Lífrænn áburður á hraðri uppleið hjá Landi og skógi
23. október 2025
Land og skógur hefur náð miklum árangri í að minnka notkun innflutts tilbúins áburðar og nota í staðinn innlendan lífrænan áburð af ýmsu tagi. Um 25% þess niturs sem dreift er í verkefnum Lands og skógar og samstarfsverkefnum, koma nú úr lífrænum áburði. Þetta sparar mikla peninga auk þess sem minni notkun tilbúins áburðar hefur jákvæð loftslagsáhrif.

Miklu magni áburðarefna er fleygt á hverju ári en önnur flutt til landsins sem tilbúinn áburður. Mynd: Magnús Jóhannsson
Nitur er mikilvægasta áburðarefnið í allri ræktun og landbótum hérlendis enda það efni sem mest skortir í íslenskum jarðvegi. Árið 2009 kom einungis eitt prósent af því nitri sem notað var til uppgræðslu úr lífrænum áburðarefnum, en árið 2024 var hlutfallið komið upp í fjórðung, eða 25 prósent af því nitri sem borið var á uppgræðslusvæði. Þetta gildir þegar litið er á öll verkefni Lands og skógar, þar með talin samstarfsverkefni á borð við Bændur græða landið og fleiri slík. Ef eingöngu eru tekin með í reikninginn þau verkefni sem stofnunin vinnur að á eigin spýtur er hlutfallið enn hærra. Einn tíundi hluti þess niturs sem þá var notað árið 2009 (10%), kom úr lífrænum áburðarefnum, en er nú orðið um helmingur (50%).
Að sögn Magnúsar, H. Jóhannssonar, sérfræðings á sviði rannsókna og þróunar, hefur orðið aukning á notkun allra tegunda lífræns áburðar, mest sauðataðs, seyru og kjötmjöls en á móti kemur að notkun tilbúins áburðar hefur dregist saman. Þessi þróun er í samræmi við stefnu stjórnvalda og stefnu Lands og skógar, meðal annars um aukna sjálfbærni.
Kemur lífi af stað sem leynist í sandinum
Framboð á lífrænum efnum sem nýtanleg eru í landbótastarfi er að aukast í takti við auknar kröfur um meðferð úrgangs og bann við urðun lífrænna úrgangsefna. Nokkuð hefur verið notað af moltu í verkefnum Lands og skógar, einkum á Hólasandi, en þar hefur einnig verið dreift svartvatni, seyru og gor frá sláturhúsum. Útlit er fyrir stóraukið framboð á moltu á landinu en notkun hennar hefur verið ákveðnum vandkvæðum bundin, svo sem vegna plastefna í moltunni og mikils flutningskostnaðar í hlutfalli við niturinnihald hennar. Þessi atriði gætu þó horft til bóta með tímanum. Í skoðunarferð starfsfólks Lands og skógar á Norðurlandi um Hólasand nú á haustdögum mátti meðal annars sjá jákvæð áhrif af einni dreifingu svartvatns á gróðurlaust svæði á Hólasandi eru augljós eins og þessi mynd sýnir:

Salbjörg Matthíasdóttir, héraðsfulltrúi og verkefnastjóri yfir Hólasandi, samstarfsverkefnum og lífrænum áburði á Norðurlandi eystra, sýnir svæði á Hólasandi þar sem seyru var dreift á algjörlega beran sand með þeim árangri að gróður fór að spretta upp af fræi sem leyndist í sandinum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson.
Annað efni sem talsverðar vonir eru bundnar við er mykja frá fiskeldi á landi. Horfur eru á að landeldi stóraukist á komandi árum og í tengslum við það má búast við miklu magni af lífrænu efni á formi fiskeldismykju sem Magnús segir að gæti nýst mjög vel til uppgræðslu. Finna þurfi leiðir til að minnka vatnið í mykjunni svo hagkvæmara verði að nota hana, en eðli málsins samkvæmt er fiskeldismykja í blautari kantinum.
Ekki vanti þó áhugann hjá Landi og skógi um að nýta slík efni og halda þannig áfram að leysa mengandi innfluttan áburð af hólmi með lífrænum innlendum áburðarefnum. Slík efni gefi auk niturs ýmis önnur gagnleg efni fyrir gróðurinn og flýti þannig fyrir því að koma af stað þróttmiklu lífi á uppgræðslu- og skógræktarsvæðum í landinu.

