Þjónusta í síma 1700 og með netspjalli hefur verið stórefld
21. ágúst 2023
Þjónusta og ráðgjöf um heilsutengd málefni við almenning hefur verið stóraukin í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru. Þjónusta vegna bráðaerinda hjá HSN Akureyri fer nú í gegnum 1700 númerið.
Þjónusta og ráðgjöf um heilsutengd málefni við almenning hefur verið stóraukin í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru.
Hjúkrunarfræðingar og annað sérþjálfað starfsfólk Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Læknavaktarinnar svara símtölum frá almenningi allan sólarhringinn, leysa úr erindum og benda á hvar viðkomandi getur sótt sér þjónustu ef þörf er á. Reynslan af þessari þjónustu sýnir að hægt að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum sem er betri þjónusta fyrir einstaklinginn og dregur jafnframt úr álagi á heilbrigðiskerfið.
HSN á Akureyri hefur innleitt þessa þjónustu hjá heilsugæslunni og fara nú allar bókanir vegna bráðaerinda fram í gegnum 1700. Starfsfólk sem svarar 1700 símanum og netspjallinu gerir allt sem hægt er til að grípa erindi fólks, leysa úr þeim eða koma þeim í réttan farveg.