Öndunarfærasýkingar – Vika 47 2024
28. nóvember 2024
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 47 (18. – 24. nóvember 2024).
Staðan á Íslandi
RS veirusýkingar stefna áfram upp á við en 28 einstaklingar greindust í viku 47, meirihluti þeirra börn tveggja ára eða yngri. Sjö lágu inni á Landspítala með RS veirusýkingu; þrjú börn á aldrinum tveggja ára eða yngri og fjórir í aldurshópnum 65 ára og eldri.
Þrír greindust með inflúensu í viku 47, allir með inflúensutegund A(H3) og í aldurshópnum 15–64 ára. Einn lá á Landspítala með inflúensu.
Í viku 47 greindust sex einstaklingar með COVID-19 og var helmingur þeirra í aldurshópnum 65 ára og eldri. Þrír lágu inni á Landspítala þessa viku með COVID-19.
Um helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en COVID-19, inflúensu eða RS veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fór í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna þokast áfram upp á við og var rúm 39% í viku 47.
Í upphafi árs 2024 jukust greiningar á öndunarfærasýkingum af völdum Mycoplasma. Mycoplasma pneumoniae er baktería sem veldur öndunarvegasýkingum, oftast barka- og berkjubólgu en stundum lungnabólgu. Sóttvarnalæknir hefur ekki tölfræði um staðfestar Mycoplasma sýkingar á Íslandi því sjúkdómurinn er ekki tilkynningarskyldur en fylgst er með klínískum greiningum lækna. Upplýsingum um fjölda klínískra greininga á Mycoplasma hefur nú verið bætt við mælaborðið og sést þar að enn greinast talsvert fleiri í viku hverri en á sama tíma undanfarna vetur. Sjö einstaklingar hafa lagst inn á Landspítala með staðfesta Mycoplasma sýkingu nú í nóvember. Eins og fjallað hefur verið um áður í frétt á vef embættisins og í Farsóttafréttum er viðbúið að Mycoplasma komi í faröldrum á nokkurra ára fresti og fylgir sjúkdómurinn því ekki sambærilegu árstíðarmynstri og veirusýkingar á borð við inflúensu og RS.
Dregið hefur úr fjölda greininga á kíghósta á undanförnum vikum og mánuðum en greiningar höfðu aukist til muna á fyrri hluta ársins. Kíghósti á það einnig til að koma í faröldrum á 3–5 ára fresti. Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking, sérstaklega hjá börnum á fyrstu mánuðum ævinnar, en bólusetning er góð og örugg leið til þess að fyrirbyggja alvarleg veikindi af völdum sjúkdómsins. Upplýsingum um staðfestar greiningar á kíghósta hefur nú verið bætt við mælaborðið. Enginn hefur lagst inn á Landspítala með kíghósta á þessu ári en nokkrar komur hafa verið á bráðamóttöku. Frekar var fjallað um aukningu á kíghósta m.a. í frétt á vef embættisins og í Farsóttafréttum.
Staðan í Evrópu
Faraldur RS veirusýkingar er hafinn í ríkjum ESB/EES líkt og hér á landi. Eins og búast má við hefur sjúkdómurinn mest áhrif á börn yngri en 5 ára.
Heilt yfir er tíðni COVID-19 áfram á niðurleið eftir aukningu á greiningum í sumar. Fjöldi greininga nú er minni eða svipaður og á sama árstíma í fyrra en breytileiki er á milli landa hvað þetta varðar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19.
Enn er almennt lítið um inflúensu en einhver lönd hafa tilkynnt um aukningu. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.
Forvarnir
Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru í gangi og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þeir eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum.
Við minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir