Verkefnið Peatland LIFEline.is formlega hafið
25. september 2025
Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Landbúnaðarháskóla Íslands, Lands og skógar, Náttúrufræðistofnunar, Fuglaverndar, Hafrannsóknastofnunar, Náttúruverndarstofnunar og bresku fuglaverndarsamtakanna Royal Society for the Protection of Birds um verkefnið Peatland Lifeline.is sem sagt var frá nýverið hér á landogskogur.is og snýr að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi með stuðningi Evrópusambandsins. Í tengslum við undirritunina hittist hópur um fimmtíu fulltrúa þessara stofnana og samtaka á upphafsfundi verkefnisins á Hvanneyri.

Landbúnaðarháskóli Íslands fer fyrir verkefninu og í frétt á vef skólans kemur fram að megintilgangur fundarins hafi verið að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru. Farið var skipulega yfir alla meginþætti þessa stóra verkefnis.
Fyrir fundinn hafði forstöðufólk stofnananna og samtakanna sem að verkefninu standa skrifað undir samstarfssamning, Ágúst Sigurðsson fyrir hönd Lands og skógar. Þá tók Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni, Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.
Í heimsókninni hitti sendiherrann rektor Landbúnaðarháskólans, Ragnheiði I. Þórarinsdóttur og samstarfsfólk hennar. Hún tók einnig þátt í leiðsögn um Andakílsvæðið, sem er á Ramsar-skrá yfir votlendi í alþjóðlegum verndarflokki, undir leiðsögn fyrrverandi rektors Landbúnaðarháskólans, Björns Thorsteinssonar prófessors.
Í frétt LbhÍ er haft eftir Dr. Jóhönnu Gísladóttur lektor, sem er í forsvari fyrir Peatland LIFEline.is verkefnið af hálfu LbhÍ, að gríðarleg vinna liggi að baki þessum stóra áfanga en hópurinn sem vann að undirbúningnum hafi strax í umsóknarferlinu verið þess fullviss að verkefnið myndi hljóta brautargengi vegna þess hversu mikilvægt það væri. Þetta sé fyrsta LIFE-verkefnið sem Ísland fær úthlutað til úr náttúru- og lífbreytileikahluta sjóðsins og það sé vonandi bara upphafið að fleiri slíkum verkefnum. Samstarf allra aðila í verkefninu muni leiða af sér aukna fagþekkingu og getu innanlands til þess að efla störf á þessu sviði hérlendis. „Miðað við þá frábæru stemningu sem var á fundinum er ekkert annað í stöðunni en að hefjast handa með sól í hjarta,“ segir Jóhanna orðrétt í fréttinni á vef LbhÍ.
Fréttin á vef Lands og skógar frá 19. september: Milljarður í votlendismálin
Fréttin á vef LbhÍ: Milljarður frá ESB í endurheimt votlendis á Íslandi
Fleiri myndir frá upphafsfundinum á Facebook-síðu LbhÍ

