Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Þessi frétt er meira en árs gömul

Jólatré úr þjóðskógum

11. desember 2024

Sala jólatrjáa fer senn að ná hámarki fyrir jólin. Jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður á Egilsstöðum um helgina, jólatré verða seld í Vaglaskógi á föstudag og laugardag og nú er seinni helgin fram undan með jólafjöri í Haukadalsskógi þar sem fólk getur komið og sagað sér jólatré. Þar var líf og fjör um síðustu helgi. Mikið hefur líka verið að gera í þjóðskógunum síðustu vikur við að sækja torgtré og heimilistré.

Jóhannes Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi, segir að í ár hafi verið tekin um 35 torgtré í þjóðskógunum á Suðurlandi, frá þriggja metra háum upp í tólf metra þau hæstu. Samlegðaráhrif Landgræðslunnar og Skógræktarinnar hafi nú komið sér vel því trén flutti Bjarni Arnþórsson, vélamaður í Gunnarsholti, á bíl í eigu Lands og skógar í stað þess að kalla þyrfti til verktaka.

Alls hafa verið tekin um átta hundruð heimilistré í Þjórsárdal, Haukadal og í Mosfelli, segir Jóhannes. Flest hafa trén verið seld Byko, Kíwanisklúbbnum Keili á Suðurnesjum og Íþróttafélaginu Hamri í Hveragerði. Svo hafa skógarnir verið opnir svo fólk geti átt góðar stundir og náð sér í jólatré með sínu fólki. Um síðustu helgi var jólahlaðborð á Geysi og í tengslum við það koma margir gestir í Haukdalsskóg og velja sér tré. Í Þjórsárdal bauð Starfsmannafélag Landsvirkjunar sínu fólki að koma og finna sér tré. Opið verður í Haukadalsskógi um næstu helgi milli klukkan ellefu og sextán.

Úr þjóðskógum Austurlands verða send um fimm hundruð stofutré að þessu sinni, segir Þór Þorfinnsson skógarvörður, og að venju verður jólatréð í stofu forseta á Bessastöðum fjallaþinur að austan. Sömuleiðis verður að venju sendur fjallaþinur til Runavíkur í Færeyjum, vinabæjar Egilsstaða. Þá verður hinn árlegi jólamarkaður Jólakötturinn haldinn í Landsnetshúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 14. desember.

Veggtré njóta vaxandi vinsælda við verslanir og fyrirtæki eystra eins og hér má sjá dæmi um:

Í Vaglaskógi verða jólatré til sölu á föstudag og laugardag, 13. og 14. desember, ásamt greinum og ýmsum öðrum afurðum úr skóginum. Rúnar Ísleifsson, skógarvörðurinn á Norðurlandi, segir að jólatré úr norðlensku skógunum verði vart fleiri en 70-80 þetta árið. Skógarbændur hafa að einhverju leyti tekið við keflinu við að útvega jólatré á markaðinn en von er á auknu framboði úr þjóðskógunum nyrðra og eystra eftir nokkur ár ef þörf verður á. Nokkurt hlé varð þar á gróðursetningum til jólatrjáa um hríð en síðustu ár hefur verið gróðursett á ný til að mæta megi mögulegri þörf fyrir jólatré.