Farvegur ábyrgrar tegundanotkunar
10. október 2025
Tveir óháðir sérfræðingar hafa verið fengnir til að leggja línur um tegundaval og tegundanotkun í skógrækt og landgræðslu á Íslandi með tilliti til líffræðilegrar fjölbreytni út frá stöðu þekkingar, reglum og viðmiðum um þessi efni bæði hérlendis og alþjóðlega. Gert er ráð fyrir innlendu og erlendu samráði og að með þessu sé unnið gegn mögulegum neikvæðum áhrifum ræktunar á líffræðilega fjölbreytni.

Sérfræðingarnir sem tekið hafa að sér að stýra þessari vinnu eru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum. Hlutverk þeirra verður að taka saman skýrslu þar sem farið verður yfir stöðu þekkingar, reglna og mála almennt varðandi tegundaval í skógrækt og landgræðslu alþjóðlega sem og hérlendis.
Mat Lands og skógar í samráði við ráðuneyti sitt er að mikilvægt sé að fá til verksins utanaðkomandi sérfræðinga sem þekki málefnið vel og njóti trausts til þessa vandasama verks. Nauðsynlegt sé að skýra og treysta þann grunn sem landgræðslu- og skógræktarstarf á Íslandi hvílir á. Sérfræðingarnir fá það verkefni að greina stöðuna alþjóðlega og hérlendis. Þeir skulu hafa samráð við hver þau sem þeir telja að gætu lagt mikilvæg atriði til málsins hérlendis sem erlendis með það að markmiði að leggja fram leiðir og aðgerðir varðandi tegundanotkun í skógrækt og landgræðslu til framtíðar.
Skyldur Lands og skógar
Í öðrum kafla aðgerðaáætlunar sem fylgir núverandi stefnu stjórnvalda, Landi og lífi, er fjallað um þær aðgerðir sem vinna skuli að til að efla og vernda líffræðilega fjölbreytni og takmarka rask vistkerfa af völdum aðgerða á sviði landgræðslu og skógræktar, við endurheimt votlendis og útbreiðslu gróðurleifa. Land og skógur vinnur aðgerðir í samráði við mikilvæga hagaðila sem eru mislangt komnar hjá stofnuninni:
2.1 Rannsóknir á áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á líffræðilega fjölbreytni. Slíkar rannsóknir eru komnar vel af stað hvað snertir skógarvistkerfi með verkefnunum Skógvist 2 og úrvinnslu úttekta á sjálfsáningu í Íslenskri skógarúttekt (ÍSÚ). Verið er að ýta úr vör verkefnum um nákvæma skoðun á áhrifum endurheimtar votlendis á líffræðilega fjölbreytni í tengslum við LIFEline Peatland verkefnið sem nýtur myndarlegs stuðnings Evrópusambandsins.
2.2 Gerð áhættumats á notkun algengustu trjátegunda í skógrækt. Hér vantar enn mikið inn í myndina og þar er þess vænst að afrakstur þeirrar vinnu sem Bjarni Diðrik og Skúli fara fyrir skipti miklu fyrir þá aðgerð. Rétt er þó að benda á að leiðbeiningar um notkun algengustu trjátegunda í skógrækt eru í sífelldri uppfærslu m.a. samhliða tegunda- og kvæmarannsóknum.
2.3 Ný gæðaviðmið við val á landi til skógræktar. Aðgerð þessi er langt komin með fyrstu útgáfu gæðaviðmiða sem nú eru í innleiðingarferli og prófun. Einnig hefur verið unnið við að þróa og staðfæra staðla um endurheimt vistkerfa og sjálfbæra skógrækt sem eru að komast í innleiðingarferli nú á haustdögum.
2.4 Líffræðileg fjölbreytni í Íslenskri skógarúttekt. Varðandi þessa aðgerð er uppfærsla á aðferðum og umfangi í ÍSÚ langt komin.
Áhættumat algengustu trjátegunda
Efling skógræktar er skilgreind sem mikilvæg aðgerð í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum til 2030 og þar er gert ráð fyrir talsverðri aukningu í skógrækt. Einnig er gert ráð fyrir aukinni skógrækt til viðarnytja og að stigin verði skref til aukinnar sjálfbærni í nýtingu innlends timburs og annarra skógarafurða. Allar aðgerðir til uppgræðslu eða nýræktar skóga, þar á meðal með framandi tegundum, breyta þeim vistkerfum sem fyrir eru, enda er það markmið aðgerðanna. Margar af þeim trjátegundum sem nýttar eru í trjárækt hér á landi sá sér út. Markmið stjórnvalda er að samþætta stefnu í loftslagsmálum, jarðvegsvernd og líffræðilegri fjölbreytni. Því er talin ástæða til að unnið verði áhættumat fyrir notkun algengustu trjátegunda í skógrækt og að útbúa leiðbeiningar um notkun þeirra, hvernig haga skuli vali á landi og að hverju þurfi að gæta. Eins og getið er um í aðgerðaáætlun stjórnvalda er miðað við að útbúnar verði leiðbeiningar um notkun þessara tegunda, hvernig haga skuli vali á landi og að hverju þurfi að gæta til að ræktun valdi ekki neikvæðum áhrifum á líffræðilega fjölbreytni, sbr. aðgerð 2.3 um ný gæðaviðmið við val á landi til skógræktar.
Forysta til farsældar
Markmiðið er að með þeirri vinnu sem hér er lagt af stað verði búið svo um hnúta að þær aðgerðir sem fjallað er um í öðrum kafla Lands og lífs verði skýrar og árangursríkar. Rétt er að ítreka að verkefninu er ætlað að taka til tegundavals í bæði skógrækt og landgræðslu. Hlutverk prófessoranna tveggja, Bjarna Diðriks Sigurðssonar og Skúla Skúlasonar, er ekki að kveða upp úrskurði eða taka ákvarðanir heldur að stýra þessari vinnu í farsælan farveg.
Áætlað er að verkið verði unnið á næstu þremur til sex mánuðum og væntanlega munu þeir Bjarni Diðrik og Skúli muni meðal annars leita til starfsfólks Lands og skógar um upplýsingar og aðstoð eftir þörfum.
Meðfylgjandi mynd tók Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, þegar hann hitti þá Bjarna Diðrik og Skúla á hádegisfundi til að leggja línurnar með þeim um starfið fram undan.
