Réttar- og öryggisgeðþjónusta - RÖG
Þjónusta
Réttar- og öryggisgeðþjónustan (RÖG) samanstendur af göngudeild og tveimur legudeildum, réttargeðdeild og öryggisgeðdeild.
Á þessum þremur einingum er tekið á móti einstaklingum sem glíma við flókinn geðrænan og félagslegan vanda. Allar einingar RÖG tilheyra sama stjórnunar- og meðferðarteyminu en persónumiðuð þjónusta við sjúklinga byggir á þverfaglegri teymisvinnu með hugmyndafræði batastefnunnar og „Safewards“ að leiðarljósi.
Ferli innlagna á legudeildir RÖG
Innlagnarferli á legudeildir RÖG getur verið ólíkt og veltur á aðstæðum hverju sinni. Sjúklingar deildanna leggjast ýmist inn frá öðrum deildum Landspítala, stofnunum eða samkvæmt tilmælum dómstóla. Ef aukinna sjúkdómseinkenna verður vart við eftirfylgni á göngudeild geta meðferðaraðilar farið fram á endurinnlögn á legudeildir. Yfirlæknir og deildarstjóri sjá um að stýra flæði sjúklinga.
Réttindi skjólstæðinga RÖG
Sjúklingum er tryggt aðgengi að réttindagæslumanni sínum. Reglulegt upplýsingaflæði um framgang meðferðar er til skipaðra lögráðamanna, tilsjónarmanna og/eða fjárhaldsmanna sjúklinga.
Útskriftir
Við útskrift sjúklinga hefur þeim sem þurfa verið tryggð viðeigandi aðstoð, stuðningur og búseta. Oft er þörf á sérhæfðum úrræðum, svo sem félagslegu húsnæði; íbúðakjarna eða öryggisbúsetu.
Réttargeðdeild
Réttargeðdeild er sérhæfð átta rúma geðdeild. Á deildinni dvelja alla jafna, ósakhæfir sjúklingar með alvarlega geðræna sjúkdóma, sem dæmdir hafa verið til vistunar í viðeigandi úrræði vegna alvarlegra afbrota.
Á réttargeðdeild fer fram persónubundin meðferð sjúklinga og unnið er með þeim að endurhæfingu sem undirbýr þá fyrir að snúa aftur í samfélagið.
Veikindi sjúklinga á réttargeðdeild eru alvarleg, flókin og yfirleitt langvinn og er því algengt að innlagnir á deildinni séu langar og sjúklingar dvelji þar jafnvel í nokkur ár.
Útskriftir sjúklinga af réttargeðdeild geta verið háðar því að viðeigandi úrræði og/eða þjónusta fáist á vegum félagsþjónustu eða innan heilbrigðisþjónustunnar. Dómar sjúklinga eru oft þess eðlis að krafist er endurinnlagnar ef þeir veikjast aftur, fara í neyslu eða sýna ógnandi hegðun.
Rýmkun
Útskrift sjúklinga af réttargeðdeild er háð rýmkun með dómi.
Rýmkunarferlið hefst þegar:
Sjúklingur er metinn í bata og er í góðri samvinnu við meðferðaraðila um meðferð sína.
Lögmaður sækir um rýmkun fyrir hönd sjúklings til Héraðsdóms.
Héraðsdómur sendir umsóknina til ríkissaksóknara sem fer fyrir hönd dómsins.
Ferlið byggir m.a. á sjúkragögnum og mati meðferðaraðila um gang meðferðar.
Þegar rýmkun hefur verið samþykkt og rýmkunardómur gefinn út má hefja útskriftarferli frá deildinni eins og að sækja um viðeigandi búsetu og stuðning ásamt því að skipuleggja nauðsynlega eftirfylgd frá göngudeild RÖG.
Öryggisgeðdeild
Öryggisgeðdeild er sérhæfð átta rúma geðdeild fyrir sjúklinga með alvarlega og flókna geðræna sjúkdóma. Deildin er sérhæfð endurhæfingargeðdeild fyrir sjúklinga sem þurfa á langtímameðferð að halda.
Algengt er að sjúklingar deildarinnar hafi verið sviptir sjálfræði/lögræði tímabundið þegar að innlögn kemur.
Útskriftir sjúklinga af öryggisgeðdeild geta verið háðar því að viðeigandi úrræði og/eða þjónusta fáist á vegum félagsþjónustu eða innan heilbrigðisþjónustunnar.
Göngudeild
Göngudeildarteymi réttar- og öryggisgeðþjónustu sinnir langtíma heildrænni meðferð og eftirfylgd einstaklinga með það að markmiði að veita þeim stuðning við að bæta lífsgæði sín og viðhalda bata.
Skjólstæðingar göngudeildar eiga þar reglulegan tíma en í ákveðnum tilvikum hafa niðurstöður dómstóla áhrif á komutíðni og meðferð á göngudeild.
Aðstandendur
Áhersla er lögð á samstarf við aðstandendur sjúklinga til að styrkja tengsl sjúklinga við sína nánustu, en oft hafa veikindi sjúklings reynt á þessi tengsl. Samstarf við aðstandendur fer fram með formlegum fjölskyldufundum og með óformlegri samskiptum í síma, tölvupóstum eða á deildunum.
Heimsóknir til sjúklinga
Heimsóknir til sjúklinga fara fram á heimsóknarherbergjum deildanna.
Heimsóknargestir þurfa að setja sig í samband við starfsfólk viðkomandi deildar símleiðis og bóka heimsóknartíma.
Heimsóknartímar eru að jafnaði frá 14 til 21 á virkum dögum og frá 11 um helgar og á frídögum, eða samkvæmt samkomulagi.
Miðað er við að heimsóknir vari að hámarki í eina klukkustund í senn.
Meðferðaraðilar geta þurft að takmarka fjölda heimsókna eftir aðstæðum hverju sinni.
Símtöl
Í ákveðnum tilfellum er haft eftirlit með samskiptum sjúklinga við vini og ættingja.
Þá eru skráðir þeir aðilar sem hafa leyfi til að vera í símasambandi við sjúkling.
