Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Jólatrén sérlega falleg í ár

1. desember 2025

Vel gengur að uppskera jólatré í þjóðskógunum og trén þykja einstaklega græn og falleg þetta árið. Kveikt var á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar á laugardag, fimmtán metra háu sitkagreni úr Skorradal.

Jóhann Páll Guðnason, yfirverkstjóri hafnarvinniða hjá Faxaflóahöfnum, og Viktor Steingrímsson, skógarhöggsmaður hjá Landi og skógi, eftir að hafa valið Hamborgartréð 2025. Ljósmynd: Steina Matt

Starfsfólk þjóðskóganna fyrir vestan, norðan, austan og sunnan hefur unnið að því undanfarna daga og vikur að sækja jólatré í skógana. Alls staðar hefur gengið vel í snjóleysinu þótt frosthörkur hafi örlítið tafið fyrir á köflum.

Jólaskógur í Haukadal tvær helgar í desember

Jóhannes H. Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, segir að þaðan fari nú um það bil 45 torgtré á ýmsa þéttbýlisstaði á Suður- og Suðvesturlandi, allt til Vestmannaeyja, á Suðurnesin og á höfuðborgarsvæðið. Um 600 heimilistré verði tekin fyrir jólatrjáasölu Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og nokkurra fleiri aðila sem selja trén almenningi. Þessir aðilar ýmist sækja trén sjálfir í starfstöð Lands og skógar í Þjórsárdal eða fá þau send. Hér er myndarlegt torgtré sem Jóhannes tók mynd af tilbúið til flutnings úr Þjórsárdal.

Jóhannes segir að þetta árið hafi flest trén verið tekin í Þjórsárdal og Mosfelli. Um verkið sér starfsfólkið í starfstöð Lands og skógar í Þjórsárdal. Hann segir trén líta sérdeilis vel út í ár eftir gott sumar og haust, dökkgræn og hraustleg. Helgarnar 13.-14. desember og 20.-21. desember verður opið í Haukadalsskógi fyrir fólk sem vill sækja sér jólatréð sjálft í skóginn.

Þinur til Runavíkur og á Bessastaði

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, tekur í sama streng og Jóhannes, trén líti vel út í ár, græn og falleg. Fjöldi torgtrjáa sem tekinn er úr þjóðskógunum eystra í ár er um fimmtán stykki og þau fara á þéttbýlisstaðina í Fjarðabyggð, á Vopnafirði og alla leið á Höfn. Heimilistré verða milli 400 og 500, aðallega stafafura og rauðgreni, auk lítilræðis af blágreni, lindifuru og fjallaþin. Hluti þeirra fer til jólatrjáasölu Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi og hluti verður seldur á jólamarkaðnum Jólakettinum sem verður haldinn á Egilsstöðum 13. desember.

Að venju fer fallegur fjallaþinur frá Hallormsstað til Runavíkur í Færeyjum sem gjöf vinabæjarins Egilsstaða og sömuleiðis þriggja til fjögurra metra fjallaþinur á Bessastaði. Halla Tómasdóttir er fjórði forsetinn sem fær þin að austan. Að sögn Þórs er starfsfólk Lands og skógar Hallormsstað nú í miðjum klíðum að fella jólatrén og gengur nokkuð vel, þótt frost síðustu vikur hafi tafið svolítið fyrir. Yfirleitt séu þrír til fjórir starfsmenn við fellinguna.

Rauðgrenið vex betur en áður

Í þjóðskógum Norðurlands hafa tvö til fjögur úr starfsliði skógarvarðarins unnið við jólatrén að undanförnu. Þaðan koma átta torgtré og stærri jólatré fyrir þessi jól, aðallega úr Vaglaskógi. Þau verða sett upp á nálægum stöðum, segir Rúnar Ísleifsson skógarvörður. Stofutrén verði um hundrað talsins í þetta sinn, helmingurinn rauðgreni, fjórðungur fjallþinur og fjórðungur stafafura. Stofutrén eru aðallega tekin á Vöglum á Þelamörk. Rúnar segir að rauðgrenið líti sérstaklega vel út í ár en fjallaþinurinn og stafafuran séu einnig í góðu lagi. Gjarnan er snjóþungt á þessum árstíma, sérstaklega í Vaglaskógi, en í ár hefur verið mjög auðvelt að eiga við jólatrén vegna lítilla snjóa, segir Rúnar. Líkt og fyrir austan eru töluverðir frostakaflar það eina sem hefur truflað og þegar mikið frost er megi ekkert hreyfa við trjánum.

Rúnar segir að heldur lítið sé að hafa af jólatrjám í þjóðskógunum nyrðra þessi árin því um tíma var lítið gróðursett í því skyni. Á síðustu árum hafi þó verið gróðursett nokkuð af fjallaþin og rauðgreni sem komist í jólatrjáastærð áður en langt um líður. Hann segir athygli vekja að rauðgrenið virðist nú vaxa vel í skógunum og komast fljótt í vöxt miðað við það sem áður þekktist. Hann slær á að það sé nú orðið helmingi fljótara að ná mannhæð. Dagana 5. og 6. desember verður jólatrjáasala í Vaglaskógi þar sem auk jólatrjáa verður hægt að kaupa greinar, eldivið og fleira úr skóginum.

Vesturbyggð orðin sjálfbær um jólatré

Í Skorradal hefur allt gengið með besta móti í jólatrjáavinnunni fyrir utan flensuna sem aðeins tafði fyrir. Að sögn Narfa Hjartarsonar aðstoðarskógarvarðar voru felld 39 torgtré, nær allt sitkagreni en fáein fjögurra metra há rauðgreni og ein jafnhá stafafura. Torgtrén komu flest af Stóru-Drageyri en þau hæstu úr Bakkakoti. Flest fara trén á höfuðborgarsvæðið, segir Narfi, nokkuð á Reykjanesskagann og svo fara alltaf nokkur tré til Snæfellsbæjar. Undanfarna áratugi hafi Vesturbyggð líka fengið tré úr Skorradalnum en ekki lengur. Vesturbyggð sé orðin sjálfbær um jólatré vegna þess hve skógrækt hefur gengið vel á sunnanverðum Vestfjörðum. Því beri að fagna.

Á laugardaginn voru ljósin kveikt á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkur. Sextíu ár eru nú frá því að fyrsta jólatréð var sent frá Hamborg til Reykjavíkur en nú kemur tréð ekki lengur frá Þýskalandi. Að þessu sinni er tréð úr Skorradal þótt gjafmildi og vinskapur Hamborgarbúa við Reykvíkinga sé óbreyttur. Steina Matt tók meðfylgjandi mynd við athöfnina laugardaginn 29. nóvember þar sem börnin fylgdust með jólasveinunum koma til hafnar á hafnsögubáti.

Sjálfsprottnar furur og stolið torgtré

Undanfarinn áratug eða svo hefur ekki mikið verið tekið af stofutrjám úr þjóðskógum Vesturlands en ósk kom frá samstarfsfélögum á Suðurlandi að létta undir með þeim og finna furutré. Narfi segir að það hafi gengið betur en á horfðist en nær allar fururnar sem náðust voru sjálfsáin tré af melum, klöppum og rofnum móum á þremur litlum svæðum í Sarpi og Bakkakoti í Skorradal. Samanlagt hafi náðst 127 furur. Tíðin hafi verið góð, stillt veður og frost í jörðu sem auðveldaði mjög alla traktorsvinnu í kringum torgtrén.

Það eina sem skyggt hefur á er að óprúttinn aðili hirti sérpantað 3,5 metra tré af planinu á Stóru-Drageyri. Þetta mun ekki vera í fyrsta skiptið sem slíkt gerist og jafnvel hefur hent að stolið hafi verið efri hlutanum af sex til tíu metra háum torgtrjám sem felld höfðu verið. Misjafnar eru jólahefðirnar.