Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Milljarður í votlendismálin

19. september 2025

Land og skógur hefur ásamt sjö samstarfsaðilum fengið styrk frá LIFE, umhverfis- og loftlagsáætlun Evrópusambandsins. Samtals nemur styrkurinn um einum milljarði króna og markmiðið er að vinna að vernd og endurheimt votlendis.

Mosi í mýri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Verkefnið ber vinnuheitið Peatland LIFEline.is. Auk Lands og skógar stóðu að umsókninni Landbúnaðarháskóli Íslands sem fer fyrir verkefninu, Náttúrufræðistofnun , Náttúruverndarstofnun, Hafrannsóknastofnun, Fuglavernd og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds (RSPB).

Sótt var um í náttúru- og lífbreytileikahluta sjóðsins, en markmiðið með honum er annars vegar að stuðla að vernd og endurheimt evrópskrar náttúru og hins vegar að vinna gegn og snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

Samtals fá stofnanirnar um einn milljarð íslenskra króna til vinna að endurheimt votlendis og koma í veg fyrir frekari hnignun og tapi á votlendi hérlendis. Viðfangsefnið er flókið og krefst ítarlegrar greiningar sem geta leitt til fjölbreyttrar nálgunar við endurheimtina. Stuðst verður við aðferðafræði Alþjóðlegu vistheimtarsamtakanna (SER, www.ser.org) þar sem litið er heildstætt á verkefnið, bæði vistfræðilega og félagslergra þátta.

Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsaloftegunda. Áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og fuglategundirnar lóuþræl, stelk og jaðrakan.

Votlendi á Íslandi hefur um margt sérstöðu miðað við votlendi annars staðar í Evrópu, meðal annars vegna eldvirkni en þættir eins og ungur berggrunnur, áfok og eldgos hafa áhrif á eðli og eiginleika þeirra. Þéttleiki fugla er mikill og og stofnar nokkurra tegunda fugla byggja afkomu sína að verulegu leyti á þessum svæðum. Þess er vænst að verkefnið muni styrkja yfirsýn og auka þekkingu á votlendissvæðum landsins, ástandi þeirra og helstu áskorunum við endurheimt. Auk þessa er lögð mikil áhersla á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Um verkefnið á vef Evrópusambandsins