Mygla í einstaka rýmum á Heilsugæslunni á Akureyri
10. mars 2023
Staðfest hefur verið að mygla er í einstaka rýmum á Heilsugæslunni á Akureyri en starfsfólk hefur kvartað undan lélegum loftgæðum á stöðinni.
Verkfræðiþjónustan Efla hefur tekið út húsnæðið og stjórnar aðgerðum til endurbóta. Ljóst er að framkvæmdir sem ráðast þarf í munu hafa truflandi áhrif á starfsemi heilsugæslunnar og gætu tekið talsverðan tíma.
Lengi hefur verið ljóst að húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri væri illa hæft til að hýsa þá þjónustu sem þar er. Helmingur starfseminnar mun flytjast í endurnýjað húsnæði í Sunnuhlíð í desember á þessu ári. Þá var í þessari viku kynnt alútboð á heilsugæslu við Þórunnarstræti sem á að vera lokið í ágúst 2025. Reynt verður að koma í veg fyrir að framkvæmdirnar sem ráðast þarf í muni hafa áhrif á þjónustu við íbúa.