Samhæfð og vel þjálfuð viðbrögð mikilvæg - HSN á Norðurlandi vestra tekur þátt í hópslysaæfingu.
23. maí 2024
Á dögunum var haldin hópslysaæfing þar sem viðbragðsaðilar af öllu Norðurlandi vestra tóku þátt en æfingin var að frumkvæði lögreglunnar á svæðinu.
Á æfingunni voru viðbrögð við hópslysum æfð og settur upp vettvangur þar sem hópbifreið og þrjár fólksbifreiðar höfðu lent í árekstri og 24 manns slasast.
Mikill undirbúningur átti sér stað í aðdraganda æfingarinnar og fékk starfsfólk HSN meðal annars til liðs við sig fagfólk á sviði bráðahjúkrunar og sjúkraflutninga, sótti fræðslu á vegum Almannavarna og tók þátt í skrifborðsæfingum þar sem allir viðbragðsaðilar komu saman og fóru yfir atburðarrásina og æfðu jafnframt fjarskipti.
Hátt í 200 manns tóku þátt í æfingunni og þar af fjölmargir starfsmenn frá HSN á Blönduósi og Sauðárkróki. Hjúkrunarfræðingar, læknar og aðrir starfsmenn settu upp og störfuðu á svokölluðu „söfnunarsvæði slasaðra“ en það er bráðamóttaka þar sem þolendum úr slysinu er safnað saman til áverkamats og er forgangsraðað í sjúkraflutning eftir eðli og alvarleika meiðsla. Þolendur hljóta svo aðhlynningu á meðan beðið er eftir flutningi á sjúkrahús, en sjúkraflutningamenn HSN tóku þátt í að flytja þá slösuðu.
Fulltrúar frá HSN fóru í aðgerðarstjórn á Blönduósi og einnig var ráðgjafi frá HSN til aðstoðar og rýni á þeim hluta sem snerti hlutverk stofnunarinnar. Að lokinni æfingu var rýnifundur með öllum viðbragðsaðilum þar sem farið var yfir hvað vel var gert og hvað hefði betur mátt fara. Voru allir sammála um ágæti æfingarinnar, að hún hafi gengið vel og verið mikilvægur liður í því að tryggja samhæft og vel þjálfað viðbragð á svæðinu þegar á reynir.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands vill nýta tækifærið til að þakka öðrum viðbragðsaðilum fyrir gott samstarf í aðdraganda æfingar og á æfingunni sjálfri.