Skólahjúkrun hjá HSN – gefandi og þakklátt starf
22. mars 2024
Ingibjörg Sólrún Ingimundardóttir, er fagstjóri heilsuverndar grunnskólabarna hjá HSN sem nefnist í daglegu tali skólahjúkrun. Í starfi fagstjóra vinnur hún með skólahjúkrunarfræðingum á öllum starfsstöðvum HSN, allt frá Blönduósi í vestri að Þórshöfn í austri, að þróun þjónustunnar.
Auk þess fylgjast hjúkrunarfræðingar með nýju efni sem kemur reglulega frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. „Við sem sinnum skólahjúkrun á starfsstöðvum HSN erum 17 hjúkrunarfræðingar, allir í hlutastarfi í skólunum. Við hittumst í persónu einu sinni á ári til að fara yfir stöðuna, ræða nýjungar og miðla þekkingu. Þess utan erum við í netsambandi. Við sinnum alls 29 grunnskólum á starfssvæði HSN og nemendafjöldinn er tæplega 4.800 börn af fjölbreyttum þjóðernum.”
Fjölbreytt starf skólahjúkrunarfræðings
Skólahjúkrunarfræðingar sinna forvarnarfræðslu fyrir börn- og unglinga í fyrsta til tíunda bekk, fyrir foreldra og forráðamenn og fyrir kennara og annað starfsfólk í skólunum. Fræðslan hæfir aldri og þroska barnanna. Svo sinna hjúkrunarfræðingar meðal annars bólusetningum og almennu eftirliti með mælingum á hæð, sjón og þyngd.
Skólahjúkrunarfræðingar eru með aðstöðu í öllum skólum til að geta tekið á móti á móti börnum. Viðvera er mismunandi eftir skólum, fer eftir fjölda nemenda, en í stærri skólum er hún dagleg. Flestir skólahjúkrunarfræðingar sinna auk þess annarri hjúkrun meðfram skólahjúkrun. „Það er mikilvægt að vera sýnileg börnunum, en í því felst forvarnagildi. Okkar markmið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra og því mikilvægt að vera til taks. Við vinnum með foreldrum og forráðamönnum, þverfaglega með starfsfólki í skólunum, og öðrum sem koma að málefnum nemenda, eins og félagsþjónustunni, skólaþjónustunni, fulltrúum forvarna, æskulýðsmála og barnavernd. Þannig að starfið er afskaplega fjölbreytt.“
Gefandi að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi
„Það er mjög gefandi að hitta börnin í fyrsta bekk, vera þeim innan handar í daglegu lífi og fylgjast með þeim dafna og þroskast upp skólaþrepin.“ Undanfarin ár hefur samfélagsgerðin breyst og börnum af erlendum uppruna hefur fjölgað í nemendahópunum. „Við erum til taks fyrir börnin og gerum okkar besta til að leiða þau áfram í nýrri menningu og nýju landi. Þetta getur verið mikil áskorun fyrir þau, en það er mjög gefandi að sjá þau ná nýjum takti.“
Bjóða hjúkrunarfræðinemum upp á aðstoð við húsnæði í smærri sveitarfélögum
Ingibjörg hefur umsjón með klínísku námi hjúkrunarnema við HSN. „Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa góð tengsl við háskólana og geta kynnt hjúkrunarfræðinemum starfið hjá okkur. Við höfum verið heppin að fá til okkar árlega frábæra nema sem heimsækja allar deildir hjá HSN, þar á meðal skólahjúkrun. Það hefur verið áskorun að fá til okkar fagfólk í hjúkrun, en við höfum kynnt ungum hjúkrunarfræðinemum í starfsnámi starfið okkar og erum svo vel í sveit sett að geta aðstoðað þá með húsnæði í smærri sveitarfélögum þegar þeir koma til okkar. Það að starfa úti á landi á námstíma gefur þeim dýrmæta reynslu bæði faglega og persónulega og getur auðveldað ákvörðun fyrir unga hjúkrunarfræðinga seinna meir að taka að sér vinnu á nýjum stað landsbyggðinni. “