Uppgræðsla í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 2025
3. desember 2025
Kjötmjöli hefur verið dreift á samtals 245 hektara lands í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á þessu ári. 87 þúsund birkiplöntur voru gróðursettar í 58 hektara. Meðal annars var dreift kjötmjöli í gamla vikurnámu á Vikrum sem töluvert fok hefur verið úr yfir nærliggjandi svæði.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem Land og skógur hefur sent Skeiða- og Gnúpverjahreppi til að upplýsa um þær uppgræðsluframkvæmdir sem stofnunin vann þar að á árinu. Unnið var á þremur svæðum. Á Vikrum frá Hallslaut vestan Þjórsárdalsskógar og upp með Sandá að Reykholti var unnið að gróðursetningu á birki og kjötmjölsdreifingu. Í haust var dreift kjötmjöli á Vikrum eilitlu ofar, vestan Rauðukamba, og sömuleiðis vestan Þjórsárdalsvegar uppi á Hafinu þar sem vegurinn liggur með fram aðrennslisskurðinum að Sultartangavirkjun.

Hluti af því svæði sem kjötmjöli var dreift á var áður innan afréttar Flóa og Skeiða en á síðasta ári var afréttargirðingin færð norðar vegna framkvæmda við Rauðukamba. Svæðið er friðlýst en í friðlýsingarskilmálum kemur þó fram að framkvæmdir vegna verndar og endurheimtar birkiskóga séu undanskildar skilyrði um leyfi Umhverfisstofnunar. Dreifing kjötmjöls á svæðinu er liður í því að endurheimta þar birki en Náttúruverndarstofnun, sem nú hefur umsjón með svæðinu, var upplýst um aðgerðirnar. Kjötmjöl er lífrænn, seinleystur áburður sem reynst hefur mjög vel til uppgræðslu í Þjórsárdal og víðar síðustu ár, meðal annars í Hekluskógaverkefninu.
Kjötmjöl er unnið úr sláturúrgangi í verksmiðju Orkugerðarinnar í Hraungerði í Flóa. Áburðaráhrif kjötmjöls vara í það minnsta í þrjú ár. Land og skógur vinnur að því að draga úr notkun tilbúins áburðar en nota í staðinn lífræn áburðarefni eins og fjallað var um hér í frétt fyrir nokkru. Á næsta ári verður notkun kjötmjöls aukin og meðal annars er í athugun að nota það til uppgræðslu á Norðurlandi, en hingað til hefur notkun þess verið bundin við Suðurland.
Í minnisblaði Lands og skógar til Skeiða- og Gnúpverjahrepps kemur fram að í sumar var birki gróðursett í 58 hektara innan sveitarfélagsins, samtals um 87.000 plöntur. Birkið var gróðursett bæði í lúpínubreiður og svæði sem fengið höfðu kjötmjöl haustið 2024 og vorið 2025. Heildarkostnaður við uppgræðslu- og endurheimtaraðgerðir Lands og skógar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á árinu 2025 var 43 milljónir króna. Á myndinni að ofan er Samson Bjarnar Harðarson fyrir miðju ásamt gróðursetningarmönnum við störf í Þjórsárdal. Myndin er frá honum.

Minnisblaðið nær ekki yfir aðgerðir Lands og skógar í þjóðskóginum í Þjórsárdal en þó kemur fram að þar hafi verið unnið að úrvinnslu viðarafurða eins og flettingu timburs í ýmis verkefni, eldiviðargerð og kurlun ásamt vegagerð, skógarhöggi, endurnýjun girðinga og fleira. Eins er nefnt að Landbótafélag Gnúpverja hafi unnið að landbótum við Sandafell og Rauðá og Afréttarmálafélag Flóa og Skeiða að uppgræðslu á Vikrum.
Nánar má glöggva sig á þessum framkvæmdum ársins á kortum sem birt eru í minnisblaðinu.

Kjötmjölsdreifing á Vikrunum í Þjórsárdal. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson.
