Vegleg tækjagjöf til HSN á Húsavík
19. september 2024
Framsýn stéttarfélag afhenti Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum veglega tækjagjöf að andvirði 15 milljónir króna í gær. Gjöfin inniheldur fjölda tækja, meðal annars fullkomið hjartaómtæki sem bætir til muna aðstöðu lækna HSN á Húsavík og nágrenni.
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar fylgdi gjöfinni eftir en hún var afhent við hátíðlega athöfn 17. september síðastliðinn. Búnaðurinn samanstendur af fullkomnu hjartaómtæki, göngubretti, sturtustól-setdýnu, stólavog, eyrnaskoðunartæki, meðgöngumonitor, rannsóknartæki D-dimer og vökvadælu. Stuðningur félagasamtaka skiptir stofnunina miklu máli og munar mestu um kaup á hjartaómtæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnuninni en Sigurður Hjörtur Kristjánsson hjartalæknir hóf störf hjá HSN Húsavík í byrjun árs 2023.
Daníel Borgþórsson formaður Styrktarfélags HSN og Bergur Elías Ágústsson stjórnarformaður Dvalarheimilisins Hvamms þökkuðu Framsýn fyrir höfðingja gjöf. Undir það tóku læknar og annað hjúkrunarfólk sem gerðu gestunum grein fyrir notagildi tækjana, þar fór fremstur Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir á sjúkrahúsinu. Í máli þeirra kom fram mikil ánægja með velvild Framsýnar í garð Hvamms og HSN.
Gjafir sem þessar styðja við mikilvægt starf stofnunarinnar og er HSN afar þakklát Framsýn og Styrktarfélagi HSN.
Sjá nánar frétt á heimasíðu Framsýnar https://framsyn.is/2024/09/18/faerdu-styrktarfelagi-hsn-veglega-gjof/
Myndirnar eru frá Framsýn.