesa upp útdrátt úr viðkomandi framburði sem getur að líta í hinum áfrýjaða dómi eða ákæruvaldið tekur saman úr framburði viðkomandi fyrir héraðsdómi. Dómsformaður gefur síðan ákærða eða vitni kost á að gera athugasemdir eða bæta við fyrri framburð og gefur við svo búið málflytjendum kost á að spyrja viðbótarspurninga.
4.3.2 Í öllum sakamálum þar sem reynir á sekt eða sýknu skal við aðalmeðferð fyrir Landsrétti að jafnaði spila í heild eða að hluta upptökur af framburði þeirra ákærðu og vitna í héraði sem Landsréttur metur lykilvitni og ekki gefa skýrslu fyrir Landsrétti hvort sem ósk hefur komið fram þar um eða ekki.
4.3.3 Í öðrum sakamálum en að framan greinir, svo sem þegar eingöngu er áfrýjað til refsiþyngingar eða refsimildunar eða eingöngu er deilt um lagaatriði, verða upptökur af framburði ákærðu og vitna að jafnaði ekki spilaðar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti.
5. Undirbúningsþinghald og tilkynningar
5.1 Samkvæmt 3. mgr. 204. gr. laga um meðferð sakamála getur Landsréttur tekið mál fyrir á dómþingi fyrir aðalmeðferð til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess, þar með talið gagnaöflun og framlagningu gagna, hvaða skýrslutökur verði heimilaðar fyrir Landsrétti og hvaða upptökur verði spilaðar við aðalmeðferð. Dómsformaður getur tekið mál fyrir einn í framangreindu skyni og tekið einn ákvarðanir varðandi rekstur þess sem ekki eru kæranlegar.
5.2 Undirbúningsþinghald fer meðal annars fram til þess að gefa málflytjendum kost á að fjalla nánar um þýðingu munnlegrar sönnunarfærslu og spilunar á myndupptökum af framburði sem gefinn var fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð fyrir Landsrétti ef rökstuddar óskir þar að lútandi hafa komið fram af hálfu málsaðila. Landsréttur getur boðað til þinghalds þótt slík ósk hafi ekki komið fram og þótt ágreiningur sé ekki með aðilum um slíka sönnunarfærslu. Hafi ekki komið fram ósk af hálfu ákærða í greinargerð um að hann gefi skýrslu fyrir Landsrétti skal í undirbúningsþinghaldinu leitast við að fá fram skýra afstöðu hans til þess að gefa skýrslu og skal bókað í þingbók um afstöðu ákærða. Þá er rétt að gefa báðum aðilum kost á að setja fram rökstuddar óskir um að fleiri skýrslur verði teknar af vitnum eða fleiri upptökur spilaðar en þeir hafa þegar óskað eftir í greinargerð. Afstaða málflytjenda í þessum efnum skal bókuð í þingbók.
5.3 Ákvörðun um skýrslutöku fyrir Landsrétti og/eða spilun á myndupptökum er bókuð í þingbók réttarins og sú bókun kynnt málflytjendum með tölvupósti.
5.4 Hafi Landsréttur ekki talið ástæðu til að boða til undirbúningsþinghalds getur rétturinn tekið ákvörðun um munnlega sönnunarfærslu og spilun á myndupptökum á grundvelli greinargerða málsaðila með bókun í þingbók réttarins og skal sú ákvörðun kynnt málflytjendum með tölvupósti. Komi fram rökstuddar óskir um frekari skýrslutökur boðar Landsréttur til undirbúningsþinghalds eða tekur nýja ákvörðun sem tilkynnt er málflytjendum með tölvupósti.
5.5 Ákvörðun Landsréttar varðandi munnlegar skýrslutökur og spilun á myndupptökum verður ekki rökstudd nema sérstakt tilefni þyki til.
5.6 Undirbúningsþinghald skal að jafnaði háð með hæfilegum fyrirvara fyrir aðalmeðferð máls og skal ákvörðun Landsréttar um munnlegar skýrslutökur og spilun á myndupptökum að jafnaði tilkynnt málflytjendum svo skjótt sem verða má fyrir aðalmeðferð málsins. Slíkri ákvörðun skal fylgja áætlun Landsréttar um þann tíma sem gert er ráð fyrir að aðalmeðferð málsins muni taka, þar með talinn hámarksræðutími hvers málflytjanda.
5.7 Sá málflytjandi sem skráður er fyrir málinu í Landsrétti sækir undirbúningsþinghald.
6. Framkvæmd munnlegrar sönnunarfærslu fyrir Landsrétti
6.1 Hafi Landsréttur ákveðið að ákærði gefi skýrslu við aðalmeðferð fyrir Landsrétti gilda ákvæði 113. gr. laga um meðferð sakamála. Boðun vitna, sem Landsréttur hefur ákveðið að gefi skýrslu í sakamáli við aðalmeðferð fyrir Landsrétti, fer eftir 120. og 121. gr. laganna. Vitni skulu almennt kvödd fyrir dóm í samræmi við 2. mgr. 120. gr. sömu laga.
6.2 Um framkvæmd munnlegrar sönnunarfærslu við aðalmeðferð fyrir Landsrétti fer eftir 206. gr. laga um meðferð sakamála.
6.3 Þegar Landsréttur hefur heimilað að tekin verði viðbótarskýrsla af þeim sem gaf skýrslu fyrir héraðsdómi fer skýrslutakan fram í samræmi við lið 4.3.1 í reglum þessum.
6.4 Viðbótarskýrslutökur fyrir Landsrétti skulu vera hnitmiðaðar og ekki fela í sér óþarfa endurtekningu á munnlegri sönnunarfærslu í héraði. Málflytjendur spyrji aðeins um þau atriði sem Landsréttur hefur heimilað að munnleg sönnunarfærsla fari fram um.
6.5 Um munnlega skýrslugjöf fer að öðru leyti eftir XVII. og XVIII. kafla laga um meðferð sakamála um skýrslugjöf ákærðu og vitna.
7. Skýrslutökur í munnlega fluttum kærumálum
Hafi Landsréttur ákveðið að kærumál skuli munnlega flutt fyrir Landsrétti fer um munnlega sönnunarfærslu eftir framangreindum viðmiðum.
8. Gildistaka, brottfall eldri reglna og birting
Viðmiðunarreglur þessar taka gildi 1. apríl 2020 og falla þá úr gildi eldri viðmið og tilmæli Landsréttar til málflytjenda varðandi spilun á upptökum og munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti, frá 30. janúar 2018, að því er varðar sakamál. Leiðbeiningarreglur þessar verða birtar á heimasíðu Landsréttar.
Kópavogi, 25. mars 2020
Hervör Þorvaldsdóttir, forseti Landsréttar
Sakamál - Áfrýjanir
Um áfrýjanir sakamála til Landsréttar fer skv. XXXI. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (sml.).
Ákærði getur áfrýjað dómi í opinberu máli til Landsréttar innan fjögurra vikna (28 daga) frá því héraðsdómur er birtur fyrir honum. Verður ákærði þá að tilkynna áfrýjun bréflega til ríkissaksóknara. Í tilkynningunni skal tekið nákvæmlega fram í hvaða skyni áfrýjað er, sbr. 2. mgr. 199. gr. sml. Ríkissaksóknari getur áfrýjað héraðsdómi innan fjögurra vikna (28 daga) frá uppkvaðningu hans. (3. mgr. 199. gr. sml.)
Dómi verður áfrýjað til að fá:
endurskoðun á ákvörðun viðurlaga,
endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á skýringu eða beitingu réttarreglna,
endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á mati á sönnunargildi gagna eða munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi,
ómerkingu á héraðsdómi og heimvísun máls, eftir frávísun máls frá héraðsdómi.
Sakamáli verður áfrýjað án leyfis Landsréttar ef ákærði hefur sótt þing í héraði og verið:
dæmdur til skilorðsbundinnar eða óskilorðsbundinnar refsivistar,
dæmdur til greiðslu sektar eða eignaupptöku að fjárhæð 1.355.762 krónur eða meira.
sýknaður af kröfum ákæruvalds. Áfrýjun í slíku tilviki tekur til ákæruvalds.
Sakamál – Kærur
Um kærur á dómsúrlausnum héraðsdóms til Landsréttar fer skv. XXX. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (sml.).
Ákvarðanir og úrskurðir dómara sæta kæru til Landsréttar innan þriggja sólarhringa frá því kærandi fékk vitneskju um þá úrlausn sem hann vill kæra.
Þeir úrskurðir héraðsdómara sem tilgreindir eru í stafliðum a - y í 1. mgr. 192. gr. sml. sæta kæru til Landsréttar. Eftir að aðalmeðferð máls er hafin verður úrskurði eða ákvörðun héraðsdómara ekki skotið til æðra dóms, nema úrlausnin sé um atriði, sem greinir í a- til d-liðum 2. mgr. 192. gr. sml.
Héraðsdómari sendir svo fljótt er verða má Landsrétti kæruna ásamt endurritum þinghalda og öðrum gögnum málsins.
Aðilar kærumáls geta sent Landsrétti greinargerðir sínar innan eins sólarhrings frá því kæra berst réttinum. (3. mgr. 194. gr. sml.)
Kæra frestar frekari framkvæmd á grundvelli úrskurðar þar til leyst verður úr máli fyrir æðra dómi, nema um sé að ræða þvingunaraðgerðir skv. IX., X., XI., XII. og XIV. kafla sml. eða ef dómari telur sérstaka ástæðu til að ætla að framkvæmdin geti ekki beðið niðurstöðu Landsréttar. (4. mgr. 193. gr. sml.)
Einkamál – Áfrýjanir
Um áfrýjanir einkamála til Landsréttar fer skv. lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991 (eml.).
Dómi í einkamáli verður áfrýjað til Landsréttar innan fjögurra vikna (28 daga) frá uppkvaðningu hans í héraði. (1. mgr. 153. gr. eml.)
Landsréttur getur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi næstu fjórar vikur eftir lok áfrýjunarfrests. Um skilyrði fer skv. a- til c-liðum 4. mgr. 152. gr. eml., sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016.
Varði mál fjárkröfu er skilyrði áfrýjunar að fjárhæð nemi 1.355.762 króna. Skal ákveða fjárhæð eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ekki er tekið tillit til vaxta, málskostnaðar og þess háttar. Séu kröfur fleiri en ein skal leggja þær saman. (1. og 2. mgr. 152. gr. eml.)
Varði mál annars konar kröfu en fjárkröfu ákveður Landsréttur hvort hagsmunir svari til áfrýjunarfjárhæðar. (3. mgr. 152. gr. eml.)
Nái krafa eða hagsmunir ekki áfrýjunarfjárhæð getur Landsréttur orðið við umsókn um áfrýjunarleyfi. Um skilyrði þess hvort leyfi verði veitt fer skv. a- til c-liðum 4. mgr. 152. gr. eml., sbr. 17. gr. laga nr. 49/2016. Fyrir áfrýjunarleyfi skal greiða 70.000 krónur skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Sá er hyggst áfrýja héraðsdómi skal leggja fyrir Landsrétt áfrýjunarstefnu í tveimur eintökum, ásamt héraðsdómi (1. mgr. 155. gr. eml., sbr. 12. gr. laga nr. 49/2016). Við útgáfu stefnunnar heldur Landsréttur eftir einu eintaki stefnunnar en áfrýjandi fær frumrit afhent. Þetta á jafnframt við þótt áfrýjandi hyggist óska eftir leyfi Landsréttar til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar, sbr. 175. gr. eml.
Fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu skal skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991 greiða 34.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð allt að 3.000.000 króna, 70.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 3.000.000 króna að 30.000.000 króna og vegna mála þar sem krafist er viðurkenningar á réttindum og/eða skyldum, 176.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 30.000.000 króna að 90.000.000 króna, 269.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 90.000.000 króna að 150.000.000 króna og 404.000 krónur af áfrýjunarfjárhæð frá 150.000.000 króna og fjárhæðum umfram það.
Í áfrýjunarstefnu skal Landsréttur tiltaka hvenær stefndi skuli í síðasta lagi tilkynna Landsrétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu. (f-liður 1. mgr. 155. gr. eml., sbr. 19. gr. laga nr. 49/2016) Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en sá frestur stefnda er á enda. (5. mgr. 155. gr. eml.)
Áfrýjandi skal þingfesta mál fyrir Landsrétti í síðasta lagi á sama degi og tilgreindur hefur verið fyrir stefnda til að tilkynna um varnir. (1. mgr. 156. gr. eml.) Frestur til þingfestingar er að jafnaði ákveðinn sex vikur frá útgáfu stefnu, nema sérstaklega standi á. Við þingfestingu skal áfrýjandi afhenda áfrýjunarstefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar, greinargerð af sinni hálfu og málsgögn í fimm eintökum. Um frágang málsgagna fer samkvæmt reglum Landsréttar nr. 2/2018 um málsgögn í einkamálum sem birtar eru á heimasíðu réttarins.
Við þingfestingu skal áfrýjandi greiða þingfestingargjald, 34.000 krónur, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991.
Þegar mál hefur verið þingfest af hálfu áfrýjanda er stefnda veittur frestur til að skila greinargerð af sinni hálfu ef hann hefur tilkynnt að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum. Er sá frestur að jafnaði fjórar vikur. Innan sama frests getur stefndi gagnáfrýjað héraðsdómi, en það verður hann að gera ef hann ætlar að leita breytinga á niðurstöðum dómsins. Hafi stefndi ekki tilkynnt Landsrétti að hann vilji halda uppi vörnum í málinu verður það þegar tekið til dóms án munnlegs málflutnings, en líta verður svo á að stefndi krefjist staðfestingar héraðsdóms. (3. mgr. 158. gr. eml.)
Hafi málsaðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið í greinargerðum sínum, ákveður Landsréttur sameiginlegan frest handa þeim til að ljúka gagnaöflun í málinu og er sá frestur að jafnaði tvær vikur. (1. mgr. 160. gr. eml.)
Þegar gagnaöflun er lokið er máli frestað til málflutnings með tilkynningu réttarins þar um. (1. mgr. 161. gr. eml.)
Einkamál ― Kærur
Dómsathöfn verður kærð til Landsréttar áður en tvær vikur eru liðnar frá uppkvaðningu úrskurðar og ber að afhenda héraðsdómara skriflega kæru innan þess tímamarks. Ef aðili eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur á dómþingi þegar úrskurður er kveðinn upp er kærufrestur hans tvær vikur frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. (1. mgr. 144. gr. eml.)
Fyrir kæru til Landsréttar skal greiða héraðsdómi 70.000 krónur, skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/1991.
Úrskurðir héraðsdómara sæta aðeins kæru til Landsréttar ef þeir fjalla um efnisatriði sem eru talin upp í a- til r-liðum 1. mgr. 143. gr. eml. Eftir að aðalmeðferð máls er hafin verður úrskurði héraðsdómara ekki skotið til æðra dóms, nema hann sé um atriði samkvæmt a- til f-liðum 2. mgr. 143. gr. eml.
Héraðsdómari sendir kæruna til Landsréttar og gagnaðila þess sem kærir svo fljótt sem verða má nema hann kjósi sjálfur að fella kærðan úrskurð úr gildi. (1. mgr. 147. gr. eml.)
Sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn skal senda Landsrétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda Landsrétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Hann skal samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skal fylgja skrá um þau og skulu þau vera í því horfi sem Landsréttur mælir fyrir um. (3. mgr. 147. gr. eml.)
Sóknaraðili ber ábyrgð á því að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem mælt er fyrir um í reglum Landsréttar nr. 1/2018 um kærumálsgögn í einkamálum sem birtar eru á heimasíðu réttarins.
Ef sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn skilar ekki greinargerð, ef því er að skipta, og kærumálsgögn berast ekki Landsrétti innan þess frests sem greinir í 3. mgr. 147. gr. eml. verður ekki frekar af máli. (4. mgr. 147. gr. eml.)
Þegar sá sem kærir úrskurð eða dómsathöfn hefur afhent Landsrétti málsgögn á gagnaðili málsins kost á að skila innan viku til Landsréttar skriflegri greinargerð sem geymir kröfur hans og málsástæður sem byggt er á. Telji hann skorta á að kærandi hafi afhent Landsrétti þau gögn máls sem þörf sé á til að leysa úr kæruefninu getur hann látið fylgja greinargerð sinni þau málsgögn sem hann telur vanta. Kjósi gagnaðili að afhenda gögn af sinni hálfu skal það gert í því horfi sem Landsréttur mælir fyrir um. (148. gr. eml.)
Þegar vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust Landsrétti getur rétturinn lagt dóm á kæruefnið, en jafnan skal þó athuga skjöl sem berast síðar frá aðilum svo framarlega sem málinu er þá ekki lokið. (1. mgr. 149. gr. eml.)
Kæra frestar frekari framkvæmd á grundvelli úrskurðar þar til leyst verður úr máli fyrir æðri dómi. (3. mgr. 144. gr. eml.)
Reglur dómstólasýslunnar nr. 3/2022
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Útgáfa dómsúrlausna og markmið hennar
Um útgáfu dóma og úrskurða á öllum dómstigum og úrskurða Endurupptökudóms á vefsíðum dómstólanna fer eftir því sem segir í 6. mgr. 7., 20., 28. og 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og reglum þessum.
Útgáfa dómsúrlausna skal miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Auk þess er útgáfunni ætlað að styðja við fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu réttarfars um opinbera málsmeðferð sem meðal annars er ætlað að veita dómstólum aðhald og stuðla að því að borgararnir geti treyst því að allir njóti jafnræðis við úrlausn mála fyrir dómstólum.
Við útgáfu dómsúrlausna skal gætt að stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og lagaákvæðum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
2. gr.
Frestur til útgáfu
Dómsúrlausn sem gefin er út samkvæmt reglum þessum skal að jafnaði gefin út á vefsíðu viðkomandi dómstóls innan fimm virkra daga frá uppkvaðningu dóms eða úrskurðar, þó eigi síðar en innan 14virkra daga frá uppkvaðningu.
Dómsúrlausn skal þó ekki gefin út fyrr en liðin er að lágmarki ein klukkustund frá uppkvaðningu svo lögmanni, verjanda eða réttargæslumanni gefist ráðrúm til að upplýsa skjólstæðing sinn um niðurstöðu máls.
Landsréttur getur eigi að síður ákveðið að fresta útgáfu úrskurðar þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds undir rannsókn sakamáls ef rannsóknarhagsmunir krefjast þess.
3. gr.
Viðbótarupplýsingar
Með útgáfu á dómsúrlausn skal fylgja stutt lýsing á sakarefni máls og niðurstöðu þess. Enn fremur skulu fylgja útgáfu efnisorð (lykilorð/uppflettiorð) sem eiga við um mál auk þess sem tilgreina skal í leitarvél þau lagaákvæði sem reyndi á í máli.
4. gr.
Aðferðir til að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga
Unnt er að beita eftirfarandi aðgerðum við útgáfu dómsúrlausnar í þeim tilgangi að tryggja friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga aðila dómsmáls eða annarra sem koma þar við sögu, eftir því sem nánar er tilgreint í reglunum.
Gefa dómsúrlausn ekki út, sbr. 6. og 7. gr.
Gæta nafnleyndar um þá sem greindir eru í dómsúrlausn í samræmi við 9. og 10. gr.
Afmá í dómsúrlausn upplýsingar í samræmi við 12. gr.
Nú verður ekki tryggt að leynd ríki um atriði sem leynt eiga að fara með því að fella út nöfn og/eða eftir atvikum afmá önnur atriði úr dómsúrlausn. Er þá heimilt í stað þess að gefa út dómsúrlausnina sjálfa að gefa út útdrátt þar sem meðal annars kemur fram á hverju niðurstaðan er reist. Jafnframt má ákveða að fresta útgáfu slíks útdráttar sé það til þess fallið að tryggja betur persónuvernd.
Ef sérstakar ástæður mæla með geta forstöðumenn dómstólanna ákveðið að gæta nafnleyndar eða afmá upplýsingar úr dómsúrlausn í ríkari mæli en leiðir af reglum þessum, svo sem ef útgáfa hennar án þess að nöfn eða aðrar upplýsingar séu afmáðar yrði sérstaklega þungbær fyrir aðila eða aðra eða vegna fámenns landsvæðis þar sem atvik máls gerðust eða eru tengd við.
II. KAFLI
Dómsúrlausnir sem gefa skal út
5. gr.
Útgáfa dómsúrlausna Hæstaréttar og Landsréttar
Gefa skal út allar dómsúrlausnir Landsréttar og Hæstaréttar.
Þegar dómsúrlausn Landsréttar eða dómur Hæstaréttar er gefinn út skulu fylgja viðeigandi dómsúrlausnir lægri réttar eða hlekkur á þær. Skal þá gætt að því að útgáfa á dómsúrlausnum lægri réttar sé í samræmi við ákvæði I., III. og IV. kafla reglna þessara þannig að markmiðum 1. gr. þeirra verði náð.
6. gr.
Útgáfa dómsúrlausna í héraði
Dómsúrlausnir í héraði sem fela í sér lyktir máls skulu gefnar út með þeim undantekningum sem fram koma í 2. mgr. þessarar greinar og 7. gr.
Ekki skal gefa út dómsúrlausnir í héraði þegar um er að ræða :
Kröfu um gjaldþrotaskipti.
Kröfu um opinber skipti.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar.
Beiðni um heimild til að leita nauðasamnings.
Mál samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997.
Beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Beiðni um úrskurð á grundvelli laga um horfna menn nr. 44/1981.
Mál samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Mál samkvæmt barnalögum nr. 76/2003.
Mál samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Mál um erfðir.
Kröfu um heimild til beinnar aðfarargerðar (innsetningar- og útburðarmál).
Úrskurð sem gengur undir rekstri máls og felur ekki í sér lokaniðurstöðu þess.
Einkamál þar sem ekki er haldið uppi vörnum.
Kröfu um úrskurð samkvæmt ákvæðum IX.-XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kröfu um breytingu eða niðurfellingu ráðstafana samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Sakamál þar sem refsing er sekt undir áfrýjunarfjárhæð.
7. gr.
Undanþáguheimildir um dómsúrlausnir í héraði
Þegar sérstaklega stendur á getur dómstjóri með hliðsjón af hagsmunum málsaðila eða annarra sem getið er í dómsúrlausn ákveðið að vikið skuli frá ákvæðum 6. gr. Dómstjóri skal skrá rökstuðning fyrir ákvörðun sinni í málaskrá.
Þegar um er að ræða ákvörðun samkvæmt 1. mgr. er dómstjóri ekki bundinn af fresti samkvæmt 1. mgr. 2. gr.
8. gr.
Útgáfa úrskurða Endurupptökudóms
Gefa skal út úrskurði Endurupptökudóms ef sú dómsúrlausn sem leitað hefur verið eftir endurupptöku á hefur verið gefin út í samræmi við reglur þessar.
III. KAFLI
Um nafnleynd við útgáfu dómsúrlausna
9. gr.
Nafnleynd í einkamálum
Við útgáfu allra dómsúrlausna í einkamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir þegar í úrlausn er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna, umgengni við þau og barnavernd. Sama á við þegar fram koma upplýsingar sem viðkvæmar teljast, þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar.
Við útgáfuna skal þá jafnframt má út önnur atriði úr henni sem geta ein og sér eða fleiri saman tengt aðila eða aðra við sakarefnið, svo sem fæðingardaga, heimilisföng, verknaðarstað og vettvang annarra atvika.
Þegar gætt er nafnleyndar skal hún að öðru jöfnu taka til matsmanna og þeirra sem láta í té sérfræði álit.
Nafnleyndar skal gæta um lögaðila ef gæta ber nafnleyndar um fyrirsvarsmann hans.
Við útgáfuna skal jafnframt huga að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
10. gr.
Nafnleynd í sakamálum
Við útgáfu dóma í sakamálum skal gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur nema hann hafi ekki náð 18 ára aldri þegar brot var framið. Einnig skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef birting á nafni hans getur verið andstæð hagsmunum brotaþola eða vitna svo sem vegna fjölskyldutengsla. Við mat á hagsmunum brotaþola skal leita sjónarmiða hans.
Þegar dómi í sakamáli er áfrýjað til æðri réttar skal gæta nafnleyndar um meðákærða, hvort sem hann hefur verið sakfelldur eða sýknaður, ef þeirri niðurstöðu hefur ekki verið áfrýjað til æðra dóms.
Í úrskurðum sem ganga undir rannsókn eða meðferð sakamáls skal Landsréttur gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir. Á það jafnt við um einstaklinga sem lögaðila.
Þegar svo stendur á að Landsréttur eða Hæstiréttur ákveður að gæta nafnleyndar í dómsúrlausn sinni skal ganga úr skugga um að nafnleyndar sé einnig gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs. Sé nafnleyndar ekki gætt í dómsúrlausn lægra dómstigs skal æðra dómstigið óska eftir því að dómur lægra dómstigs verði endurútgefinn með nafnleynd áður en dómur æðra dómstigs er gefinn út.
Við útgáfuna skal jafnframt gæta að þeim atriðum sem getið er um í 4. til 5. tölulið 4. gr.
Við útgáfu úrskurða Endurupptökudóms í sakamálum skal fara eftir ákvæðum greinarinnar eftir því sem við getur átt.
11. gr.
Nafnleynd eftir útgáfu dómsúrlausnar
Að liðnu ári frá því að dómsúrlausn í einkamáli eða sakamáli var gefin út og nafnleynd ekki viðhöfð getur sá sem í hlut á komið á framfæri við forstöðumannviðkomandi dómstóls beiðni um nafnleynd. Skal brugðist við slíkri beiðni svo skjótt sem auðið er.
IV. KAFLI
Um brottnám upplýsinga við útgáfu dómsúrlausnar
12. gr.
Um brottnám upplýsinga í einka- og sakamálum
Við útgáfu dómsúrlausnar skal nema brott upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga eða lögpersóna, upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari þar á meðal persónuupplýsingar um kynþátt, þjóðernisuppruna, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð, lífsskoðun, kynlíf, kynhneigð og kynvitund, heilsufarsupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og lífkennaupplýsingar nema að því leyti sem slík atriði eru kjarni þess máls sem dómsúrlausn lýtur að. Sama á við þótt nafnleyndar hafi verið gætt ef nafnleyndin ein og sér nægir ekki til að vernda þá hagsmuni sem henni er ætlað að vernda.
Afmá skal kennitölur og heimilisföng úr öllum dómsúrlausnum áður en þær eru gefnar út.
Þegar upplýsingar hafa verið afmáðar úr dómsúrlausn skal þess gætt að það sem eftir stendur verði ekki tengt þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda.
Teljist nauðsynlegt að afmá úr dómsúrlausn upplýsingar í þeim mæli að dómsúrlausn, einstakir hlutar hennar eða samhengi verði við það torskilið er heimilt að setja inn í hina útgefnu dómsúrlausn, innan hornklofa, almennar upplýsingar um hvers konar atriði hafi verið afmáð þannig að útgáfan geti þjónað því markmiði sem henni er ætlað að þjóna samkvæmt 1. gr.
Ef nafnleynd tryggir nægilega vernd þeirra hagsmuna sem um ræðir er þó ekki þörf á að afmá upplýsingar úr dómsúrlausn eða eftir atvikum ekki í jafn ríkum mæli.
V. KAFLI
Ábyrgð á útgáfu, eftirlit og kvartanir
13. gr.
Ábyrgð á útgáfu dómsúrlausna
Hver dómstóll fyrir sig er útgefandi dóma og úrskurða sem þar eru kveðnir upp og ber ábyrgð á því að útgáfa þeirra sé í samræmi við reglur þessar.
14. gr.
Eftirlit
Dómstólasýslan fer með eftirlit með reglum þessum og getur komið ábendingum á framfæri um túlkun reglnanna og hvernig rétt sé að bregðast við varðandi framkvæmd þeirra í einstökum tilvikum, sbr. 2. og 3. mgr. 15. gr.
Dómstólasýslan getur að eigin frumkvæði ákveðið að kanna hvort útgáfa dóma sé í samræmi við reglur þessar og komið á framfæri við dómstól eða dómstóla athugasemdum eða ábendingum um túlkun og beitingu reglnanna.
15. gr.
Athugasemdir og kvartanir
Kvörtun eða athugasemd við útgáfu dómsúrlausnar á netinu skal beina til forstöðumanns þess dómstóls sem gefur úrlausnina út.
Hver sá sem telur að brotið hafi verið gegn reglum þessum við útgáfu dómsúrlausnar getur beint athugasemdum eða ábendingum til dómstólasýslunnar að undangenginni úrlausn kvörtunar til þess dómstóls sem stóð að útgáfu dómsúrlausnar.
Unnt er að beina til dómstólasýslunnar almennum athugasemdum eða ábendingum um framkvæmd útgáfu dómsúrlausna.
16. gr.
Tilkynningar
Verði dómstóll var við að útgáfa dómsúrlausnar samræmist ekki reglum þessum skal hann tilkynna dómstólasýslunni um frávikið án ótilhlýðilegrar tafar.
Feli frávikið í sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal dómstóllinn einnig tilkynna viðkomandi um það án ótilhlýðilegrar tafar. Dómstólasýslan gefur út leiðbeiningar um efni slíkrar tilkynningar.
17. gr.
Málsmeðferð
Við meðferð mála vegna ábendinga eða athugasemda skal farið eftir almennum reglum stjórnsýsluréttar eftir því sem við á.
VI. KAFLI
Heimild og gildistaka.
18. gr.
Gildistaka
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 6. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. 41. gr. laga nr. 76/2019, og að höfðu samráði við þá dómstóla sem reglurnar varða. Reglurnar öðlast gildi 1. október 2022 og falla þá úr gildi reglur nr. 3/2019 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
9. júní 2022
Sigurður Tómas Magnússon, formaður stjórnar dómstólasýslunnar
Leiðbeiningar fyrir rafræna afhendingu
Reglur dómstólasýslunnar nr. 4/2022
Tóku gildi 1. janúar 2023
1. grein
Reglur þessar gilda um afhendingu og aðgang málsaðila, brotaþola og lögmanna þeirra, ákæruvaldsins, verjenda og lögmanna málsaðila í einkamálum að hljóð- og myndupptökum samkvæmt 4. mgr. 16. gr. og 2. mgr. 202. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, og 3. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Reglurnar gilda einnig um tilfærslu hljóð- og myndupptaka á milli dómstiga.
2. grein
Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi getur málsaðili, hvort heldur sem er í einkamáli eða sakamáli, fengið, svo fljótt sem auðið er, að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði fyrir dómi á starfstöð hlutaðeigandi dómstóls. Saksóknari, verjandi og lögmaður málsaðila í einkamáli njóta sama réttar sem og brotaþoli og sá sem gætir hagsmuna hans, sé þörf á því til þess að geta gætt hagsmuna brotaþola.
Innan sama tímamarks skal afhenda embætti ríkissaksóknara, verjanda, lögmanni málsaðila í einkamáli eða málsaðila í einkamáli sem ekki nýtur aðstoðar lögmanns hljóðupptökur sé það nauðsynlegt vegna áfrýjunar. Sama á við um þann sem gætir hagsmuna brotaþola sé það nauðsynlegt vegna hagsmunagæslunnar. Aðeins skal afhenda hljóðskrá þótt framburður hafi verið tekinn upp í hljóði og mynd. Hljóðupptökur skal afhenda rafrænt með öruggum hætti.
Eftir þann tíma sem mælt er fyrir um í 1. mgr. má verða við ósk málsaðila, saksóknara, verjanda og lögmanns málsaðila í einkamáli um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur eða fá afhent afrit hljóðupptöku, ef sérstakar ástæður mæla með því svo sem vegna beiðni um endurupptöku máls eða málskots til Mannréttindadómstóls Evrópu. Einnig má verða við slíkri ósk brotaþola og þess sem gætir hagsmuna hans ef þörf er á því til þess að hægt sé að gæta hagsmuna brotaþola.
3. grein
Beiðni um að fá að hlýða og horfa á hljóð- og myndupptökur og fá hljóðupptökur afhentar skal beina til viðkomandi dómstóls. Beiðnin skal vera skrifleg og í henni skal tilgreint í hvaða tilgangi beiðnin sé sett fram.
4. grein
Meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðra dóms eða mál er rekið þar fyrir dómi tekur dómari, eða dómsformaður í fjölskipuðum dómi, ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
Telji dómari, eða eftir atvikum dómsformaður, óheimilt eða óskylt að verða við slíkri ósk kveður hann upp úrskurð um það ef þess er krafist, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir héraðsdómi tekur dómstjóri ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni um aðgang að hljóð- og myndupptökum eða afrit af hljóðupptökum. Eftir að meðferð máls er endanlega lokið fyrir Landsrétti tekur forseti Landsréttar slíka ákvörðun eða kveður upp úrskurð, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og 6. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991.
5. grein
Sá sem fær hljóðupptöku afhenta skal undirrita yfirlýsingu um trúnað á staðlað eyðublað þess dómstóls sem afhendir honum upptökuna. Er honum óheimilt að afhenda öðrum upptökuna, fjölfalda hana eða birta opinberlega. Þó er heimilt að afhenda öðrum upptökuna sé það nauðsynlegt vegna uppritunar í tengslum við áfrýjun máls enda ábyrgist viðkomandi trúnað við uppritun upptökunnar.
Lögmanni sem fær upptöku afhenta er auk þess heimilt að veita skjólstæðingi sínum aðgang að hljóðupptökunni til að hlusta á hana.
6. grein
Þegar máli hefur verið áfrýjað skal sá dómstóll, þar sem mál var rekið, verða við beiðni ríkissaksóknara um afhendingu á upptökum í viðkomandi máli endurgjaldslaust. Skrárnar skulu sendar ríkissaksóknara rafrænt með öruggum hætti.
7. grein
Lögmenn brotaþola í sakamálum og lögmenn málsaðila, eða eftir atvikum aðilar sjálfir, í einkamálum skulu greiða fyrir afrit af hljóðupptöku eftir reglum laga nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.
Verjandi ákærða í sakamálum fær eftirgerð af hljóðupptökum endurgjaldslaust.
8. grein
Allar upptökur skulu færðar á milli dómstiga með rafrænum hætti þegar þörf krefur með því að færa gögnin á milli aðgangsstýrðra mappa í miðlægum kerfum sem viðkomandi dómstólar hafa aðgang að.
Afritun á upptökum á milli dómstiga skal miða við hljóð- og myndskrár á upprunalegu sniði úr FTR-kerfi.
Hver héraðsdómstóll skal skilgreina þá starfsmenn sem eru ábyrgir fyrir því að afrita upptökur yfir á drif sem Landsréttur hefur aðgang að (U-drif) þegar dómsniðurstöðu hefur verið skotið til Landsréttar. Skulu þeir ekki vera fleiri en þörf er á og skulu þeir gæta þess að upprunalegu hljóðskrárnar séu áfram aðgengilegar viðkomandi héraðsdómstól hjá vörsluaðila.
9. grein
Héraðsdómur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Landsréttar og Landsréttur annast uppritun framburða í sakamálum þegar máli er áfrýjað til Hæstaréttar.
Í einkamálum skal lögmaður áfrýjanda, eða eftir atvikum áfrýjandi sjálfur, annast að láta rita upp hljóðupptökur.
10. grein
Við uppritun skal þess gætt að setja inn upplýsingar um tímasetningu á skýrslutökudegi (klukkustund innan dags, mínútu og sekúndu) á spássíu endurrits ekki sjaldnar en einu sinni á hverri blaðsíðu í endurriti.
11. grein
Birting á hljóð- og myndupptökum af munnlegum framburði sem dómstóll hefur annast getur varðað sektum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008.
12. grein
Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 og eru bindandi. Þær öðlast gildi 1. janúar 2023 og falla þá úr gildi reglur nr. 15/2018 um afhendingu og færslu hljóð- og myndskráa frá héraðsdómstólunum.
Þannig samþykkt í stjórn dómstólasýslunnar
10. nóvember 2022
Sigurður Tómas Magnússon
formaður stjórnar dómstólasýslunnar