Nemendur í sjúkraflutninganámi
Nemendur í sjúkraflutninganámi á Íslandi taka vaktir á nokkrum deildum Landspítala meðan á námi stendur.
Umsjónarfólk sjúkraflutninganema utan Landspítala sendir beiðni til menntadeildar um vaktir fyrir nemana með góðum fyrirvara. Umsjónarfólk upplýsir nemana um hvaða gögnum þeir þurfa að skila inn áður en verknám hefst og varðveitir þau í viðkomandi stofnun. Landspítali ákveður á hverjum tíma hvaða gögn það eru.
Verkefnastjóri menntadeildar úthlutar vöktum til sjúkraflutninganema í samráði við deildarstjóra Landspítala og skráir alla nemendur í nemaskráningarkerfi spítalans.
Nánari upplýsingar:
María Dóra Björnsdóttir verkefnastjóri,
s: 543 5704,
netfang: mariadb@landspitali.is
Leiðbeiningar vegna verknáms
Landspítali leggur ríka áherslu á að deildir spítalans taki á móti nemendum í heilbrigðisgreinum í klínískt verknám. Það er nauðsynlegur þáttur í þjálfun nemenda, gefur starfsfólki tækifæri til að þróast í starfi og stuðlar að uppbyggingu mannauðs innan spítalans.
Skráning
Nauðsynlegt er að skrá alla nemendur, fara vel yfir gátlista fyrir nemendur og umsjónarmenn þeirra, skila undirrituðum skjölum, sjá til þess að nemandi fái auðkenniskort og fylgi reglum um heilsuvernd.
Hverjir sjá um að skrá nemendur?
Umsjónarmenn / ábyrgðarmenn á Landspítala sem samþykkja nemanda til náms eða þjálfunar á spítalanum bera ábyrgð á því að hann sé skráður með því að fylla út eyðublaðið og senda vísinda-, mennta og gæðasviði.
Skólar sem senda nemendur í klínískt nám sjá um það.
Ef nemendur koma á spítalann á vegum einstakra starfsmanna, þá eru þeir ábyrgir fyrir skráningu þeirra.
Hverja á að skrá?
Alla nemendur, eða starfsmenn í námi, sem eru í námi á framhaldsskólastigi, grunnnámi á háskólastigi, diplóma-, meistara- og doktorsnámi og hvers konar klínsku og rannsókartengdu námi.
Alla nemendur, eða starfsmenn í námi, sem eru í námi sem fer allt fram, eða að hluta til á Landspítala, hvort sem um er að ræða félagslegt, klínískt eða rannsóknartengt nám.
Alla nemendur, eða starfsmenn í námi, sem nýta sér skrifstofu- eða vinnuaðstöðu á Landspítala.
Alla nemendur eða starfsmenn í námi, sem vinna að verkefnum sem byggja á gögnum frá Landspítala, hvort sem um er að ræða upplýsingar úr gagnagrunnum eða verkefni þar sem starfsfólk eða sjúklingar eru viðfangsefni.
Alla starfsmenn í sérfræðinámi, þó svo að námið sé samtvinnað starfi við Landspítala, svo sem þegar um er að ræða nám til sérfræðiréttinda.
Nemendur eða starfsfólk í námi, óháð náms- eða starfshlutfalli.
Innlenda sem erlenda nemendur eða starfsmenn í námi.
Allir nemendur undirrita skilmála um að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í námi eða starfi á Landspítala og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls.
Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi, náminu lokið eða því hætt.
Öll vitneskja um sjúklinga, sjúkdóma þeirra og meðferð er að sjálfsögðu háð þagnarskyldu.
Nemandi fær aðgang að rafrænni sjúkraskrá ef við á og undirritar þá yfirlýsingu um að hann samþykki að fara eftir gildandi umgengnisreglum.
Sjá nánar um þagnarskyldu í:
Lög um heilbrigðisstarfsfólk, 17. grein:Trúnaður og þagnarskylda
undir Lög og reglugerðir.
Aðgang að rafrænum kerfum Landspítala fá einungis þeir nemar sem þess þurfa vegna verknáms og hafa undirritað þagnarheit og reglur um notkun sjúkraskrárupplýsinga.
Aðgangur að rafrænum kerfum er einungis í gegnum innri vef Landspítala.
Landspítali gerir kröfur til nemenda og starfsmanna í samræmi við vinnuverndarlög, verklagsreglur um forvarnir og tilmæli sóttvarnarlæknis (dreifibréf 2/2011).
Nauðsynlegt er að nemendur kynni sér eftirfarandi leiðbeiningar um heilsuvernd og uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til að gæta öryggis sjúklinga, nemenda og starfsmanna á spítalanum.
Nemendur undirgangast þær öryggisráðstafanir sem almennt gilda um starfsmenn spítalans á hverjum tíma.
Verði nemendinn fyrir stunguóhappi eða öðrum atvikum innan veggja LSH (skjal á innri vef) eða öðrum atvikum innan veggja LSH sem geta haft áhrif á heilsu hans ber honum að tilkynna það samkvæmt gildandi reglum LSH.
Sama gildir ef nemandinn er valdur að atvikum sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu samstarfsmanna eða sjúklinga.
Til umhugsunar
Samkvæmt 7. gr. b-lið laga um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 er nemandi sem stundar nám á Landspítala slysatryggður meðan á námi stendur. Nemandinn nýtur ekki frekari tryggingaverndar af hálfu opinberra aðila, en er eindregið hvattur til þess að íhuga stöðu sína og þá vernd sem einkavátryggingar veita. Nemar í klínísku námi njóta sömu tryggingaverndar að því er varðar bótaábyrgð gagnvart sjúklingum og starfsmenn spítalans, enda vinna þeir á ábyrgð kennara sinna á Landspítala.
Nánari upplýsingar:
nemar@landspitali.is
Nemendur eru hvattir til að kynna sér ákvæði eftirfarandi laga og reglna:
Lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, sjá einkum 11. grein.
Lög um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, sjá IV. kafla um slysatryggingar einkum 29. grein.
Lög um sjúklingatryggingu nr. 111/2000, sjá einkum 1., 2., 8. og 9., grein.
Lög um heilbrigðisstarfsfólk nr. 34 - 20. janúar 2019. Útgáfa 149a.
