Sérnám í barnalækningum
Uppbygging náms og framvindumat
Uppbygging
Sérnám í barnalækningum við Barnaspítala Hringsins felur í sér allt að tveggja ára starfsnám, sem byggir á reglubundinni viðveru og klínískri vinnu á deildum Barnaspítalans, þátttöku í vöktum, teymisvinnu og skipulagðri menntun skv. námsáætlun. Námslæknar taki þátt í gerð verklagsreglna og rannsóknum/fagrýni/gæðaverkefnum á námstímanum auk þess að taka þátt í kennslu læknanema og annarra starfstétta eftir atvikum.
Framganga
Framganga í sérnáminu er metin á u.þ.b. hálfs árs fresti á skipulögðum matsfundi með sérnámslækni, handleiðara, kennslustjóra og forstöðumanni fræðasviðs þar sem skráning á þekkingu og klínískri færni í námsskrá (loggbók), niðurstöður prófa og frammistöðumat eru meðal þeirra þátta sem lagðir eru til grundvallar.
Á seinna ári sérnámsins hefur sérnámslæknirinn vaxandi ábyrgð. Felur það m.a. í sér að sérnámslæknirinn gengur einn stofugang og ræðir síðan um sjúklingana við viðkomandi sérfræðilækni og leggur til meðferð. Einnig mun sérnámslæknirinn vinna náið með sérfræðingum hinna ýmsu undirsérgreina, meðal annars á göngudeild. Þá tekur hann aukinn þátt í kennslu læknanema og símenntun barnalækna og annarra starfsstétta.
Formleg kennsla
Formleg kennsla fyrir sérnámslæknahópinn er einn eftirmiðdagur í viku að jafnaði. Að auki er kennsla fyrir alla námslækna eftir morgunfund (tilfellafundir eða endurlífgunaræfing) og í hádeginu þrjá daga vikunnar (þriðjudag til fimmtudags). Grand Round er á föstudögum. Á fimmtudögum eftir morgunfund er fræðslufundur Barnaspítalans. Á 3-4 mánaða fresti er greinafundur (journal club). Ætlast er til að sérnámslæknar taki þátt í þessari fræðslu/kennslu og skrásetja þátttöku sína.
Formlegir fyrirlestrar og fundir:
Þriðjudagar: Klínískt tilfelli
Miðvikudagar: Hádegisfundur
Fimmtudagar: Fræðslufundur Barnaspítala Hringsins
Föstudagur: Grand – round
Fimmtudagur: Formleg BASL-kennsla
Auk þess taka BASLarar þátt í verklegri kennslu læknanema. Einnig eru fræðsluerindi læknanema (greinakynningar) á morgunfundum Barnaspítala Hringsins.
Sérfæðingar sjá um kennslu á föstudögum, skrá yfir fyrirlestra og fyrirlesara er hér
BASL-dagar
BASL-dagur að vori er helgaður faglegum og fræðilegum efnum, rannsóknum BASLara eða annarra og svo framvegis.
BASL-dagur að hausti er meira helgaður klínískum verkefnum, gæðaskjölum, klínískum leiðbeiningum og svo framvegis.
