Nýr starfsmaður - Verkefnastjóri rafrænna sjúkraskrárkerfa
14. mars 2022
Margrét Víkingsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri rafrænna sjúkraskrárkerfa hjá HSN.
Margrét Víkingsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri rafrænna sjúkraskrárkerfa hjá HSN. Um nýtt starf er að ræða. Starfið var auglýst laust til umsóknar á vef Starfatorgs þann 14 janúar sl. og rann umsóknarfrestur út þann 31. janúar.
Margrét útskrifaðist með BA próf í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2003 með sérhæfingu í markaðsmálum. Árið 2021 lauk hún rannsóknartengdu MA prófi í viðskiptafræði frá sama skóla. Margrét starfaði í 15 ár sem upplýsingafulltrúi hjá Dalvíkurbyggð og sinnti þar m.a. vefumsjón og ritstýringu vefs Dalvíkurbyggðar, kynningar- og markaðsmálum, upplýsingatækni og rafrænni stjórnsýslu ásamt fleiri verkefnum. Margrét hefur einnig nýlega reynslu sem verkefnastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu ehf en þar sinnti hún verkefnastýringu á m.a. vefsíðugerð, vefverslunum, smáforritagerð og ýmsum sérverkefnum og sérforritun.
Margrét hefur störf þann 1. apríl nk. og verður með aðalstarfsstöð á HSN Dalvík en starfar þvert á stofnunina. Við bjóðum Margréti velkomna til starfa.