Ölfus gerist Heilsueflandi samfélag
25. maí 2023
Sveitarfélagið Ölfus varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi þann 24. maí 2023. Sveitarfélagið Ölfus er 41. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 96% landsmanna í slíku samfélagi.
Sveitarfélagið Ölfus varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 24. maí síðastliðinn þegar Sandra Dís Hafþórsdóttir staðgengill bæjarstjóra og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn. Viðstaddir voru íbúar á ýmsum aldri þar með talið aðilar úr bæjarstjórn, starfsfólk og fulltrúar í HSAM stýrihópi Ölfuss. Nemendur í 5.-7. bekk grunnskóla Þorlákshafnar sýndu frumsaminn dans við lag Júlí Heiðars tónlistarmanns og leikara úr Þorlákshöfn sem unninn var í umsjá Önnu Berglindar Júlídóttur danskennara. Fulltrúar frá skólum bæjarins, íþróttafélags, heilsugæslu og eldri borgara eiga sæti í HSAM stýrihópnum auk þess sem aðrir hagaðilar verða kallaðir að starfinu eftir þörfum. Jóhanna M. Hjartardóttir sviðsstjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs og Ragnar M. Sigurðsson íþrótta- og tómstundafulltrúi fara fyrir hópnum og eru HSAM tengiliðir Ölfuss.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Sveitarfélagið Ölfus er 41. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 96% landsmanna í slíku samfélagi.
Frekari upplýsingar veitir:
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri heilsueflandi samfélags
gigja.gunnarsdottir@landlaeknir.is