Fara beint í efnið

10. maí 2024

Kíghóstafaraldur á Íslandi og í Evrópu

Í byrjun apríl síðastliðinn greindist fyrsta tilfelli kíghósta hérlendis frá árinu 2019. Síðan þá hafa 35 einstaklingar greinst með staðfestan kíghósta (PCR-próf). Til viðbótar hafa 20 einstaklingar fengið klíníska greiningu (greining læknis án rannsóknar).

Mynd með kíghóstafrétt

Tilfellin eru ekki bundin við ákveðinn hóp en eru flest á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir búa. En tilfelli hafa einnig greinst í öðrum umdæmum. Aldur þeirra sem hafa greinst er á bilinu 2–60 ára.

Sóttvarnalæknir fær ekki tilkynningar um innlagnir á sjúkrahús en samkvæmt samtölum við lækna vitum við af tveimur einstaklingum sem hafa þurft að leggjast inn vegna kíghósta. Í öðru tilfelli var um ungling að ræða en í hinu fullorðinn einstakling en hvorugur var mjög alvarlega veikur.

Ef það eru einstaklingar í viðkvæmum hópi á ykkar heimili og þið teljið kíghósta vera kominn inn á heimilið hafið þá samband við heilsugæsluna ykkar, netspjall Heilsuveru eða Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 varðandi ráðleggingar. Það getur verið ástæða til sýnatöku eða meðferðar. Eins og ávallt ættu veik börn ekki að mæta í leikskóla/skóla og veikir fullorðnir ekki í vinnuna. Einstaklingur með kíghósta getur verið smitandi í 4–5 vikur. Sjá frekari upplýsingar um kíghósta á vef embættis landlæknis.

Bólusetning gegn kíghósta

Ljóst er að kíghósti er í töluverðri dreifingu í samfélaginu um þessar mundir og full ástæða er til að vernda viðkvæma hópa, sem eru sérstaklega börn undir 6 mánaða aldri. Bólusetning er áhrifarík leið til að koma í veg fyrir veikindi vegna kíghósta hjá ungum börnum og einnig til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi hjá öðrum ef þeir smitast. Þá er bólusetning á meðgöngu mikilvæg til að verja nýbura.

Viðkvæmir hópar vegna kíghósta

Þar sem viðkvæmir hópar eru á heimili ætti að hafa sérstaka aðgát ef grunur er um kíghósta í samfélaginu. Fólk ætti einnig að takmarka komur utanaðkomandi inn á heimili ungbarna og barnshafandi meðan kíghóstafaraldur er í gangi. Viðkvæmir hópar vegna kíghósta:

  • Fyrirburar á fyrsta ári,

  • ungbörn undir 6 mánaða,

  • ungbörn á fyrsta ári sem eru óbólusett/bólusett að hluta,

  • barnshafandi (sérstaklega ef fæðing væntanleg innan 2 mánaða) og

  • einstaklingar á öllum aldri sem eru með lungnasjúkdóm eða ónæmisbældir.

Kíghósti í Evrópu

Í nýútgefnu áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) kemur fram að kíghósti er landlægur sjúkdómur í Evrópu og á heimsvísu en á 3–5 ára fresti hafa komið faraldrar. Á árinu 2023 voru tilkynnt yfir 25 þúsund tilfelli í ESB/EES-ríkjum en á þessu ári frá janúar til mars hefur verið tilkynnt um 32 þúsund tilfelli. Til samanburðar þá greindust árið 2019 rúmlega 34 þúsund manns allt árið. Hæsta tíðni kíghósta 2023–2024 hefur verið hjá börnum á fyrsta aldursári en einnig er tíðnin há meðal ungmenna (10–19 ára). Einnig hafa verið fréttir af auknum tilfellum í Bretlandi og Norður-Írlandi, sem eru utan ESB/EES.

Endurteknir faraldrar kíghósta gerast en þessi mikla aukning tilfella nú á sér líklegar skýringar í minni dreifingu kíghósta meðan á COVID-19 heimsfaraldrinum stóð ásamt heldur minni bólusetningarþátttöku á sama tíma, sem hefur leitt til þess að fleiri einstaklingar eru næmir fyrir smiti og veikindum.

Kíghóstabóluefni sem nú eru notuð bólusetningaráætlunum eru mjög áhrifarík og örugg og notkun þeirra dregur verulega úr veikindum og dánartíðni. Ef þátttakan í bólusetningum væri ekki þar sem hún þó er í dag væri staðan enn verri.

Mynd. Þátttaka í bólusetningum barna á Íslandi.II

Mynd. Þátttaka í bólusetningum barna 2017–2022 miðað við bólusetningaráætlun sóttvarnalæknis gegn kíghósta. Númer í sviga segir til um númer skammts sem mælt er með. DTP bóluefni: diphteria (barnaveiki), tetanus (stífkrampi), pertussis (kíghósti).

Sóttvarnalæknir

Tilvísun:

Sóttvarnatofnun Evrópusambandsins (ECDC); 8. maí 2024: Aukning á tilfellum kíghósta innan ESB/EES svæðis