Húð- og kynsjúkdómadeild
Kynsjúkdómarannsóknir
Ráðlagt er að bíða með kynlíf þar til búið er að ganga úr skugga um hvort þú sért með kynsjúkdóm og meðferð er lokið.
Fá tíma í rannsókn
Beiðni um rannsókn fer fram í gegnum Landspítalaappið sem fæst í App Store og Google Play undir nafni Landspítali. Rafræn skilríki eða auðkennisapp þarf til að skrá sig inn. Það er hægt að afbóka bókaðan tíma á netfanginu hudogkyn@landspitali.is.
Þú fyllir út spurningalista í appinu. Eftir 1 til 5 virka daga færðu SMS með strikamerki þegar sýnatökusett er tilbúið í snjallboxi á göngudeild húð- og kynsjúkdóma
Það er hægt að biðja um símtal við hjúkrunarfræðing í spurningalistanum. Hjúkrunarfræðingur hringir samdægurs eða næsta virka dag.
Strikamerkið gildir í 24 klukkustundir og aðeins á opnunartíma deildarinnar á virkum dögum frá 8:15 til 15. Strikamerki sem berst á föstudegi og fyrir frídag, gildir bara þann dag
Ef þú ert ekki með rafræn skilríki geturðu hringt í 543 6050 og fengið spjaldtölvu á staðnum til að svara listanum.
Þegar þú mætir á Kynsjúkdómadeildina
Þú notar strikamerkið sem þú fékkst sent með SMS og sækir sýnatökusett í snjall- /póstbox á biðstofu deildarinnar (opið 8:15 - 15:00). Skannaðu strikamerki í símanum þínum eða sláðu inn númerið (fylgir strikamerkinu) til að opna hólfið.
Gular merkingarnar á gólfi biðstofu vísa leið að snyrtingu.
Einstaklingur tekur sýnin sjálfur á salerni.
Leiðbeiningar um sýnatöku eru á snyrtingu.
Öll sýnaglös eru merkt með nafni og kennitölu, auk þess eru stroksýni merkt hvaðan sýnið er tekið (endaþarmur (e), háls (h), leggöng (s)).
Þegar sýni hefur verið tekið er því skilað í bala á snyrtingu.
Um rannsóknina
Rannsóknin er án viðtals við lækni eða hjúkrunarfræðing.
Skimað er fyrir klamydíu og lekanda.
Ef þú ert með typpi skilar þú þvagsýni.
Ef þú ert með typpi og átt kynlífsfélaga með typpi skilar þú auk þvagsýnis, sýni frá hálsi og/eða endaþarmi.
Ef þú ert með leggöng skilar þú stroksýni frá leggöngum.
Ef þú átt á kynlífsfélaga sem hefur greinst með lekanda skilar þú líka sýni frá hálsi.
Hægt er að óska eftir blóðprufum og símaráðgjöf í appinu.
Til að fá áreiðanlega niðurstöðu þarf að líða 10 dagar frá mögulegu smiti.
Niðurstöður birtast í appinu eftir 1 til 3 virka daga.
Sár á kynfærum eða endaþarmi
Ef einkenni eru ný og/eða mikil (verkir, sviði og sársauki við þvaglát) og þörf þykir á skoðun er í spurningalistanum (í Landspítalaappi) bókuð símaráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi. Hjúkrunarfræðingur hringir samdægurs eða næsta virka dag. Nauðsynlegt er að útiloka klamydíu- og lekandasmit með sýnatöku og ef við á blóðrannsókn fyrir HIV og sárasótt.
Vörtur á kynfærum eða við endaþarm
Ef grunur er um vörtur á kynfærum eða við endaþarm bókar ritari tíma í læknisskoðun á göngudeild húð- og kynsjúkdóma um leið og sýni fyrir klamydíu- og lekanda er skilað.
Hvenær er ráðlagt að taka blóðprufu?
Blóðrannsókn eru nauðsynlega þegar:
Smokkur er ekki notaður eða kynlífsfélagar eru margir.
Saga er um sprautufíkn en þá er einnig æskilegt að óska eftir blóðprufu fyrir lifrarbólgu.
Athuga að ef minna en þrír mánuðir eru frá mögulegu smiti ætti að endurtaka blóðrannsóknir.
Ef þú vilt blóðprufu, merkir þú við í spurningalistanum: „Blóðrannsókn fyrir HIV og sárasótt".
Blóðprufur eru framkvæmdar í Fossvogi. Gengið er inn um Krókinn, aðalinngang spítalans í Fossvogi. Þegar þangað er komið er farið beint áfram að rannsóknarkjarna (E1 er til vinstri). Þegar komið er inn í E-álmuna er beygt strax til hægri að afgreiðslu blóðrannsókna (rannsóknakjarni).
Upplýsingar um smitrakningu
Þú færð með heim rakningablað (pdf) með leiðbeiningum um niðurstöður og smitrakningu. Ef kynsjúkdómur greinist þarf að fylla blaðið út og senda á kyn@landspitali.is eða með öruggri gagnasendingu til göngudeildar húð- og kynsjúkdóma.
Smitrakning er lögbundin fyrir ákveðna sjúkdóma eins og klamydíu, lekanda og HIV. Hún nær yfir allt að eitt ár aftur í tímann. Upplýsingar um smitrakningu:
eru ekki skráðar í sjúkraskrá.
er eytt að rakningu lokinni.
