22. janúar 2024
22. janúar 2024
Aukning Mycoplasma öndunarfærasýkinga á Íslandi
Mycoplasma pneumoniae er smágerð bakteria (berfrymingur) sem veldur sýkingum í öndunarvegi, oftast barka- og berkjubólgu en stundum lungnabólgu.
Mycoplasma lungnabólga hefur verið kölluð „ódæmigerð“ eða „köld“ lungnabólga því einkennin eru yfirleitt vægari en i hefðbundinni lungnabólgu, hiti lægri en hósti þrálátur. Smit eru algengust hjá börnum á skólaaldri og ungmennum en allir aldurshópar geta sýkst. Fjölgun Mycoplasma sýkinga í samfélaginu, eða faraldur, kemur fram á nokkurra ára fresti.
Sóttvarnalæknir hefur ekki nákvæma tölfræði um Mycoplasma sýkingar á Íslandi því sjúkdómurinn er ekki skráningarskyldur. Þessi árstími einkennist af fjölgun öndunarfærasýkinga, aðallega af völdum veira, en skv. tölum frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala hafa tíu einstaklingar greinst með M. Pneumoniae í kjarnsýruprófi (PCR) það sem af er árinu 2024. Til samanburðar greindust 38 allt árið 2023 (allir frá og með júlímánuði) en aðeins einn árið 2022. Því hafa óvenjumargir greinst með sýkingu af völdum Mycoplasma pneumoniae síðustu vikur á Íslandi.
Í vetur hefur aukning á Mycoplasma greiningum einnig sést í fleiri Evrópulöndum og víðar. Í Danmörku stendur nú yfir óvenju stór Mycoplasma faraldur sem hófst í lok október 2023. Þar hefur Mycoplasma aðallega greinst hjá börnum á skólaaldri. Um 14% tilfella þar hafa þurft innlögn á sjúkrahús og þá helst fullorðnir einstaklingar. Mycoplasma faraldrar hafa að jafnaði sést á fjögurra ára fresti í Danmörku og síðast veturinn 2019–2020. Á meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst greindust hins vegar afar fáir með Mycoplasma. Sú fækkun smita og minnkað hjarðónæmi gæti átt þátt í óvenjustórri bylgju Mycoplasma þennan vetur.
Greining Mycoplasma öndunarfærasýkinga getur verið erfið án sýklarannsókna en almennt taka læknar ekki sýni þegar einkenni frá öndunarfærum eru væg. Í ljósi fjölgunar á Mycoplasma greiningum hérlendis síðustu vikur og faraldurs Mycoplasma í Evrópu eru læknar hvattir til þess að taka sýni og senda í PCR-rannsókn (kjarnsýrumögnun, atýpísk lungnabólga) á Landspítala ef einkenni benda til „kaldrar“ lungnabólgu. Sýni frá neðri öndunarvegi, til dæmis gott hrákasýni, eru bestu sýnin.
Tímanleg og nákvæm greining getur auðveldað meðferð og rétt val sýklalyfja, sé þörf á þeim. Kjörmeðferð við Mycoplasma lungnabólgu eru sýklalyf úr flokki makrólíða en beta-laktam sýklalyf gagnast ekki við þessum sýkingum. Þá leiðir röng notkun sýklalyfja til óþarfa kostnaðar og getur valdið fylgikvillum auk þess að stuðla að auknu sýklalyfjaónæmi.
Athugasemd: Að gefnu tilefni er rétt að benda á að hjá hraustum einstaklingum ganga vægar Mycoplasma sýkingar oftast yfir án sýklalyfjameðferðar og að það eru ekki óyggjandi gögn fyrir því að slík meðferð hafi mikil áhrif á sjúkdómsgang. Mikilvægt er að forðast ónauðsynlega sýklalyfjanotkun, sérstaklega hjá börnum. Megintilgangur þessarar fréttar er að vekja athygli heilbrigðisstarfsfólks á aukningu á Mycoplasma greiningum í nágrannalöndum og að vísbendingar séu um svipaða aukningu hérlendis í vetur. Heilsugæslan og sjúkrahús meta sem áður hvenær þörf er á sýnatöku til rannsóknar og hvort þörf sé á meðferð, sem sérstaklega á við eldra fólk og ónæmisbælda einstaklinga.
Sóttvarnalæknir