Sérnám í barnalækningum
Handleiðsla
Almenn handleiðsla
Hver sérnámslæknir hefur sinn handleiðara sem fylgir námslækninum eftir í öllu námsferlinu. Handleiðarinn þarf að hafa lokið handleiðaranámskeiði Royal College of Physicians (educational supervisor). Sérnámslæknir og handleiðari hittast a.m.k. á tveggja mánaða fresti á formlegum fundi þar sem farið er yfir framvindu námsins, væntingar, samskipti við sjúklinga og starfsfólk og hugsanleg vandamál rædd. Námslæknir og handleiðari hittast oftar ef ástæða er til auk þess sem ófromleg samskipti allra sérfræðinga og sérnámslækna á Barnaspítala Hringsins eru mikil. Einnig er handleiðslan vettvangur til að ræða möguleika á vinnu við gæðaverkefni og rannsóknir, starfsþróun og áætlanir um frekara sérnám. Handleiðarinn fer einnig reglulega yfir skráningu í námsskrá sérnámslæknis.
Klínísk handleiðsla
Um er að ræða handleiðslu hjá þeim sérfræðingi á þeirri deild sem sérnámslæknir vinnur á hverju sinni og snýst einkum um daglega klíníska vinnu. Handleiðslan fer m.a. fram með því að handleiðari fylgist með störfum sérnámslæknis og veitir honum endurgjöf, með beinum samtölum þar sem tiltekin mál eru rædd og með því að sérfræðingurinn les yfir og ræðir skráð sjúkragögn sérnámslæknis. Flestir sérfræðingar Barnaspítalans hafa tekið þátt í námskeiði Royal College of Physicians um klíníska handleiðslu.
Einu sinni eða oftar á ári eru haldnir fundir námslæknis með handleiðara, kennslustjóra og forstöðulækni fræðasviðs þar sem farið er yfir framgang hans í sérnáminu. Það sem einkum er lagt til grundvallar er námsskrá, sjálfsmat námslæknis og endurgjöf frá klínískum handleiðurum og öðru samstarfsfólki. Farið er yfir framvindu námsins, styrkleikar námslæknis skoðaðir auk þess sem betur má fara og væntingar sérnámslæknir ræddar. Nánar í kafla 5 í marklýsingu.
