Landbótasjóður auglýsir eftir styrkumsóknum
2. janúar 2024
Opnað var fyrir umsóknir í Landbótasjóð Lands og skógar í byrjun janúar 2024. Umsóknarfrestur var til og með 31. janúar 2024 og nú hefur verið lokað fyrir umsóknir (1. febrúar).
Styrkir Landbótasjóðs eru veittir félagasamtökum, bændum, sveitarfélögum og öðrum sem yfir landi ráða til verndar og endurheimtar gróðurs og jarðvegs. Áratugurinn 2021 til 2030 tileinkaður endurheimt vistkerfa og eru umráðahafar lands eindregið hvattir til þátttöku. Land og skógur veitir ráðgjöf um framkvæmd þeirra verkefna sem sjóðurinn styrkir og hefur eftirlit með framvindu þeirra og árangri.
Nánar um Landbótasjóð
Landbótasjóður er sjóður á vegum Lands og skógar sem leggur honum til fé til úthlutunar, auk þess sem aðrir aðilar geta lagt sjóðnum til fjármuni. Árlega er úthlutað styrkjum úr sjóðnum í því augnamiði að færa ábyrgð og framkvæmd landgræðsluverkefna heim í héruð
og veita landeigendum, sveitarfélögum, félagasamtökum og öðrum umráðahöfum lands, styrki til landbótaverkefna. Upphæð styrks getur numið allt að 2/3 hlutum kostnaðar við vinnu, tæki og kaup á aðföngum, en þó ekki meiru en sem nemur 10% þess fjár sem til úthlutunar er hverju sinni.
Árið 2023 var úthlutað styrkjum úr Landbótasjóði til um 90 aðila víðs vegar um landið og var heildarstyrkupphæð um 100 milljónir króna eins og verið hefur í nokkur ár.
Land og skógur útvegar fræ af túnvingli og melgresi þar sem Land og skógur þess er talin þörf.
Árið 2022 var unnið á rúmlega 3.000 hekturum en tölur fyrir árið 2023 liggja ekki fyrir enn.
Veittir eru hærri styrkir til þeirra verkefna þar sem unnið er á friðuðu landi en beittu.
Á undanförnum árum hefur nýting á lífrænum áburði aukist sem fellur vel að sjálfbærnimarkmiðum Lands og skógar og sjóðsins.
Við ákvörðun um styrkveitingar er lögð áhersla á:
Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og gróðureyðingar.
Endurheimt gróðurs, jarðvegs og votlendis.
Sjálfbæra landnýtingu.
Bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.
Einstök verkefni geta hlotið styrk til allt að fimm ára, enda fylgi umsókn tímasett aðgerðaáætlun. Styrkþegi þarf að skila áfangaskýrslu og endurskoðaðri áætlun í lok hvers árs á styrktímabilinu.